13.04.1943
Efri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég minntist á það í gær, að eitt af því, sem tefur fyrir lausn þessa máls, væri það, að þjóðin væri ekki búin að gera upp við sig, a.m.k. hvort henni væri það eins mikið kappsmál að lækka dýrtíðina eins og oft af er látið. Ég segi þetta ekki til þess að gerast forsvarsmaður þess að halda dýrtíðinni uppi. En ég tel hins vegar, að þeim mönnum hafi borið skylda til þess að rannsaka þetta atriði til hlítar, sem hafa fundið hjá sér sterka hvöt til þess að berjast fyrir þessu máli. Og það dæmi, sem tekið var hér áðan af hv. 3. landsk. þm. (HG), að það sparaði ríkissjóði um 1600 þús. kr. á ári, ef dýrtíðin væri lækkuð um 10 stig, og Eimskipafélagi Íslands 350 þús. kr. gjöld á ári, það er ekki nema önnur hliðin á málinu. Það hefur ekkert verið rannsakað, hve þjóðarbúskapurinn á sama tíma fengi miklu minna fé frá hinu erlenda setuliði, og það þarf að taka til athugunar á móti þessum tölum, sem hv. 3. landsk. þm. nefndi. Og það hefði verið skylda hæstv. ríkisstj. að gera sér þetta alveg ljóst, áður en hún lagði þetta frv. fram. Því að ef það við þá rannsókn kæmi fram, að þjóðarbúskapurinn fengi kannske þessa sömu upphæð eða meiri frá hinu erlenda setuliði, þá horfir málið öðruvísi við. En þetta hefur ekki verið upplýst á nokkurn hátt, og er leitt, að það skuli ekki hafa verið gert og niðurstaðan af því lögð fyrir þingið, áður en það átti að greiða atkv. um þetta mál.

Ég hef á þskj. 737 borið fram nýjar till. í þessu máli. Hv. fjhn. hefur haft þær till. til athugunar og ekki séð sér fært að taka neitt af þeim til greina, og mér skilst þá sérstaklega vegna þess, að hún álitur þær svo róttækar, að ef þær væru samþ., þýddi það sama sem að vísa málinu frá eða að það dagaði uppi. En ef það eitt er ástæðan fyrir því, að ekki beri að ræða þessar brtt. minar eða taka þær til greina, þá er hæstv. Alþ. að sjálfsögðu komið út á þá braut að gefa sér ekki tíma til þess að athuga þær till., sem fram koma í annarri d. þingsins, vegna þess hve hin d. hefur haldið málinu lengi, og það, hvort sem þær till. miða til hins betra eða ekki. Sú stefna var vitt hér í gær, og hún verður aldrei um of vitt, að koma í veg fyrir það með drætti á afgreiðslu máls í annari d., að hægt sé í stóru máli að taka til athugunar hverja þá till. frá hinni d., sem gæti orðið til bóta í málinu.

Brtt. mín við 1. gr. frv. miðast fyrst og fremst við það, að ég tel algerlega óviðeigandi, að hæstv. Alþ. fari hvað eftir annað inn á þá braut að svíkja skattþegna sína. Slík aðferð í skattamálum kippir algerlega örygginu undan þjóðarbúskapnum yfirleitt og hlýtur að lenda út í öngþveiti fyrr eða síðar. Það er svo allt annað mál, hvort skattarnir eru kannske of háir. Því vil ég ekki blanda neitt saman við hitt, að svíkjast aftan að skattþegnunum. En það er ekki hægt annað en að viðurkenna, að þessi stefna, sem tekin hefur verið upp hér á þremur þingum í skattamálum, að láta l. alltaf verka aftur fyrir sig, er alveg óverjandi. Hún er svo siðspillandi í fjármálalífinu, að þar má hæstv. Alþ. alls ekki ganga á undan. Hún er svona líkt eins og maður færi að byrja að velja sér áfenga drykki, þætti þeir bragðvondir í fyrstu, síðan skárri, og síðast drykki hann þá vegna áhrifanna af þeim, hversu siðspillandi sem þeir eru.

