09.04.1943
Efri deild: 93. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Dómsmrh. (Einar Arnórsson):

Mér virðist það vera misskilningur hjá hv. fyrirspyrjanda, að hér sé um það að ræða að brjóta niður l. þingsins, hvernig svo sem litið er á þessi l. annars. Því að ég man ekki betur en að í l. sé gefin full heimild til handa menntmrh. til þess að veita undanþágu fyrst og fremst frá einkarétti ríkisins til þess að gefa út rit, sem talin eru að vera skráð fyrir 1400. Það stendur og í þessum l., að það megi binda leyfið því skilyrði, að ritið sé gefið út með samræmdri fornri stafsetningu, en það er ekki skylt að binda leyfið því skilyrði. Og mér virðist, að það hafi aðeins verið neytt þeirrar heimildar, sem l. gefa ráðh. til að veita slíkt leyfi. Skilst mér því, að hér sé ekki um sérstakt niðurbrot á l. þessum að ræða. Það gildir jafnt og áður, að ef maður gefur út slík rit án heimildar ráðh., hefur hann brotið bókstaf l., hvort sem þau svo standast sem l. með tilliti til stjskr. En hvað snertir það atriði, að þessum útgefanda eða öðrum hafi verið veitt heimild til þess að gefa ritin þannig út, að fella megi niður orð eða breyta orðalagi frá handriti, þá er það annars að segja um Njálu, að það má segja, að til sé aragrúi af handritum af Njálu, sem mjög erfitt er viða að ákveða, hver séu bezt; a.m.k. hefur Sveinbjörn Egilsson litið svo á.

Það getur vel verið, að útgáfa Laxness af Laxdælu sé mjög aðfinnsluverð. En það varðar ekkert við ákvæði l. í sjálfu sér. Það má dæma manninn fyrir að hafa skilið hlutverk sitt rangt og fyrir það að hafa ekki vandað verk sitt. En þegar einn maður er búinn að fá harðan dóm fyrir það, þá er öllu líklegra, að hann taki þann dóm til greina, þó að það séu ekki dómstólarnir sem fella hann, heldur fræðimenn og fólkið og álit þess á því, sem sá dómur varðar.

Ég sé því ekki, að sú ákæra hjá hv. fyrirspyrjanda sé rétt, að ég hafi með þessu verið að brjóta niður gildandi l.; mér sýnist það ekki vera rétt. Ég hef ekki gert annað en það, sem l. veita fulla heimild til.