10.04.1943
Neðri deild: 95. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

Þingfréttaflutningur í útvarpi

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Ég vil leyfa mér að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forseta, hvernig sé háttað samvinnu forseta þingsins og manns þess, sem flytur þingfréttir í útvarpið, og hvort þeir hafi ekkert eftirlit með því, hvað birt er í útvarpinu frá Alþ. Í þessu felst þó engan veginn nokkur gagnrýni eða óánægja með þingfréttamann útvarpsins, heldur er orsökin atvik, sem hefur komið fyrir nýlega og vakið ugg og óánægju meðal sjómanna, sem sigla til Englands. Eins og hv. þdm. mun kunnugt, liggur nú fyrir Ed. frv. frá ríkisstj. um samsiglingu íslenzkra skipa, sem sigla til Englands. Þar eru uppi ýmsar ráðagerðir um það, hvernig þessum ferðum skuli háttað, og þar er stungið upp á ýmsu til aukins öryggis fyrir skip, sem sigla til Englands. Nú hefur það gerzt, að frá þessu frv. hefur verið skýrt í útvarpinu. Ég tel, að þegar slíkt mál er á ferðinni, þá sé um mjög alvarlegt gáleysi að ræða, að skýra frá þessum ráðagerðum í útvarpinu, þannig að þeim hernaðaraðilanum, sem undanfarið hefur verið að skjóta niður íslenzk skip og granda áhöfnum þeirra, skuli gefinn kostur á að verða alls vísari um þessar ráðagerðir.

Ég er ekki með þessu að deila á þingfréttamann útvarpsins. Hann hefur leyst sitt starf vel af hendi, en þegar slíkt gáleysi kemur fyrir, þá tel ég rétt, að fram kæmu raddir um það til þess að hindra, að það endurtaki sig, og ég tel, að Alþ. ætti að hafa þarna hönd í bagga.

Ég vil því beina því til hæstv. forseta þessarar hv. deildar og annarra forseta þingsins, að þeir reyni að koma í veg fyrir það í framtíðinni, að slíkt endurtaki sig.

Nú er nál. sjútvn. Ed. í þessu máli komið fram, og í því felast frekari upplýsingar og grg. um málið. Ég tel því sjálfsagt, að hæstv. forseti hlutist til um það, að ekki verði skýrt frekar frá þessu máli í útvarpinu. Íslenzkir sjómenn, sem hafa frétt um þetta gáleysi, eru mjög undrandi yfir því, og ég vænti þess, að Alþ. geri sér það ljóst, hvílík nauðsyn er á, að slíkt endurtaki sig ekki.