03.09.1942
Neðri deild: 20. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

24. mál, raforkusjóður

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Eins og hv. þm. er kunnugt, legg ég litið upp úr þessu frv. Ég tel, að þessi mál verði ekki leyst, fyrr en þær stóru rafveitur, sem nú eru til, verða teknar eignarnámi og rafmagninu síðan dreift út frá þeim. Ég mun því ekki láta mig þetta mál miklu skipta. En mér þykir nú vera komið í óvænt efni með þetta frv. Það mun vera tilætlunin með því að tryggja, að hægt verði að leiða rafmagn út um sveitir landsins. Ed. hefur nú breytt frv. þannig, að stofna skuli 10 millj. kr. sjóð í þessu skyni. Nú er hafinn undirbúningur til rafvirkjunar á 4 stöðum, kauptúnum og sýslum, sem geta þá fengið fé úr þessum sjóði, ef l. eru þannig úr garði gerð, að stj. eigi, eins og stendur í 4. gr., að ákveða með reglugerð, hvernig megi verja fé úr þessum sjóði. Ég hef ekki borið minnsta traust til núv. stj. fyrr né síðar eða einstakra manna, sem í henni sitja. Ég get því verið nokkurn veginn viss um, að þegar dreifbýlið á að fá fé úr þessum sjóði, þá verður þessi stj., þó að hún sitji ekki nema tvo mánuði enn, búin að eyða öllum sjóðnum í rafveitur til kauptúna, sem hv. flm. vilja ekki láta hann fara til. Það getur verið, að þetta þing geti látið stj. vita betur en enn hefur orðið, að hún sé „fungerandi“ og hafi engan þingmeirihluta á bak við sig. En ég efast um, að ábyrgðartilfinning og sómatilfinning þeirra, sem sitja í ráðherrastólunum, sem reyndar er u oftast tómir, sé það mikil, að þeir hugsi mikið um, hvað þeir eiga að gera eða ekki að gera. Það er því á engan hátt því að treysta, að þeir ausi ekki fé úr sjóðnum, t. d. í Seyðisfjörð eða Akureyri, svo að ekkert verði eftir til dreifbýlisins. Ég mun því, þó að ég láti mig þetta mál litlu skipta, koma með brtt. um, að fé verði ekki veitt úr sjóðnum, fyrr en Alþ. hefur tekið ákvarðanir um, hvernig því skuli varið.