12.08.1942
Neðri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

24. mál, raforkusjóður

Sveinbjörn Högnason:

Ég var að velta því fyrir mér, eins og dagblöðin segja, hver mundi verða hrifnastur af að hlusta á annan eins framburð og þann, sem hér hefur fram komið af hálfu þessara tveggja síðustu ræðumanna. Ég er sannfærður um, að það væri útbreiðslumálaráðherrann þýzki, Göbbels, sem væri hrifnastur af þessum lærisveinum sínum. Þeir eru sýnilega þeirrar skoðunar, að sama sé, hvort sagt sé satt eða ósatt, ef þeir geta hjálpað sínum málstað, en það er, eins og menn vita, eitt undirstöðuatriðið í útbreiðslustarfsemi nazista.

Hv. 3. landsk. segir, að framsóknarmenn ættu að hafa hljótt um sig, m. ö. o., það er óþægilegt fyrir andstæðinga. Framsfl. að heyra sannleikann og sjá engin önnur ráð til að útiloka það en þessa aðferð, sem nú er orðin fræg hér í heimi, að binda fyrir munn andstæðingsins og lofa honum ekki að tala. Ég ætla samt, þrátt fyrir það að hv. 3. landsk. yggli brún og vilji segja mér að þegja og öðrum, sem vilja segja, hvað rétt er í þessum málum, að leyfa mér, eins og ég gerði áðan, að halda fram því, sem satt er, og skýra rétt frá gangi þessa máls hér á Alþ. Sérstaklega ætti þessi hv. þm. að blygðast sín, þegar hann segir, að þetta mál hafi verið sérstakt baráttumál Sjálfstfl., þegar hann á síðasta þingi var sérstaklega þrándur í götu þessa máls. Má þar vitna til eins flokksbróður þessa hv. þm., hv. þm. Borgf., sem vann að þessu máli með okkur og sagði, að sjá yrði svo fyrir, að hv. 3. landsk. yrði ekki þrándur í götu þessa frv.

Hv. þm. nefndi till. Jóns Þorlákssonar því til sönnunar, að þetta hefði alltaf verið baráttumál Sjálfstfl. En ég vil spyrja: Ef till. Jóns Þorlákssonar voru svo viturlegar og framsýnar, hvers vegna hefur flokkurinn í öll þessi ár aldrei minnzt á þær, aldrei dottið í hug að bera þær fram, og loks nú, þegar hann raknar úr rotinu eftir öll þessi ár, dettur honum ekki í hug að nota þær? Er það af því, að ekki megi nota það, sem er viturlegt?

Þá segir hann, að Framsfl. hafi alltaf staðið gegn Sogsvirkjuninni og það sé eingöngu Sjálfstfl. að þakka, að hún komst í framkvæmd, en ég held, að allt, sem nýtilegt er við það mál, sé til komið fyrir hjálp framsóknarmanna, en allt, sem er þar ekki eins og það á að vera, er fyrir tilstilli Sjálfstfl. Hann hugsaði eingöngu um sérhagsmuni Reykjavíkur, en sveitirnar skiptu þar engu máli, eins og síðar kom í ljós, þegar búið var að setja stöðina upp. Hvað margir sveitabæir fá rafmagn frá stöðinni? Veit hv. þm. það? Nei, honum er sama. En ég veit það. Það mun vera einn einasti bær. Ef framsóknarmenn hefðu ekki staðið á verði í þessu máli, hefðu sveitirnar, þegar þær hefðu fengið rafmagnið, orðið að kaupa það margfalt hærra verði en notendur í Rvík, en nú er það talið sjálfsagt, að rafmagnið verði selt sama verði til hvers, sem er, en verði ekki skoðað sem einkaþægindi vissra staða eða manna. Er þar með komin viðurkenning á sjónarmiði framsóknarmanna, þó að seint gengi, og lýsi ég ánægju minni yfir, að það skuli koma fram í þessu frv.

