19.08.1942
Neðri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (738)

58. mál, skipaafgreiðsla Eimskipafélags Íslands h/f

Sveinbjörn Högnason:

Ég vil byrja með því að þakka hæstv. forsrh. (ÓTh) fyrir það, að hann telur mig manna ólíklegastan til þess að verða boðberi sátta, og skilja það frá hans hendi þannig, að ég muni manna ólíklegastur til að sættast við þau öfl, sem hann er fulltrúi fyrir, samkvæmt eðli sínu, uppruna og afstöðu í landsmálum. Þetta er rétt. Ég mun sízt sætta mig við þann peninga- og valdahroka, sem kemur fram hjá þessum manni, sem vill þiggja völd af náð þeirra, sem hættulegastir eru þjóðfélaginu, þó ekki sé nema um stundarsakir. Ég mun seint verða mjög sáttfús við þetta hugarfar.

Viðvíkjandi þeim orðum, sem hv. 2. þm. Reykv. (EOl) var að víkja að mér út af fyrri ræðu minni, verð ég að segja það, að ég gat ekki varizt því undir flutningi þeirrar ræðu hans að brosa öðru hvoru. Fulltrúi úr samsteypuflokkum stj. kemur hér og æpir, næstum eins og í örvæntingu, og segir: Hvað er það, sem Framsfl. vill gera? Það er eins og þessir menn viti ekki sitt rjúkandi ráð eða hvað þeir eigi að gera. Hann segist allan tímann hafa verið að reyna að hlera eftir því, hvað ég vildi gera og hvað Framsfl. vildi gera í þessu efni. Og hæstv. forsrh. tekur undir fyrirspurnina um það, hvað Framsfl. vilji gera í málinu. Það er eins og þessir flokkar vilji ekkert frekar gera en að hlera eftir vilja Framsfl. í þessu efni, því að þeir vita ekkert, hvað þeir eiga að gera. Meiri aumingjadómur hefur aldrei heyrzt á hæstv. Alþ. þau þing, sem ég hef setið, að láta það koma jafn greinilega fram eins og það hefur nú komið fram, að allt sé í voða og stjórnarflokkarnir viti ekkert, hvað eigi að gera, og spyrji þann flokk, sem stendur utan við það að styðja ríkisstjórnina, um það, hvað eigi að gera. Og þeir vita líka, að sá flokkur hefur verið nauðsynlegur í stjórnarsamvinnunni, til þess að eitthvað rétt væri hægt að gera.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði um þrælalög. Hvað eiga þessi l. að heita, ef frv. verður samþ., sem fyrir liggur? Á einhverjum á að klekkja. Hvað á að kalla þau? Kúgunarl. á Eimskipafél. Íslands og atvinnurekendur, ef þeir ekki hlýði því, sem vissir menn fyrirskipa? Er ekki hægt að segja það jafnan, þegar löggjafarvaldið vill gefa út löggjöf til þess að leysa vandamál þjóðfélagsins, að þá sé verið að taka fram fyrir hendurnar á einhverjum manni í þjóðfélaginu? Og þá má segja það, að meira eða minna leyti um alla löggjöf, að hún sé kúgunarl. Og það er mjög athyglisvert fyrir okkur framsóknarmenn að sjá það, þegar í þessari fyrstu viðleitni stjórnarfl. um lausn vandamáls, að þá virðast þeir ætla að fara inn á sömu leiðir eins og við framsóknarmenn.

