01.09.1942
Efri deild: 19. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

44. mál, lendingarbætur á Skálum

Frsm. (Ingvar Pálmason) :

Þetta frv. var flutt í Nd. af hv. þm. N.-Þ. og gekk gegnum þá d. breytingalaust. Það fjallar um lendingarbætur á Skálum. Um það mál er það að segja, að árið 1930 fór fram rannsókn á lendingarskilyrðum þarna, en fjhn. hefur ekki átt kost á að kynnast niðurstöðum þeirrar rannsóknar né sjá teikningar þær, sem gerðar voru. Hér er meðal annars um það að ræða að gera varnargarð, og var byrjað á því verki 1930. Var veitt nokkurt fé á fjárl. gegn sama framlagi annars staðar að. Gekk íbúunum erfiðlega að ná í það fé, sem leggja skyldi til móts við framlag ríkissjóðs, en það tókst þó að lokum. Var svo byrjað á þessum garði, en síðan hefur ekkert verið gert í málinu. Hefur staðið á því, að vitað var, að opinbert fé fentist ekki, nema jafnmikið fé a. m. k. kæmi annars staðar að. Þessi byrjun hefur gert mikið gagn, en garðurinn er þó mikils til of stuttur og kemur ekki að fullum notum af þeirri ástæðu, að hann er of lágur, svo að sjórinn rótar grjóti yfir hann í stórbrimi. Þarf því að framlengja garðinn og hækka, svo að hann verði örugg vörn fyrir lendinguna. Aðstandendur hafa óskað þess, að um þetta yrðu sett l., svo að auðveldara yrði að afla fjár til framkvæmdanna með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í frv.

Sjútvn. hefur athugað frv., og þó að skoðanir væru nokkuð skiptar meðal nm. um það, hvort rétt væri að ákveða þetta með l., varð það þó ofan á, að n. féllst á það, því að fyrir þessu eru fordæmi.