17.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. minni hl. 1. kjördeildar (Skúli Guðmundsson):

Mér finnst dálítið einkennileg framkoma hjá hv. síðasta ræðumanni, Gunnari Thoroddsen, að hann skuli stökkva svo upp á nef sér og hreyta skætingi til mín og flokksblaðs míns. Mér finnst ég ekki hafa gefið neitt tilefni til þessa með flutningi þessa máls. Það, sem við í minni hl. leggjum til, er ekkert annað en það, sem við teljum skylt að gera og það eina, sem getur verið sæmilegt fyrir þingið — að fresta því að taka þessa kosningu gilda að svo stöddu, en þegar verði horfið að því að rannsaka þessi atriði. Og það er sjálfsagt full ástæða til að rannsaka fleira en það, sem tekið er fram í sambandi við þetta bréf. Hv. síðasti ræðumaður minntist á síldarmjöl, sem ég minntist ekki á. Væri sjálfsagt ástæða til að rannsaka, hvernig hefur staðið á þeim síldarmjölsendingum, sem áttu sér stað í þetta kjördæmi rétt fyrir kosningarnar frá einu ákveðnu firma, á sama tíma, sem við, sem annars staðar búum á landinu, höfum orðið mjög út undan við skiptingu þessarar vöru og lítið haft af henni að segja.

Ég sé ekki ástæðu til að svara hv. síðasta ræðumanni öðru að svo stöddu, en vísa öllum skætingi hans og aðdróttunum í garð flokksbræðra minna og mín heim til föðurhúsanna.