Ég skal ekki dóm á það leggja, hverjum er um að kenna þessa deilu. Ég hef ekki kynnt mér hana. En stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa fullyrt, að alla þessa erfiðleika mætti leysa með frjálsu samkomulagi milli aðila. Þetta hafa þeir reynt einu sinni áður, með hinni svo kölluðu frjálsu leið. Hv. flm. frv. segir, að síðan 7. ág. hafi verið reynt að semja, en við vitum, hvernig það fór. Ríkisstjórnin hefur orðið að blanda sér í það. Og þessi hv. þm. (EOl), sem talar oft um þrælalög, hann kemur hér með frv. til l., sem, ef samþ. yrði, mundi mjög líkjast að eðli sínu „þrælal.“ þessum. Ég sé því ekki annað en að hann sé kominn inn á braut, sem Framsfl. hefur farið, og hann þar með viðurkenni, að óumflýjanlegt sé að beita henni stundum. Ef ég man rétt, sagði hv. 2. þm. Reykv.: Með þessum samningaleiðum, sem hefur verið reynt að fara, gengur þetta ekki. Hvers vegna er þá verið að telja bæði sjálfum sér og þjóðfélagsþegnunum. trú um, að það sé hægt að gera alla hluti með samningaleiðum? Ég sé engan eðlismun á því, við skulum segja, að atvinnurekendur beiti sinni aðstöðu og því valdi, sem þeir telja sig hafa einhvern tíma til að kúga verkalýðinn, ef þeir telja sig sigurvegara, og hinu, að verkamenn beiti valdi sínu til þess að kúga vinnuveitendur. Og ég tel það enga samninga, ef sigurvegarar beita valdi sínu. Þess vegna tel ég það öfugmæli, þegar verið er að telja þjóðinni trú um, að þessir menn, sem nú deila í kaupgjaldsmálum, geti leyst þá deilu með frjálsum samningum. Þessar umr. hér í dag auglýsa svo frammi fyrir almenningi, að ekki verður um villzt, að það hafa verið blekkingar einar og ósannindi gagnvart þjóðinni, að hægt sé með frjálsum samningum að leysa slík vandamál.

Þá talaði hv. 2. þm. Reykv., 1. flm. þessa frv., um einhverja, sem hafi hér „helzt reynt til að stofna til úlfúðar og beita valdi“. Ég veit ekki, hvort hann beinir því til framsóknarmanna, að við höfum tekið þátt í slíkum uppþotum. En einu sinni, þegar lenti í uppþoti hér milli verkamanna og bæjarstj. Rvíkur, held ég, að framsóknarmenn hafi reynt að afstýra því. Vitanlega er gefið, að lögreglustjórinn, sem þá var, reyndi að taka slíku eins og sjálfsagt er að gera, þegar óvitar eigast við. Og ég held, að allir séu sammála um það, að annar hvor þeirra aðila, sem börðust 9. nóvember 1932, var óviti. En svo fer tvennum sögunum af því, hvor þeirra var óvitinn. Ég veit ekki, hvort það voru verkamenn þá eða meiri hluti bæjarstjórnar Rvíkur, það mega þeir gera upp sín á milli. En ég er sannfærður um, að annar þeirra var óviti.

Ég sé svo í raun og veru enga ástæðu til að ræða þetta meira. Ég skal engan dóm á það leggja, hvað réttmætt er, að kaup verkamanna sé, en ég get bezt trúað því, að það sé ekkert meira ábyrgðarleysi í þessum kröfum og uppfyllingu þeirra heldur en mörgu öðru, sem núverandi stjórnarflokkar eru búnir að framkvæma. Hygg ég, að ekki þurfi vandaðar gerðir til þess að jafnast á við það, sem þeir flokkar eru búnir að gera í þessum efnum síðustu þrjá mánuðina. Það er eins og einn hv. þm. sagði, að á þessum þrem mánuðum hefur þessum flokkum tekizt að rífa niður þriggja ára starf. Það er á nokkrum tímum hægt með sprengjum að eyðileggja heilar borgir, sem hefur tekið aldir að byggja upp. Og með samsteypusprengjunni hefur tekizt að eyðileggja geysimikið í atvinnulífi landsins, og svo er gripið til þess að kenna þeim um, sem stóðu að því að setja gerðardómsl. á sínum tíma.

Hæstv. forsrh. sagði, að gerðardómsl. hefðu aldrei verið framkvæmd. Ég held nú, að það sé ekki rétt, heldur hafi gerðardómsl. verið framkvæmd eins og aðstæður voru til, meðan samstarf var um það í ríkisstjórninni. Þegar aftur á móti var horfið að því ráði af Sjálfstfl. að mynda stjórn með þeim, sem voru á móti gerðardómsl., þá var augljóst, að þau yrðu rifin niður, enda fyrirskipaði hæstv. forsrh. í júní í vor þeim, sem dóminn sátu, að þeir skyldu ekki fella neina úrskurði í kaupgjaldsmálum. Síðan kemur því ekki til greina, að gerðardómsl. hafi haft nein áhrif í þeim efnum. Það er því einkennileg röksemdafærsla, þegar það er borið fram sem röksemd í þessu máli, að sá vandi, sem nú er fyrir dyrum í sambandi við vinnustöðvunina við höfnina, sé að kenna gerðardómsl., sem að því er til ákvörðunar kaupgjalds tekur, eru felld úr gildi fyrir nokkrum mánuðum.