Ekki verður lokað augunum fyrir því, að hér þarf að afla tekna. Það er sérstakt atriði, sem ekki má blanda saman við það að svíkjast aftan að skattþegnunum. Þess vegna hef ég lagt til, að farið væri inn á alveg sérstaka leið um að afla tekna þeirra, sem alveg eru nauðsynlegar til þessara mála til þess að mæta þeim útgjöldum, sem hér er gert ráð fyrir til þess að lækka dýrtíðina. Ég vil nú dálítið gera grein fyrir þeim mismun, sem er á þessari aðferð samkv. brtt. minni móti því, sem gert er ráð fyrir í frv., eins og það liggur nú fyrir.

Verzlanir í þessu landi held ég, að allir séu sammála um, að séu einmitt þær stofnanir, sem á þessum tímum séu langfærastar um að taka á sig einhverjar byrðar. Og ef einhver verzlun veltir t.d. 2 millj. kr., þá mundi hún samkv. brtt. minni verða að greiða um 20 þús. kr. í skatt. Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis, sem samkv. blöðunum hefur haft í hreinan ágóða um 125 þús. kr., mundi samkv. þessum skattaákvæðum, sem hér liggja fyrir í frv., eiga að greiða 18370 kr. auk þeirra skatta, sem það ætti að greiða samkv. gildandi skattal. En samkv. brtt. mínum yrði það að greiða 20 þús. kr. Auk annars hefur þetta fyrirkomulag um að ná þessum tekjum þann kost, að það er trygging fyrir ríkissjóð, að hann fær þetta gjald, sem þannig væri lagt á reksturinn strax. En það er engin trygging fyrir því, að ríkissjóður fái það gjald, sem lagt væri á reksturinn eftir á, því að oft ber það við, að ekkert fé er til að greiða með gjöld, þegar eftir á á að fara að innheimta þau. Það þekkja allir, sem við innheimtur fást, að greiðslur á gjöldum dragast oft árum saman eftir að þau eiga að greiðast.

Því hefur verið haldið fram, m.a. í hv. fjhn., að það væri í raun og veru sama sem að hækka dýrtíðina að leggja á slíkan skatt. En að halda því fram er það sama og að halda fram, að verðlagseftirlitið sé einskis virði. Því að ef ekki er hægt með verðlagseftirliti að fyrirbyggja það, að skattur þessi kæmi á neytendur, þá er heldur ekki með sama hætti hægt að tryggja það, að eigendur verzlunarfyrirtækjanna tækju ekki sömu upphæð og áður í sinn vasa. Svo að þau rök á móti því að leggja á þennan skatt fá ekki undir neinum kringumstæðum staðizt. Till. mín hefur líka þann kost, að með því fyrirkomulagi er ekki gengið aftan að skattþegnunum né brugðizt þeim loforðum í l., sem gefin hafa verið út á Alþ. Í því sambandi vil ég vekja athygli hv. þdm. á því, hvort þeim þætti sanngjarnt að setja nú l. um að hækka alla tolla á vörum í landinu, t.d. allt útflutningsgjald á öllum afurðum bænda og sjávarútvegsins í landinu, og segja, að þetta skuli gilda fyrir allt árið 1942. En það mundi vera alveg sambærilegt við það, sem nú á að gera hér. Og ég er viss um, að ef sú leið væri farin, þá mundi öll þjóðin rísa upp og segja: „Hér er verið að svíkjast aftan að hverjum einasta þegni þjóðfélagsins.“ Og það væri rétt. Það er þessi skoðun mín á málinu, sem hefur orðið til þess, að mér finnst sjálfsagt að bera fram brtt., sem gerir hvort tveggja í senn, að benda á leið til þess að leysa málið; miklu heppilegri og betri leið en í frv. er bent á, og hins vegar að forða Alþ. frá þeirri smán, sem það nú er að lögbinda hér í þriðja skiptið á tveimur árum um að ganga á bak orða sinna um skattamálin almennt. En hitt, hvort skattarnir skuli vera, eins og hv. frsm. fjhn. minntist hér á, 96% af tekjunum eða eitthvað minna, það er annað mál, sem á að ræðast alveg sérstaklega.

