19.12.1942
Efri deild: 20. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

11. mál, laun embættismanna

Páll Hermannsson:

Þegar þessu frv. var vísað til 3. umr., hafði verið fellt, að það færi til n., þótt einkennilegt mætti þykja, en ég bað hæstv. forseta að taka það eigi fyrir til 3. umr., fyrr en ég hefði athugað með öðrum þm., sem líkrar skoðunar voru um eitt atriði málsins, hvort eigi mundi rétt að flytja við það brtt. Varð forseti við beiðni minni. Frv. er um það eitt að hækka árslaun dýralækna um 1 þús. kr. og gera þá þar með alla jafnháa að launum sem héraðslækna í hæsta launaflokki. Þeir læknar, sem annast eiga um heilbrigði manna, eru í misháum launaflokkum eftir því, hve mannmörg eða þéttbýl héruð þeirra eru og líkurnar miklar fyrir aukatekjum. Hæst eru launin í strjálbýlustu héruðum, þar sem aðrar starfstekjur eru minnstar, og þetta hefur reynzt vera bæði réttlátt og nauðsynlegt. Mér sýnist, að sama regla ætti að gilda um dýralækna. Umdæmi þeirra eru misjöfn að tekjum. Í strjálbýlum sauðfjárhéruðum bargar sig oftast ekki að sækja lækni til sauðkindar. Ég álit því rétt, að umdæmin væru með misjöfnum launakjörum og hefðu þeir dýralæknar hæst laun, sem sitja á Vestfjörðum og Austfjörðum, og þriðja umdæmið kæmi þar e.t.v. til greina. En nú hef ég fengið að vita, að í landbn. Nd. var talsvert rætt um að gera breyt. á frv. í þá átt, án þess að framgengt yrði. Treysti ég mér því ekki til að berjast fyrir þeirri breyt. hér í stríði við Nd., þar sem hún virðist ekki eiga fylgi. En þá vildi ég skjóta því að í staðinn, að mér sýnist mega bæta úr þessu á annan hátt og mæta þörf þessara lækna með því að sjá þeim annaðhvort fyrir íbúð eða ábúð með góðum kjörum, sem gætu jafnvel munað þá meira en nokkur hundruð króna launahækkun. Ég veit um dýralækninn á Austfjörðum, að fátt kæmi honum betur en hjálp við að reisa bústað sinn. Þessu mætti annaðhvort koma fram í fjárlögum eða fyrir aðgerðir framkvæmdarvaldsins, sem oft hefur orðið að grípa til slíkra ráða í nauðsyn. Og allir játa; hve mikil nauðsyn það er, að þessi dýralæknaumdæmi standi ekki auð.