02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Einar Olgeirsson:

Ég vil leyfa mér út af atburði þeim, er gerðist í Fífuhvammslandi, að beina því til stj. að banna með l. innflutning erl. verkamanna til landsins, og hvort ameríska herstjórnin mundi ekki virða slík lög, ef þau yrðu sett þar að lútandi.

Í samningi þeim, er gerður var við Bandaríki Norður-Ameríku um hervernd Íslands, segir svo m. a.:

„Bandaríkin skuldbinda sig til þess að haga vörnum landsins þannig, að þær veiti íbúum þess eins mikið öryggi og frekast er unnt og að þeir verði fyr ir sem minnstum truflunum af völdum hernaðaraðgerða, og séu þær gerðar í samráði við ísl. stjórnarvöld að svo miklu leyti sem mögulegt er. Vegna fólksfæðar Íslands og hættu þeirrar, er þjóðinni stafar þar af leiðandi af návist fjölmenns herafla, verður einnig að gæta þess vandlega, að einungis úrvalslið sé sent hingað.“

Ákvæðið um íhlutunarrétt ísl. ríkisstj. er því þó nokkuð ákveðið, og er hvergi nokkurs staðar gert ráð fyrir, að flytja skuli inn erl. verkamenn. Auk þess er um það ákvæði, að eigi skuli vera hér nema úrvalslið. Það hefur og komið í ljós, að herstj. virðist vilja virða ísl. l., og ætti hún þá samkv. því að taka tillit til þess, ef Alþ. samþ. l. um að banna innflutning erl. verkamanna í landið.

Ég vildi biðja hæstv. stj. að athuga þetta mál, og vildi ég spyrja hana, hvort þetta mundi ekki framkvæmanlegt og heppilegt að hennar dómi.