13.04.1943
Neðri deild: 101. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Vegna orða þeirra, sem ég lét hér falla við 2. umr. í d. um málið og vegna málsins, sem nú var afgreitt, vil ég taka fram af hálfu ríkisstj. það, sem hér segir:

„Eins og skýrt hefur komið fram við umræður um dýrtíðarmálin í báðum deildum þingsins, mun enginn þingmaður vera ánægður með afgreiðslu þeirra, eins og hún sýnir sig nú að vera.

Ríkisstj. getur í fyllsta máta goldið samkvæði þessu áliti. En hinir pólitísku erfiðleikar eru svo miklir innan þingsins, að það hefur ekki megnað að taka dýrtíðarmálinu öðrum tökum en raun ber vitni.

Stjórnin hefði helzt kosið, að aðrir tæki nú við framkvæmd málanna. En henni er ljóst, að synjun af hennar hálfu á þessari stundu að hafa framkvæmdina á hendi getur skapað ástand, sem hún vill ekki bera ábyrgð á og ekki verður séð út yfir, hverjar afleiðingar hefði.

Stjórnin álítur þess vegna, að hún mundi bregðast þeim skyldum, sem hún hefur á sig tekið, ef hún tekur ekki við frumvar pínu og gerir þá tilraun, sem þar er stefnt að, í því trausti, að betri árangur náist en hægt er að gera ráð fyrir, eins og nú horfir. — Stjórnin gerir það í því trausti einnig, að það megi firra þjóðina nýjum og vaxandi erfiðleikum.“