19.01.1943
Efri deild: 36. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

12. mál, orlof

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. — Við erum búnir að ræða nokkuð mikið um þetta mál í allshn., og eiginlega einkennilega mikið, þegar allir virðast vera sammála um hugmyndina. Þetta er nú dálítið skrítið. Ég er ákaflega hlynntur þessari hugmynd, sem kemur fram í brtt. hv. þm. Str., og ég vil endilega stuðla að því, að þessi hugmynd geti komið til framkvæmda, og þá í því formi, að hún geti komið að sem beztum notum. En mér þætti af ýmsum ástæðum miklu æskilegra, að þetta væri borið fram í einhverju betra formi heldur en kemur fram hjá hv. þm. Str. Í fyrsta lagi eru allir sammála um, að þetta fellur ekki inn í frv. Hér er um að ræða allt annað prinsip, þar sem þar er um að ræða ríkisstyrk til þessara manna, sem hafa sjálfstæða atvinnu. En hitt, þ.e. frv., er um að tryggja ákveðin réttindi launþegum og að þessi réttur hvíli algerlega á atvinnuvegunum sjálfum hverjum fyrir sig í viðkomandi tilfellum. En það er líka annað og meira, sem gerir það að verkum, að það, sem brtt. fer fram á, er beinlinis allt annars eðlis heldur en efni frv. Það er það, að þetta frv. fjallar um orlof, en þessi brtt. er ekki til þess að tryggja sveitafólkinu orlof, heldur er þar um að ræða styrkveitingar til þess að fólk geti farið skipulagðar kynningarferðir. Þetta fellur því ekki efnislega inn í frv.

Þá virðist mér það orka tvímælis, hvort rétt sé að binda þennan styrk, sem brtt. er um, við vissan hundraðshluta af jarðræktarstyrk og hvort ekki væri réttara að ákveða einhverja sérstaka tiltekna upphæð, sem lögð yrði fram úr ríkissjóði árlega til þessara hluta.

Og í þriðja lagi verður þessi upphæð ákaflega lítilfjörleg. 50 þús. kr. er ekki stór upphæð, og ég vildi vera með í að veita miklu stærri upphæð til þessa í fjárl., vegna þess hve mikið nytjamál hér er um að ræða, eins og hv. þm. Str. hefur lýst, og ég er honum alveg sammála um það.

Annars finnst mér afstaða hv. þm. Str. til þessa máls — og eiginlega má segja það um ýmsa menn líka, sem andstæða skoðun hafa við hann, — dálítið skrýtin og hæpin og óviðkunnanleg. Hann setur nefnilega það að skilyrði fyrir fylgi sínu við frv., að þessi brtt. verði samþ. Svona löguð vinnubrögð kann ég ekki við, þegar um er að ræða réttindamál alþýðunnar í kaupstöðunum, að þá komi aðrir hv. þm., sem telja sig fulltrúa sveitafólksins, og segi: Ég er ekki með þessum réttindum bæjabúa, vegna þess að ég fæ ekki á þann hátt, sem mér líkar, fram ákvæði um hagsmunamál fólksins í sveitinni. — Það hefur komið fram alveg sams konar afstaða hjá þeim, sem telja sig fulltrúa fólksins í kaupstöðunum. Svona vinnubrögð .eru áreiðanlega ekki í samræmi við hugmyndir þær, sem alþýða manna í sveitum og kaupstöðum gerir sér um það, hvernig fulltrúar þessara stétta eigi að starfa saman. Ég álít það réttara form, þó er það ekki aðalatriðið, heldur hitt, að með því mundi löggjöfin um það koma að meira gagni, að hér væri farin önnur leið til þess að tryggja sveitafólki rétt til sumarleyfa. Og ég sé ekki annað en trygging geti verið fyrir því, að slíkt mundi takast. Ég mun sitja hjá við atkvgr. um brtt., en mun styðja till., sem ég geri ráð fyrir, að muni fram koma í sérfrumvarpsformi eða í brtt. við fjárl., sem stefna að því að koma þessari hugmynd í framkvæmd.