Hitt er ég svo sammála hv. 3. landsk. þm. (HG) um, að þessi mál hefði átt að leggja allt öðruvísi fram; það hefði ekki átt að blanda saman við afgreiðslu dýrtíðarmálanna afgreiðslu neinna skattamála, sem snerta sérstaklega mikið stríðsgróðann.

Ég lít einnig svo á, að þegar hæstv. ríkisstj. og Alþ. hafa orðið sammála um, að það sé nauðsynlegt að lækka verðlagið í landinu með framlögum úr ríkissjóði, þá eigi um leið að gera sér grein fyrir því, hvort það sé rétt að láta þá byrði alla saman koma niður á einu ári. Sú hlið málsins hefur heldur ekki verið athuguð. Og það er þess vegna, sem ég hef lagt til í brtt. minni, að þessum málum verði haldið alveg sérstökum, þannig að fénu, sem til þeirra á að verja, sé haldið aðskildu frá ríkissjóðnum, með því að skapaður verði alveg sérstakur verðlækkunarsjóður, sem hefði það hlutverk með höndum að vinna á móti dýrtíðinni, eftir því sem rétt þykir og nauðsynlegt á hverjum tíma, og að sérstakir skattar séu teknir inn í þann sjóð, og ef nauðsynlegt þætti, einnig innanríkislán til þess að lækka dýrtíðina, eins og sýnist, að menn hafi komið sér saman um, að nauðsynlegt sé að gera og að þessum skattabyrðum verði dreift á fleiri ár, ef það þætti of þungur baggi að greiða þau gjöld á einu ári. Kæmi það svo fram við rannsókn, að það þætti ekki þörf á að nota þessa heimild til að dreifa þessum byrðum, þá er sjálfsagt að láta þessa gjaldakvöð ganga yfir á einu ári. En komi það fram, að landsmenn geti ekki þolað það með skaplegum hætti, þá er gersamlega rangt að láta þessi gjöld koma sem byrði á þjóðina á einu ári.

Ég hef gert till. um það í brtt. minni, að verðlækkunargjaldið mætti ekki afnema fyrr en allt það fé er greitt, sem tekið kynni að vera til láns til þess að mæta útgjöldum vegna dýrtíðarráðstafananna, þó að það tæki mánuði eða ár að innheimta það hjá þjóðinni.

Ég hef þá gert dálitla grein fyrir brtt. mínum viðvíkjandi 1. gr. frv. Mér er að sjálfsögðu ljóst, eins og málum er komið nú, að þá muni þær ekki ná fram að ganga. Sú stefna er hér uppi í þessari hv. d., að hversu nauðugt sem þdm. það er að samþ. þetta frv. eins og það er nú, þá verði menn að fylgja því, eins og hv. 1. þm. Eyf. (BSt) minntist á, til þess að komast eitthvað ofurlit:ð áfram í þessu máli. Þar að auki er mér líka ljóst, að þar sem hv. fjhn. d. hefur að miklu leyti orðið sammála um afgreiðslu málsins hér í hv. d., þá muni hv. þd. ekki samþ. þessar brtt. mínar, jafnvel þó að hún viðurkenni með sjálfri sér, eins og hv. 1. þm. Eyf. hefur gert hér, að þær hafi ýmislegt í sér, sem betur færi á, að samþ. væri, heldur en þær till., sem komið hafa fram frá hv. fjhn. (BSt: En þær eru ekki frá mér). Þó að ég hafi sett þessar till. hér fram, sem ég gerði áður en ég sá till. meiri hl. fjhn., þá mun ég ekki halda því til streitu að láta þessa brtt. við 1. gr. frv. koma til atkv., ef það yrði á einhvern hátt til þess að trufla framgang málsins. Og mun ég þá taka brtt. aftur, eftir að hafa lýst afstöðu minni til þessa máls. En ég mun hins vegar, þegar þessi mál verða rædd hér, væntanlega á næsta þingi, taka málið upp á ný. Því að mér er fullkomlega ljóst, að það er ekki rétt í skattamálum almennt að fara þá leið, sem hér er farin og farin hefur verið á undanförnum þingum. Og ég tek þá líka aftur brtt. við 4. og 6. gr. frv. [Fundarhlé].

