24.08.1942
Neðri deild: 13. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Skúli Guðmundsson:

Ég vil geta þess í sambandi við þetta mál, að í sjútvn. var nokkuð rætt um, hvort bæta skyldi inn í frv. ákvæði um, að heimilt væri að reisa 5000 mála verksmiðju á Hólmavík, en eins og form. n. gat um, vildi meiri hl. n. ekki á það fallast. Meiri hl. heldur því fram, að ekki sé þörf á fleiri verksmiðjum við Húnaflóa en búið er eða nú ákveðið að reisa. En ég vil benda á, að þó að búið sé að reisa eina einkaverksmiðju og líkur séu til, að önnur verði reist, getur verið jafnmikil þörf fyrir, að ríkið reisi þar verksmiðjur, ekki aðeins á Skagaströnd, heldur líka við vestanverðan flóann. Með þeirri aukningu á síldarverksmiðjum ríkisins, sem nú er verið að gera, má gera ráð fyrir, að meiri hl. af þeim skipum, sem stunda síldveiði, skipti við ríkisverksmiðjurnar, og hafa þau þá engin not af þeim einkaverksmiðjum, sem eru við Húnaflóa. Ég tel því, að allt mæli með, að brtt. hv. 1. þm. Árn. verði samþ.