13.04.1943
Efri deild: 99. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Jónas Jónsson:

Hv. flm. brtt. á þskj. 745 hefur víst ekki skilið alveg sínar eigin gerðir og till. í mjólkurmálinu. Ég ætla þess vegna að hjálpa honum með því að taka dæmi, sem liggur nærri hendi. Kaup verkamanna á Akureyri er, eftir nýkomnum blöðum að norðan að dæma, heldur hærra en í Dagsbrún. Mjólkin þar hefur aldrei verið seld hærra en á kr. 1.30. Það er þess vegna sýnilegt, að aðstaða verkamanna og annarra á Akureyri hefur verið þannig, að þeir hafa grætt á því að hafa þessa hagstæðu mjólkurverzlun. Nú er mála sannast, að það var enginn vandi fyrir mjólkursamlagið á Akureyri að hækka mjólkina meira. Þeir hafa alla aðstöðu til þess. Þeir ráða algerlega yfir mjólkurmarkaðinum. Það var ómögulegt að hindra þá frá því, ef þeir hefðu viljað fara þannig að. Aftur á móti er það svo um bændur hér við Rvík, að þeir eru búnir að læra það af verkamönnum og stéttasamtökunum að vera ekki með neina sérstaka hlífð. Þess vegna er það, að þeir menn í n., sem fjallar um mjólkurverðið í Rvík, mjög duglegur maður úr Alþfl. og annar úr Sjálfstfl., hafa ekki gert kröfur um það, að mjólkin væri í lægra verði, af því að þeim hefur fundizt sanngjarnt verð á henni.

Þess vegna er aðstaðan sú, að nú er lagt til á þskj. 750 að hegna t.d. Eyfirðingum fyrir þann sparnað og hófsemi, sem þeir hafa sýnt, og þegar hv. frsm. heldur fram, að það skipti engu máli fyrir bændur, þar sem þeir fái borgaða uppbót, þá er það aðeins sönnun fyrir athugaleysi hans, af því að hann sér ekki, að höfuðgallinn er sá, að þótt bændum sé borgaður hallinn með bráðabirgðaframlagi úr ríkissjóði, þá er enginn, sem segir, að það verði auðvelt fyrir framleiðendur, þegar hætt er að greiða ríkisframlagið, að fá vöruna hækkaða, þó að dýrtíð verði kannske sú sama og kaup kannske hærra. Þetta er höfuðgallinn á allri meðferð málsins, af því að það er ekki tekið réttum tökum, eins og búnaðarþing ætlaðist til, sem sé að lækka raunverulega án ríkissjóðsframlags kaup og afurðaverð. Þessi hegning á framleiðendur fyrir þeirra mildi er ákaflega ranglát í framtíðinni gagnvart þeim, þegar innan skamms tíma ríkissjóðsframlagið hættir, en eftir stendur það verð, sem raunverulega kemur fram við þá lækkun.