04.01.1943
Sameinað þing: 12. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Eysteinn Jónsson:

Við höfum í jólafríinu heyrt tilkynningu ríkisstj. um það, sem hún hefur framkvæmt í dýrtíðarmálunum. Ég þykist kunna vel að meta þá byrjun, sem þar er orðin, en það eru nokkur atriði í sambandi við þessi mál, sem mig langar til að fá nánari upplýsingar um en komið hafa fram í tilkynningunni og eingöngu snerta fjárhagshlið málsins, sem sé þá hlið, sem snýr að ríkisvaldinu beint. Það hefur verið tilkynnt lækkun á kjöti, smjöri, kolum og eggjum og sennilega vefnaðarvörum. Það er upplýst, að við lækkunina á kolum og eggjum verður ríkissjóður ekki fyrir búsifjum, en hins vegar er það bert af tilkynningu ríkisstj., að hann stendur á bak við hinar lækkanirnar með fjárhagslegar ábyrgðir. Það væri æskilegt, að það kæmi fram um smjörið, hve mikil árssalan er í landinu, og þá enn fremur, hve hátt verðjöfnunargjald ríkissjóður getur tekið af hverju kílói innflutts smjörs. Má vel vera, að ríkisstj. hafi ekki getað komið við fullkomnum rannsóknum á þessu, en það væri æskilegt að vita.

Ég vil þá líka spyrja, hvernig ríkisstj. hugsi sér að koma fyrir verzlun á erlendu smjöri. Hitt atriðið er um það, hve mikið fé hafi verið notað samkv. heimildum í dýrtíðarl. frá 1941 og hve miklu fé er búið að ráðstafa með því, sem gert hefur verið nú. Ég hafði fengið dálitlar upplýsingar fyrir áramótin í fjmrn. Þá var búið að borga 3800000 kr., en heimildirnar hljóða upp á 5 millj., og svo til viðbótar það, sem aflað er með viðbótartekjuskatti, en hann er kannske rúm millj., og svo útflutningsgjaldið, sem til hefur fallið. Þessar 5 millj., að viðbættum þeim tveim tekjustofnum, sem ég hef nefnt, er það, sem úr er að moða.

Ég vildi vekja athygli á þessu, og væri æskilegt, ef hæstv. ríkisstj. gæti gefið þessar upplýsingar sem fyrst, bæði hvað dýrtíðarsjóðurinn hefur miklar tekjur, hvað búið er að ráðstafa miklu og hvað það kostar, sem eftir er að greiða. Ég hygg, að þetta sé orðið svo hátt, að e.t.v. sé búið að ráðstafa meiru en fyrir hendi er. Athugasemdir mínar ber ekki að skoða sem neina gagnrýni, en ég álít það æskilegt fyrir sambúð ríkisstj. og þingsins, að sem gleggstar upplýsingar liggi fyrir um notkun slíkra heimilda. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. vilji taka sér frest til að svara þessu, og finnst það eðlilegt.