Ég minntist áðan á það, að samkv. till. fjhn. eiga 3. og 6. gr. frv. að falla niður, og vil í því sambandi benda á, að það er náttúrlega ekki öryggi fyrir því, að þau ákvæði, sem þá standa eftir í 5 gr., komi í raun og veru að gagni í þessum málum. Í 5. gr. stendur, að ríkisstj. hafi heimild að fengnu samþykki Búnaðarfélags Íslands að ákveða verð á mjólk og kjöti, og var það raunverulega miðað við það, að bændur fengju þau fríðindi, sem 3. gr. ákveður. Nú skilst mér, ef 3. og 6. gr. falla burt, að vafasamt sé, hvort tryggt verður, að búnaðarfélagið veiti samþ. sitt, og þá koma fram erfiðleikar við framkvæmd 5. gr. Ég veit ekki, hvort fjhn. hefur gert sér þetta ljóst, en mér skilst, að þetta sé atriði, sem ekki megi loka augunum fyrir við afgreiðslu málsins.

Ég mun ekki tefja umr. um málið á þessu stigi, en ég vil þó, áður en ég lýk máli mínu, minna á 7. gr. á þskj. 728. Þar er gert ráð fyrir, að skattfrelsi, sem hlutafélög hafa áður notið, bæði þau, sem hafa rekið verzlun, iðnað og hver önnur viðskipti, falli alveg burt og skattfrelsi þeirra, sem reka sjávarútveg, að því leyti til, að varasjóðstillag fari í nýbyggingarsjóð, og auk þess er líka sú takmörkun, að þetta megi ekki vera lengur en meðan sá sjóður er innan við eina millj. kr., eða, sem er líka nýmæli, jafnhár vátryggingarupphæð viðkomandi skips. Nú er ekki gert ráð fyrir því, hvernig með skuli fara, ef skip ferst, en það hefði mér þótt þurfa að taka nánar til athugunar. En út af þeim ummælum, sem áður hafa komið fram, að þetta sé ekki skerðing á rétti þeirra félaga, sem reka útgerð, þá vil ég leyfa mér að benda á, að það hlýtur raunverulega að fara saman, ef á að tryggja, að nýbyggingarsjóður komi að notum, og þar er ég sammála hv. 3. landsk. og hv. 5. þm. Reykv., að eigi að búa svo um hnútana, að það sé ekki hægt að nota nýbyggingarsjóð til neins annars en nýbygginga, og ég hef litið svo á, að það sé mikill galli á skattal. frá 1942, þegar ákveðið var, að mætti undir víssum kringumstæðum nota nýbyggingarsjóð til að greiða rekstrarhalla, en þá kemur sjóðurinn ekki að tilætluðum notum og fær ekki heldur þá samúð hjá þjóðinni, sem þörf er fyrir sjóð, sem er undanþeginn skatti. Til þess að hægt sé að fyrirbyggja það, þarf að búa svo um hnútana, að einhver hluti af ágóða viðkomandi fari í varasjóð, sem getur mætt tapi erfiðu áranna, en það er ekkert samræmi í að taka allan gróðann og leggja í bundinn sjóð, og þá er ekkert til að mæta skakkaföllunum nema þessi bundni sjóður, því að annars yrði viðkomandi félag að gefast upp, þegar enginn sjóður er til að eyða í erfiðu árunum. Þetta er ekkert vantraust á lánsstofnanirnar, því að það má ekki heldur lána út á þessa sjóði eða veðsetja þá.

