18.08.1942
Efri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (787)

49. mál, bændaskóli Suðurlands

Bjarni Benediktsson:

Ég skal ekki blanda mér mikið í deilur þessa máls, en af því að ég er nýr þm. og hv. þm. Str, beindi þeim orðum til nýrra þm., að þeir skyldu ekki láta mikið á sér kræla, þá vil ég segja nokkur orð til þess að svara þessum hv. þm. Honum finnst hér um mjög óvenjulega aðferð að ræða, að þessi till. til þál. skuli vera borin hér fram, þegar búið er að setja l. um þetta. Það er alls ekki óvenjulegt, heldur miklu frekar algengt fyrirbrigði. Ég leit áðan í Alþt. frá stjórnartíð hans. Tók ég af handahófi til dæmis árin 1935 og 1936. En bæði árin eru fyrstu þáltill., sem fram eru bornar á þessum þingum, hliðstæðar þessari till. til þál., sem hér er til umr., og báðar eru þær fluttar af stuðningsmönnum hv. þm. Str. eða stjórnar hans. Þessar till. til þál. eru ekkert einsdæmi, hvað þetta snertir, og allir vita, að hliðstæðar þáltill. eru bornar fram á hverju einasta þingi.

Till. frá 1935 var flutt af Sigurjóni Á. Ólafssyni og var um að rannsaka landhelgisgæzluna. Vissulega voru til l. um landhelgisgæzlu, en samkv. því, sem hv. þm. Str. vill, þá átti þessi hv. þm. að koma til forsrh. og skjóta þessu að honum utan þings.

Fyrsta till. á næsta þingi, árið 1936, var frá hv. þm. N.-Þ., Gísla Guðmundssyni, og var um að láta fara fram rannsókn á vegastæði í Norður-Þingeyjarsýslu. Samkv. skoðun hv. þm. Str. gat þessi hv. þm. alveg eins hvíslað því að forsrh. að láta framkvæma þetta.

Svona mætti lengi telja, en ég tel þetta nægilegt, og kennsla hv. þm. Str. er því gagnslaus með öllu. Annars furðar enginn sig á þessu hátterni hv. þm. og annarra framsóknarmanna. Þeir telja sig hafa einhver forréttindi í þjóðfélaginu og rjúka upp með offorsi, ef einhver mælir þeim mót. Það er því sannarlega mikið vandamál að venja þessa hv. herra á, að um þá gilda sömu lög og aðra á landi hér.