13.04.1943
Efri deild: 99. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. — Það var aðeins um brtt. frá mér á þskj. 745. Mér þykir leitt, að hv. fjhn. hefur ekki séð sér fært að mæla með henni eða taka afstöðu til hennar yfirleitt, eins og ég hafði gert ráð fyrir að gert yrði. Það hafa komið fram þær aths. við þessa brtt., að með þessu væri verið — eins og það hefur verið orðað — að straffa þá, sem selt hafa mjólkina úti á landi ódýrara heldur en hér í Rvík. Ég hef hingað til gert ráð fyrir, að þessi verðmunur stafaði af því, að framleiðslu- eða flutningskostnaður eða hvort tveggja væri minni úti á landi heldur en á mjólkurverðlagssvæði Rvíkur. T.d. má nefna hreinsun mjólkur, sem hér er töluverður kostnaðarliður. Og ég hef haldið, að það væri minni kostnaður að koma mjólkinni á markaðsstað úti um land heldur en hér til Rvíkur. En ég hef haldið, að þessi verðmunur stafaði ekki af því, að bændur hafi lagt meira að sér úti um land til þess að halda mjólkurverðinu lágu heldur en bændur í nágrenni Rvíkur. Ef svo væri, að þeir hefðu gert það, þá væri það mikið alvörumál, því að þá mundi það benda til þess, að hægt væri að halda mjólkurverðinu miklu lægra heldur en það raunverulega er. Og þessi aths. gæfi vissulega tilefni til þess að taka það mál til nánari athugunar. Því að það mundi sannarlega vekja grunsemdir um það, að mjólkurverðinu hér í Rvík hefði verið haldið hærra en nauðsyn krefur í þeim tilgangi að hækka vísitöluna, til þess aftur á móti, að hægt væri að nota það sem röksemd til þess að lækka kaupið. En hitt er vitaskuld aðalatriðið, að samkv. þessu frv. hér er ætlazt til þess, að mjólkurframleiðendum verði að fullu bætt upp sú verðlækkun, sem á mjólkinni verður, bæði mjólkurframleiðendum, sem selja mjólkina til Rvíkur, og öðrum mjólkurframleiðendum. Og ef litið er á málið frá sjónarmiði neytenda, þá hljóta allir að viðurkenna það, að það væri alveg óafsakanlegt ranglæti gagnvart neytendunum utan Rvíkur, ef mjólkurverðið ætti að vera það sama eins og áður, þegar hins vegar vísitalan lækkaði og þar með allt kaupgjald og öll laun að sama skapi sem mjólkurverðið hér í Rvík hefur áhrif á vísitöluna. Það þýddi ekki annað en það, að með l. væri verið að lækka það kaup, sem er samningsbundið hjá því fólki, sem á heima á þessum stöðum. Ég hafði nú að vísu gert ráð fyrir því, að það gæti komið til greina, að hæstv. ríkisstj. mundi framkvæma ákvæði frv., ef að l. verða, á þann veg, sem í brtt. minni segir, vegna þess að það mælir allt réttlæti með því. Og í því trausti geri ég ráð fyrir, að hafi verið gengið frá þessu máli í hv. Nd. En þar sem engar yfirlýsingar hafa komið fram í þá átt frá hæstv. ríkisstj., verður að draga það í efa, því að eftir orðanna hl jóðan í frv. ber henni ekki skylda til þess.

Um þær brtt., sem komið hafa fram frá hv. fjhn., meiri hl. n. og minni hl., nú við 3. umr., er það að segja, að ég er þeim sammála. Það hafa komið fram tvær till. um hámark nýbyggingarsjóða í sambandi við skattfrjálst tillag til þeirra, sem einstaklingum og sameignarfélögum er veitt heimild til. Ég sé ekki ástæðu til þess að geta ekki sameinazt um þetta atriði, því að í praksís held ég, að það sé nákvæmlega sama, hvor till. er samþ. Kunnugir menn halda því fram, að það muni ekki vera til neinn einstaklingur, sem muni vera neitt nálægt því að hafi lagt 200 þús. kr. í nýbyggingarsjóð. Og ef svo er, er nákvæmlega sama, hvor till. er samþ. Einstaklingar hafa breytt fyrirtækjum sínum í hlutafélög til þess að njóta hlutafjárfríðinda, eins og kunnugt er, ef þeir hafa haft stóratvinnurekstur með höndum. Svo að ef nokkuð væri rétt að samþ. af þessum till., þá væri það till. meiri hl. hv. fjhn. Annars geri ég ráð fyrir, að það sé nákvæmlega sama, hver till. er.