12.08.1942
Efri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (663)

9. mál, orlof

Steingrímur Aðalsteinsson:

Ég skal ekki tefja neitt teljandi umr. um þetta mál, en lýsa aðeins yfir, að ég er fylgjandi frv. Eins og hv. flm. tók fram, er það nokkurn veginn algild venja, að það starfsfólk, sem er í fastri vinnu árið um kring og tekur mánaðarlaun, fær sumarorlof lengri eða skemmri tíma, eftir samkomulagi eða samningi við atvinnurekendur. En það, sem sérstaklega skortir á í þessu efni, er það, að verkafólk, sem ekki er í fastri vinnu, heldur vinnur þennan dag hjá þessum og hinn daginn hjá öðrum, það hefur ekki af þeim sökum fengið neitt orlof eða sumarfrí. Nú er með þessu frv. gert ráð fyrir að gera tilraun til þess að veita þessu fólki sams konar aðstöðu eða svipaða til þess að fá sumarfrí. Og ég álít það spor í rétta átt.

Það má vel vera, að ef þetta frv. verður samþ. og til framkvæmdanna kemur, þá komi í ljós ýmsir agnúar að framkvæma það. En ég vil vona samt sem áður, að það verði grundvöllur þess, að fólk almennt fái sumarleyfi. Þess vegna fylgi ég frv., og vænti, að ég megi segja, að þingflokkur Sósíalístaflokksins í heild muni veita því brautargengi hér á þingi.