13.04.1943
Efri deild: 99. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Brynjólfur Bjarnason:

Það er meira ofurkappið, sem sumir hv. þm, leggja á, að brtt. á þskj. 745 verði felld, og þegar menn eins og hv. þm. S.-Þ. og hv. þm. Barð. ganga í bandalag um að fella till., þá kann það ekki góðri lukku að stýra, og geta menn þá getið sér til um eðli málsins.

Þessir hv. þm. halda því fram, að mjólkurverðið úti á landi hafi verið svo lágt, að það væri óréttlæti gagnvart framleiðendunum, að þeir lúti sömu l. og framleiðendur í nágrenni Rvíkur. Þetta getur ekki byggzt á öðru en því, að verðið í Rvík hafi verið ákveðið of hátt í hlutfalli við verðlagsákvarðanir, sem gerðar hafa verið úti á landi. Annars ganga þeir fram hjá því, að það er ekki verið að tala um að lækka verð til framleiðenda, því að það er um það að ræða, að á þessu tímabili verði bændum borguð að fullu sú lækkun, sem ætlazt er til, að verði á útsöluverði. En það, sem þeir virðast vera að halda fram, er, að það þurfi að hækka verð á mjólk úti á landi, vegna þess að verðið hafi verið of lágt. Mjólkurverðið hækkar, ef vísitalan lækkar og þar með verðlag, og þá finnst mér gengið nokkuð langt, að þegar verið er að ræða, hvernig eigi að færa verð niður, þá skuli vera haldið fram, að fyrst og fremst þurfi að hækka verulega landbúnaðarafurðir, sem eru þó þær vörutegundir, sem valda einna mestu um hækkun vísitölunnar. Ef þessi till. á þskj. 745 verður felld, þá þýðir það ekkert annað en það, að Alþ. ákveður, að verð á mjólk annars staðar en í Rvík skuli raunverulega hækka og finnst mér það öfugsnúið, að í þessu frv., sem fjallar um verðlækkun, að ráðstafanir skuli gerðar til hækkunar á vöruverði. Þessir hv. þm. voru að tala um, að kaup úti á landi væri jafn hátt og í Rvík í krónutölu, enda þótt verðlag væri þar miklu lægra. Það er nú svo, að kaup á Akureyri er eins hátt og í Rvík í sumum greinum, en aftur á móti miklu lægra hjá öðrum, og víðast hvar úti á landi er kaupið lægra en í Rvík. Það er alveg hrein undantekning, að það sé hærra, sums staðar jafn hátt, en það er t.d. alveg fjarstæða, að kaup á Akureyri sé almennt hærra, enda þótt það sé svipað og í Rvík í sumum atvinnugreinum. Á Siglufirði er mjólkin kr. 1.70, og er það hærra en hér er ætlazt til samkv. þessu frv. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að þessi brtt. verói felld, en ef það verður gert, þá er Alþ. þar með ekkert að gera annað en að draga af verkamönnum úti á landi nokkuð af því kaupi, sem þeir hafa nú samkv. samningum, sem þeir hafa gert við atvinnurekendur. Mætti orða það svo, að Alþ. hafi þá af ráðnum hug falsað þá vísitölu, sem kaupið er reiknað eftir, í þessum skollaleik.