Hv. þm. N.-Ísf. (SB) taldi óviðurkvæmilegt að tala um sögu þessa máls eins og ég gerði. Ég skil vel, að þeir kveinki sér við, að hún komi fram, en það er erfitt að ganga fram hjá því, sem satt er, og ekki hægt að draga niður nema nota aðferðir Göbbels, að það sé sama, hvort sagt sé satt eða logið, eins og þessir menn virðast mjög álíta, að sé rétt.

Þá talaði hv. þm. N.-Ísf. um, að samvinna hefði verið um þessi mál að undanförnu, og er það rétt. Það hefur verið samvinna milli framsóknarmanna og nokkurs hluta Sjálfstfl., sérstaklega hv. þm. Borgf. En hvernig hefur sú samvinna verið? Það er ljóst, að ef Framsfl. og Sjálfstfl. hefðu staðið saman óskiptir um málið, hefði verið ómögulegt að hindra það. En hverjir hafa hindrað það? Hafa framsóknarmenn gert það? Ég skora á þennan hv. þm. að fara í þingtíðindin og sjá þar, hver hefur verið afgreiðsla þessa máls, koma með það skriflega staðfest frá skrifstofu Alþ., ef einn einasti framsóknarmaður hefur staðið gegn því. Vilja þeir ekki leita til þess þm. í Sjálfstfl., sem hefur haft samvinnu við framsóknarmenn um málið, hv. þm. Borgf.? Hann getur frætt þá um, hvernig þetta hefur gengið til. Hv. 3. landsk. segir, að við hugsum aðeins um, hver flytji málin, en ekki, hvernig þau séu. Frv., sem um þetta voru flutt, voru tvö. Þau voru svipuð. Þegar svo varð samkomulag um að flytja eitt frv., létum við það strax eftir, að það bæri það nafn, sem þeir höfðu haft á sínu frv. Við létum það líka eftir, að hv. þm. Borgf. yrði 1. flm. En allt kom fyrir ekki. Sjálfstfl. varð og hefur fram til þessa dags verið í vegi fyrir, að hægt væri að útbreiða rafmagn í sveitum þessa lands, og þetta sýnir, hversu fjandsamleg afstaða hv. 3. landsk. hefur verið. Þeir fáu sjálfstæðismenn, sem hafa viljað styðja þetta mál, hafa fengið að ráða því, sem þeir vildu.

Annars er það líka einkennilegt, sem hv. þm. N.-Ísf. segir, að ástæðulaust sé að skipta ríkissjóði. Honum er skipt með því, að fé er lagt til hliðar. En er það ekki alveg eins hér? Hver er munurinn? Það er einhver ný Göbbelsfræði, sem hér er á ferðinni. — Þá hef ég ekki heldur heyrt það á Alþ. fyrr, að flm. frv. tekur það fram, að frv. sé flutt í alvöru. Á að skilja það svo, að annars séu frv. flutt í gríni? Ég hef ekki þekkt þessa skilgreiningu fyrr. Þegar ég hef flutt mál, hefur það jafnan verið af því, að mér voru það sérstök áhugamál, og svo hygg ég, að sé um flesta þm. Þessi nýja skilgreining gefur málinu leiðinlegan blæ, og mér finnst sjálfsagt að gefa flm. strax við 1. umr. tækifæri til að skýra frá því, í hverju hún sé fólgin.

Hv. 3. landsk. var að tala um, að það, sem m. a. hefði staðið í vegi fyrir frv. um rafveitur í dreifbýlinu, væri, að við framsóknarmenn vildum leggja skatt á aðrar rafveitur. Þegar mál þessi voru fyrst á döfinni, var óhugsandi, að ríkissjóður einn rísi undir þeim. Það var engin leið að koma rafmagninu upp til sveitanna, nema aflað væri sérstakra tekjustofna, en þó að nú sé rúmt um hjá ríkissjóði, þá er það engin trygging fyrir því, að almenningur fái rafveitur, því að þegar að fer að sverfa, er nauðsynlegt að skera niður jafnvel hinar þörfustu framkvæmdir, ef ríkissjóður á einn að standa undir þeim. Það er það, sem við höfum jafnan bent á í þessu máli.