Það er því misskilningur, að verið sé að styrkja útgerðina með því að setja allan ágóðann í nýbyggingarsjóð eins og hér er farið fram á.

Ég get ekki heldur fellt mig við 7. gr. eins og hún er, vegna þess að hún er rifting á l., sem áður hafa verið gefin út, og samkomulagi, sem gert var milli allra flokka þingsins, þegar skattal. voru sett, og ég hef lýst, hvernig ég tel þá braut hættulega, að fara inn á riftingu í þeim málum. Þá vil ég líka benda á, að með því að takmarka þessa upphæð við aðeins eina millj. kr., þá er togarafélögum, sem nú eiga allt að 7 skipum, gert ókleift að byggja nema í mesta lagi eitt skip, en það eru ákaflega mikil höft á því, að hægt sé að viðhalda flotanum, en ég held að allir viðurkenni, að sé þjóðarnauðsyn, að hann sé til, þó að um hitt séu skiptar skoðanir, hver eigi að eiga hann. Eins og nú standa sakir, fæst ekki einu sinni eitt skip fyrir þessa upphæð, en á venjulegum tímum gætu menn fengið skip af sömu stærð og okkar fiskiskip fyrir um 500 þús. kr., og verður vafalaust langt þar til slík skip fást fyrir minna en eina millj. kr. Ég er vitanlega algerlega á móti þessari miklu skerðingu á flotanum vegna alls þess almennings í landinu, sem á lífsviðurværi sitt undir þessari atvinnugrein. Ég hef þess vegna lagt til á þskj. 737, að þessari gr. verði gersamlega breytt. Þar er farið inn á nýmæli. Það er nokkurs konar skyldusparnaður, en þó frjáls leið. Það er heimild fyrir stj. til að taka innanríkislán, vaxtalaust, þangað til eftir ófrið, en láta þar koma á móti, að þær fjárhæðir, sem einstaklingar eða félög nota til þess að kaupa slík skuldabréf, megi draga frá hreinum tekjum viðkomanda. Því hefur verið haldið fram með rökum, að það væri eitt af aðalmeinum dýrtíðarinnar, hversu peningaflóðið væri mikið hér á landi, og ef það er rétt, þá væri það spor í rétta átt, ef hægt væri að draga frá almenningi svo og svo mikið af því peningaflóði, sem nú er á markaðinum, með því að binda það í ríkisskuldabréfum og eiga það eins og varaforða þjóðarinnar til erfiðu áranna, og ég er ekki í vafa um, að sú stefna er rétt, og það á að fá fólk til að leggja til hliðar undir umsjón ríkisins svo og svo mikið af því fé, sem það þarf ekki á að halda nú, og eiga það til erfiðu áranna.

Til þess að tefja ekki um of tíma hv. d., mun ég lýsa yfir, eftir að ég hef skýrt afstöðu mína til málsins, að ég mun taka aftur brtt. mína á þskj. 737, þar til ég sé, hvernig fer um afgr. málsins við 2. umr., —– hvort till. fjhn. verða samþ., — því að það gerbreytir fyrir mér málinu, ef frv. verður afgr. þannig, sem ég álit til stórbóta frá því, sem það er nú, þó að þá yrði eftir sem áður í frv. sú ósæmilega fyrirskipun að taka skatt aftur fyrir sig, eins og gert er ráð fyrir í l. gr. En þó er þess að geta, ef nokkuð má marka það, sem sagt er á Alþ., að ekki er gert ráð fyrir, að þessi skattur sé tekinn nema eitt ár, og ég vænti þess, ef þetta verður samþ., að hv. þm. verði þess minnugir, að það sé aðeins gert til að bjarga þessu máli heldur en að láta það stranda á síðustu stund, en ekki fyrir það, að það sé kallað lagalega eða siðferðislega rétt að afgreiða slík lagaákvæði frá Alþ. Íslendinga.