13.04.1943
Efri deild: 99. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Bernharð Stefánsson:

Ég skal taka það fram, að til samkomulags við hv. meðnm. mína í fjhn. get ég gengið inn á það fyrir mitt leyti, að brtt. hv. 1. þm. S.-M. verði samþ., þannig að hámark það, sem um ræðir í brtt. minni, verði fært úr 200 þús. kr. í 300 þús. kr. Og með tilliti til þess, sem hv. síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Reykv. (BrB) tók fram nú nýskeð, þá skil ég ekki annað en að allir ættu að geta sameinazt um þetta. Hitt get ég ekki fallizt á — ekki kannske aðeins vegna yfirstandandi tíma, heldur þá frekar vegna framtíðarinnar — að ekkert hámark sé sett og þetta sé haft algerlega óbundið. Og ég hygg, að það sé óvarlegt að setja slíka löggjöf. Vænti ég þess, að þar sem ég kem hér til móts við meiri hl. hv. fjhn. um einstakar miðlunartill., þá gangi hún einnig til móts við mig, svo að mín brtt. á þskj. 749, með þeirri breyt., sem felst í brtt. hv. 1. þm. S.-M., verði samþ. af öllum hv. þdm.

Út af því, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði um mjólkina, vil ég taka þetta fram: Hann sagði, að mjólkin mundi hafa verið lægri úti um land, vegna þess að framleiðslukostnaður væri þar minni, en ekki vegna þess að bændur hefðu lagt þar meira að sér heldur en hér í nágrenni Rvíkur. Ég hygg, að það sé rétt, að svona hafi það verið. En þetta er ekki lengur. Kaup hefur jafnazt svo mikið á þessum síðustu tímum, styrjaldartímanum, að ég hygg, að það sé orðið ákaflega svipað um land allt og yfirleitt annar framleiðslukostnaður. Og það, að mjólkin annars staðar úti um land er ekki komin í sama verð eins og hér í Rvík, stafar af því, að menn eru nú ekki svo fljótir á sér — sízt bændur — að breyta í það horf, sem þeim í raun og veru væri þörf á í þessu efni og sambærilegt væri við aðra. Þess vegna held ég það, að brtt. hv. 5. þm. Reykv. á þskj. 745 (misprentað 750) sé algerlega óréttmæt, eins og ég reyndar gat um við 2. umr. málsins. Og það, sem hann sagði, að bændum yrði þá bætt upp mjólkin þetta tímabil, sem bráðabirgðaráðstafanirnar eiga nú að ver a, það er að vísu rétt, að lögin ætlast svo til. (IngP: Það er ekki hægt nema þar, sem mjólkursöluskipulag er). Einn hv. þm. grípur fram í fyrir mér og segir, að þetta sé ekki hægt nema þar, sem mjólkursöluskipulag er, og er það rétt. Það er óframkvæmanlegt annars staðar. En jafnvel þar, sem mjólkursöluskipulag er, þá koma þau sömu vandkvæði í haust, ef ekkert verður úr samkomulagi, sem ég var að tala um við 2. umr. þessa máls.

Ég lengi svo ekki þetta mál. En mér finnst öll rök hníga að því, að það beri að fella brtt. á þskj. 745. Hitt er svo annað mál, hvort hæstv. ríkisstj. sér eitthvert færi á því í framkvæmd málsins að taka tillit til þess raunverulega ástands, sem nú er í landinu.