07.01.1943
Efri deild: 26. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

6. mál, sala Stagley

Frsm. (Páll Hermannsson):

Það er nú ekki stórt mál, sem hér er á ferðinni. Frv. er sem sé um það að gefa ríkisstjórninni heimild til að selja tvær landspildur. Annað er eyja á Breiðafirði að nafni Stagley, og er farið fram á, að ríkisstj. heimilist að selja þessa eyju til Flateyjarhrepps. Þessi eyja er hluti af svo kallaðri Reykhólaeign og tilheyrir stórbýlinu Reykhólum á Barðaströnd. Eyjan liggur langt frá höfuðbólinu og er ekki lengur nytjuð þaðan, heldur er hún nytjuð af bændum úr Bjarneyjum, en Bjarneyjar eru nú að hálfu leyti eign Flateyjarhrepps. Eyjan virðist vera allverðmætt land, ágætt engjaland og nokkurt varpland, eða hefur verið það. Afgjald greitt eftir eyjuna er 4 kg. af dún og 50 kr. í peningum á ári. Það er talið af kunnugum, að eyjan verði tæplega notuð eins og nú hagar til annars staðar en frá Bjarneyjum. Landbn. hefur kynnt sér þetta meðal annars og komizt að þeirri niðurstöðu, að það mundi vera réttlátt að heimila ríkisstj. að selja þessa eyju, bæði með tilliti til þess, að það er hentugra að nota hana frá jörð, sem er að nokkru leyti eignarjörð Flateyjarhrepps, og einnig með hliðsjón af því, að Flateyingar búa sjálfir á litlu landi og kynnu því að þurfa að njóta Stagleyjar fyrir sjálfa sig.

Ég vil taka það fram, að það stendur ekkert í frv. um söluskilmála. N. hefur ekki séð ástæðu til að taka þau ákvæði upp í frv., heldur ber hún fullt traust til ríkisstj. í þessum efnum, ef til sölu kemur.

Hin landspildan, sem farið er fram á, að heimilað verði að selja, er lítið eyðikot innarlega í Arnarfjarðardölum, sem er komið í eyði fyrir nokkrum árum og hefur verið notað af ábúanda jarðarinnar Langabotns sem beitiland. Frv. fer fram á, að stj. heimilist að selja þessum bónda þetta litla eyðikot. Landbn. hefur ekki viljað fallast á, að það væri nauðsynlegt að selja ábúandanum í Langabotni eyðikot þetta. N. hefur í fyrsta lagi athugað það, að það er engan veginn tvímælalaust um forkaupsréttinn að þessari jörð, hvort bóndinn í Langabotni gæti notið hans. Upplýsingar lágu sem sé ekki fyrir n. um það, hvort sveitarfélagið kynni að vilja njóta forkaupsréttar. Í öðru lagi eru á þessu eyðikoti nokkrar skógarleifar, og gæti þess vegna verið athugavert að selja landið. Ríkið hefur viljað eignast lönd með skógarleifum og ekki viljað farga þeim. Enn fremur má á það benda, að það verður ekki annað séð en þessi ábúandi á Langabotni geti haft sömu not eyðijarðarinnar með því að hafa hana á leigu. Þar sem hann notar þetta land eingöngu sem beitiland, kemur honum landið því að álíka notum, hvort sem hann hefur landið leigt eða kaupir það.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál. Nál. ber það með sér, að n. mælir með því, að ríkisstj. fái heimild til þess að selja Flateyjarhreppi Stagley, en leggur hins vegar á móti því, að eyðibýlið Sperðlahlíð verði selt.