08.02.1943
Efri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

131. mál, útsvarsinnheimta 1943

Frsm. (Pétur Magnússon):

Hv. 1. þm. Eyf. lagði nokkra áherzlu á það í sinni ræðu, að bæjar- og sveitarfélögum væri vorkunnarlaust, eins og tekjur manna hefðu verið á undanförnum árum, að hafa það stóra sjóði um áramót, að ekki þyrfti að lenda í skuldasöfnun hjá þeim, enda þótt ekki greiddust útsvör fyrr en á síðari hluta ársins.

Það er náttúrlega rétt, að tekjur manna hafa á síðustu 2–3 árum verið meiri en um nokkurt árabil þar á undan, og innheimta gjalda hefur að sjálfsögðu þá yfirleitt gengið betur en áður hefur gerzt, meðan kreppa var í landinu. Hins vegar veit hv. 1. þm. Eyf. það, að tekjur sveitarog bæjarfélaga, sem að mestu leyti eru teknar í aukaútsvörum, miðast við útgjaldaáætlanir hvers árs. Það er yfirleitt ekki jafnað miklu meira niður en gert er ráð fyrir, að útgjöld verði á hverju ári. Bæjar- og sveitarfélög hafa því í raun og veru ekki mikla möguleika til að safna stórum sjóðum, sérstaklega þegar þess er gætt, að dýrtíð hefur á undanförnum árum farið jafnt og þétt vaxandi og útgjöld bæjar- og sveitarfélaga hafa því farið meira og minna fram úr áætlun. Ég get því ekki séð, að þessi röksemdafærsla hv. þm. sé á góðum grundvelli reist. Enda ætla ég, að reynslan sé sú, að bæjafélög a.m.k., og kannske sveitarfélög líka, standi ekki miklu betur að vígi nú hvað þetta snertir heldur en þegar innheimta var örðugri.

Þá kom fram í ræðu hans og enn skýrar í ræðu hv. þm. Barð., að það væri óviðkunnanlegt að láta menn greiða gjöld sin, áður en þau væru lögð á og áður en þau væru fallin í gjalddaga. Þetta er misskilningur hjá hv. þm., því það, sem hér er verið að ger a, er ekkert annað en það að láta þenna hluta af útsvörum, 50%, falla í gjalddaga fyrr en áður hefur verið.

Það má að vissu leyti segja, að hér sé um skattamál að ræða, því að ef frv. verður samþ., er gert ráð fyrir því, að hver maður skuli greiða í útsvar 50% af því, sem hann hefur greitt á síðasta ári, og að gjalddagi þessa hluta útsvarsins sé á tímabilinu frá 1. marz til 1. maí. Það er því ekki annað en misskilningur hjá hv. þm., að það sé verið að innkalla þennan hluta, áður en hann félli í gjalddaga, því að gjalddaganum verður breytt, ef frv. verður að l.

Hv. þm. Barð. var að tala um, að það væri ekki verið að setja þessi l. fyrir gjaldendurna, því að ef svo væri, þyrfti ekki annað en tilkynningu um það, að bæjargjaldkeri væri reiðubúinn að taka á móti þessum hluta útsvarsins. En ríkisvaldið vill oft vera forsjón fyrir gjaldendurna. Það er nú einnig svo í þessu tilfelli, að það er litið svo á a.m.k., að það geti verið gjaldendunum sjálfum hollt og eðlilegt fyrir þá, að þeir greiði hluta af þessum mjög tilfinnanlegu sköttum, fyrr en áður hefur tíðkazt. Og það er af því, að ýmislegt bendir til þess, að tekjur manna geti farið minnkandi á árinu, og þá er alltaf sú hættan, að það, sem þeir hafa aflað sér fyrr á árinu, verði að eyðslufé, þannig að þegar að skuldadögum kemur sem væru síðari hluta árs, væri féð þegar notað. Þetta er ekki nýtt fyrirbrigði, heldur það, sem iðulega endurtekur sig í ýmsum samböndum.

Það leiðir af því, sem ég hef áður tekið fram, að það er einnig á misskilningi byggt hjá hv. þm. Barð., þegar hann talar um það, að óréttlátt sé að beita lögtaksrétti og dráttarvöxtum við þessar greiðslur, sem frv. gerir ráð fyrir, af því að ætlazt sé til, að þær séu greiddar fyrir gjalddaga. Ég hef tekið það fram oftar en einu sinni, að aðalefni frv. er að breyta gjalddaganum sjálfum. Hitt liggur í hlutarins eðli, að ef gjaldandi hefur verið látinn greiða meira með þessum hætti en síðar kemur í ljós, að honum ber að greiða samkv. fullnaðarákvörðun um útsvarið, þá mundi hann líka fá endurgreiðslu á dráttarvöxtum af því, sem hann kynni að hafa ofgreitt, ekki síður en þeim hluta útsvarsins. Annars er það, að þar sem ekki á að innheimta þetta fyrr en í marz, er niðurjöfnun útsvara er lokið, að ég held, alls staðar ekki síðar en í júní, — þó að oftast yrði útsvarið endanlega meira en þessi 50% —, þá mundi gjaldandi, ef hann sér, að það verður ekki svo hátt, láta dankast að greiða þennan hluta að fullu. Hann fer nærri um það. hve mikið hann þurfi að greiða, og greiðir það lágmark, sem hann veit, að hann muni þurfa að greiða. Og sveitarstj. mundu þá, held ég, beita svona heldur hóflegum innheimtuaðferðum, og sé ég ekki ástæðu til þess, að menn séu með mikinn ótta út af þessu, ekki sízt þar sem þetta á aðeins að ná til ársins 1943.