19.01.1943
Efri deild: 36. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

12. mál, orlof

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Hér liggur fyrir framhaldsnál., en ég mun þó reyna að vera stuttorður. Ég álít, að þetta mál sé nú þegar svo mikið rætt, að það muni ekki skýrast verulega frá því, sem orðið er, þó að umr. um það verði haldið áfram hér í þessari hv. þd. En ég get ekki sætt mig við það, að þessu máli sé vísað frá með „velvilja“, þar sem ég álít, að þörf sveitafólksins, sérstaklega húsmæðranna, til þess að fá sumarfrí sé a.m.k. eins rík eins og þess fólks, sem tryggður er þessi réttur með frv. eins og það liggur fyrir. Það hefur líka komið fram í þessum umr., að menn hafa sagt, að ef farið væri að semja um það sérstök l., að sveitafólk fengi þann rétt, sem í brtt. minni er lagt til, þá kæmu kröfur um hið sama fram frá fleiri aðilum. Það hafa verið nefndir fleiri aðilar, sem ættu þá kröfu á því að fá sama rétt og sveitafólkið, og því væri bersýnilegt, ef samþ. væru l. um þetta mál, þá mundi það hlaða utan á sig, þannig að frv. um slíkt fengi ekki fljóta afgreiðslu. Það hefur verið talað um, að smákaupmenn ættu þennan sama rétt og verkalýðsfélögin og ýmsir fleiri. Það er því hætt við að frv., sem kæmi fram um þetta mál, ætti erfitt uppdráttar. Ég lít hins vegar svo á um þennan rétt, sem sveitafólkinu yrði veittur, ef brtt. mín yrði samþ., að þar standi svipað eða eins á um það fólk, sem brtt. er um, sveitafólkið, eins og um það fólk, sem tryggður er rétturinn til sumarleyfis með frv., og þess vegna eigi þetta að fylgjast að, og þá sérstaklega með tilliti til þess, sem ég hef sagt áður, að það eru engir sumardvalarstaðir til nægilegir fyrir það fólk, sem í sumarleyfi fer úr kaupstöðunum, og það er vitað mál, að þessi aukning sumarleyfanna, sem nú kemur - ekki sérstaklega eftir þessum l., heldur eftir samningum, sem nýlega hafa verið gerðir, — hún kemur niður m.a. sem aukið erfiði á sveitaheimilunum, og var það þó nóg fyrir.

Það verður að skeika að sköpuðu um þetta mál. Ég get ekki annað fundið en að það sé réttlátt að fylgja þessari brtt., og sé ég því ekki ástæðu til að fylgja málinu, ef hún verður felld, því að það hefur verið boðið áður að hafa þann hátt á, ef sá vilji er til staðar, sem tjáð er, fyrir því að semja sérstök l. um sumarleyfi þessa sveitafólks sem tilætlunin er, að brtt. mín nái til, þá er það hægt að ganga frá slíku frv. hér og láta það ganga með sama hraða gegnum hv. d. eins og þetta mál, sem hér liggur fyrir, þannig að bæði málin væru afgr. samhliða frá þinginu. En það lítur ekki út fyrir, að frestur fáist til þess þrátt fyrir allan þennan velvilja. Og það þótti ekki ástæða til að semja sérstakt frv. um þetta mál, af því að mér virtist, að nm. í allshn. tækju yfirleitt vel í að fella einhverja breyt. inn í frv., sem tryggði sveitafólkinu sumarfrí betur en nú hefur verið gert. Mér þykir yfirleitt leitt, hvernig þetta mál hefur farið úr hendi.