13.04.1943
Efri deild: 99. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. — Ég gat þess við 2. umr., að meiri hl. fjhn. hefði í hyggju að bera fram brtt. við þetta frv. — Á fundi fjhn. kl. 9 varð það að samkomulagi milli 4 nm. að bera fram þessar brtt. Brtt. við l. gr. er shlj. till. hv. 1. þm. Eyf. En eini munurinn á till. er sá, að samkv. till. hans á þetta skattfrjálsa tillag að takmarkast við 200 þús. kr. í nýbyggingarsjóði. Meiri hl. fjhn. taldi ekki ástæðu til að setja þetta takmark. Það hefur ekki verið sett um aðra nýbyggingarsjóði. Og þegar tillit er tekið til þess, hve skipabyggingar eru dýrar nú á tímum, gat meiri hluti fjhn. ekki séð ástæðu til að setja þetta ákvæði inn í frv. Þetta hámark mun miðað við það hjá hv. minni hl. fjhn. (BSt), að fyrir það séu byggðir bátar milli 10 og 20 smálestir. En það virðist engu síður vera þörf á því, að byggðir séu stærri bátar.

Mér þykir vænt um, að fengizt hefur viðurkenning þess frá mönnum úr öllum flokkum þingsins, að skattarnir, eins og þeir nú eru orðnir, séu orðnir of háir. Og ég hygg, að ef hv. meðnm. mínir í fjhn. vildu athuga skattal. betur, mundu þeir geta komizt að þeirri niðurstöðu, að það eru fleiri atvinnurekendur en þeir, sem nefndir eru í þessari till., sem ástæða væri til að leyfa að stofna sjóði til þess að endurnýja atvinnutæki sín.

Ég ætla svo ekki að tefja umr. frekar um þetta mál. Ég vænti þess, að gott samkomulag verði um afgreiðslu málsins hér í þessari hv. þd., þannig að umr. um það í hv. Nd. gæti orðið lokið í kvöld. Ég leyfi mér svo að afhenda hæstv. forseta þessa brtt. með beiðni um, að hann leiti afbrigða fyrir henni.