09.09.1942
Sameinað þing: 19. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

Þinglausnir og þingrof

Ríkisstjóri (Sveinn Björnsson):

Í ríkisráði í dag var gefið út svo látandi ríkisstjórabréf: Ríkisstjóri Íslands gerir kunnugt: Alþingi það, er nú situr, 60. löggjafarþing, hefur samþ. frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá ríkisins, 18. maí 1920, sbr. stjórnarskipunarlög nr. 22 24. marz 1934 og nr. 78 1. sept. 1942, og verður því samkv. 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. téð stjórnarskipunarlög, að rjúfa Alþingi.

Þingrof kemur þó ekki þannig til framkvæmda nú þegar, að umboð þingmanna falli niður á þessum degi, sbr. 3. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 78 1. sept. 1942, en störfum yfirstandandi þings er hins vegar að verða lokið. Hef ég því ákveðið að slíta aukafundi Alþingis, 60 löggjafarþingi, í dag, miðvikudaginn 9. september 1942, en jafnframt mæli ég svo fyrir samkv. framansögðu, að Alþingi skuli rofið frá þeim degi að telja, er almennum kosningum til Alþingis verður lokið á þessu hausti.

Gert í Reykjavík, 9. sept. 1942.

Sveinn Björnsson.

Ólafur Thors.

Ríkisstjórabréf um þinglausnir og þingrof.

Samkv. bréfi því, er ég hef lesið, fara nú fram nýjar almennar kosningar til Alþingis. Á kjörtímabili hins nýkosna Alþingis má búast við því, að þingið þurfi að ráða fram úr meiri og alvarlegri vandamálum en nokkru sinni áður.

Það er því einlæg ósk mín, að hver einstakur kjósandi hafi þetta í huga, er hann gengur að kjörborðinu, og að hann láti sér svo annt um val þingfulltrúa, að þjóðin geti borið fullkomið traust til þess, að hið nýja Alþingi verði þess megnugt að ráða svo ráðum sínum, að borgið verði sem bezt og farsællegast á þeim hættutímum, er nú ganga yfir, frelsi og öryggi þjóðarinnar nú og í framtíðinni.

Með því að Alþingi hefur nú lokið störfum að þessu sinni, segi ég þinginu slitið.

Um leið og ég óska þingmönnum velfarnaðar, vil ég biðja þá að minnast fósturjarðar vorrar, Íslands, með því að rísa úr sætum.