07.08.1942
Sameinað þing: 3. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (840)

2. mál, söluverð á síldarmjöli til fóðurbætis

Hermann Jónasson:

Herra forsetl. — Ég tel, að ráðstöfun sú, sem hér um ræðir, sé alveg sjálfsögð. — Ég þarf ekki að taka fram, það sem komið hefur þó fram hér í umr., að þessar ráðstafanir eru ekki eingöngu gerðar fyrir bændurna. Þær eru það aðeins að vissu leyti. En fyrst og fremst eru þær gerðar fyrir þjóðina í heild í þágu framleiðslunnar. Það ætla ég, að muni sýna sig, að þessi heimild muni einmitt verða notuð af kúaeigendum og kúabúum kaupstaðanna eigi síður en sveitabændum. Út af fyrir sig er þetta góð hjálp bændum og öðrum kúaeigendum, en ein sér nær hún þó of skammt um mjólkurframleiðsluna, þar eð ekki er hægt að nota síldarmjöl handa kúm, nema ásamt öðrum fóðurbæti. Það er því sjálfsagt að sjá fyrir honum og eigi sízt til handa kúabúunum hér á Suð-Vesturlandi. Þykir mér líklegt, að stj. hafi gert ráðstafanir til þess, og mun það koma fram í þál. um það mál, sem hér er á dagskrá.

Annars hefur þetta mál tvær hliðar. Önnur er sú, að stj. fær heimild til að tryggja bændum síldarmjöl hjá Síldarverksmiðjum ríkisins við lægra verði en fæst á erlendum markaði, og er mismunurinn á því söluverði og markaðsverði, sem er áætlaður um 1½ millj. kr., að nokkru greiddur til bænda og að nokkru til verksmiðjanna. Hið raunverulaga framleiðsluverð mjölsins mun liggja á milli söluverðsins til bænda og verðs þess, sem fæst á erlendum markaði, og er því í rauninni sú upphæð ein goldin vegna bændanna, sem nemur muninum á framleiðsluverðinu og söluverðinu til þeirra hér innanlands.

Hin hliðin á málinu er sú, að helmingi nefndrar upphæðar eða um 3/4 hlutum úr milljón, er hér verið að verja til aukningar á landbúnaðarframleiðslunni. En hvers vegna er svo komið? Það er af því, að vinnuafl hefur skort til lífsnauðsynlegra framkvæmda og framleiðslu. Og þetta er gert til þess að halda niðri verði landbúnaðarafurða vegna neytendanna. Væri þessi ráðstöfun ekki gerð, leiddi það óhjákvæmilega af sér verðhækkun þessara vara. Ef heildarupphæðin vegna þessara ráðstafana er 1½ millj. kr., þá þarf að greiða ¾ millj. vegna óþarfa vinnuframkvæmda, eyðslu vinnuaflsins. Og ég læt ósagt mál, hve mikið hefur verið greitt úr ríkissjóði til þess að halda niðri verði á neyzluvörum. Með réttri notkun vinnuaflsins hefði stj. getað sparað ½-¾ millj. kr.

Það rekur að því, ef ekki verða gerðar ráðstafanir til að skipuleggja vinnuaflið, að ríkið geri þær neyðarráðstafanir, sem þarf, og er það svo sjálfsagt, að ekki þarf að ræða það. En hér er líka að ræða um allt að helmingi meira síldarmjöl í ár en endranær, a. m. k. einum þriðja meira.