23.11.1942
Neðri deild: 3. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

4. mál, áfengislög

Flm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. — Frv. það, sem fyrir liggur á þskj. 4, gerir rað fyrir nokkurri breyt. á áfengisl., nr. 33 9. jan. 1935, þess efnis að heimila íbúum þeirra kaupstaða, sem hafa áfengisútsölur, að greiða atkv. um það, hvort útsala skuli vera þar áfram eður eigi. Skal ég nú færa rök fyrir þessu í örfáum orðum.

Árið 1909 voru bannlög lögleidd, þótt þau að vísu kæmu ekki til framkvæmda fyrr en 1915. Árið 1922 var gerður sérstakur viðskiptasamningur við Spán, og samkvæmt honum gengur í gildi undanþága árið 1923, sem heimilar að flytja inn létt vín frá Spáni og selja þau hér, en bannlögin voru áfram í gildi þrátt fyrir það. Þá tók ríkisstj. sér það vald að setja upp sjö áfengisútsölur, þ.e.a.s. í öllum þáverandi kaupstöðum landsins: Reykjavík, Hafnarfirði, Vestmannaeyjum, Seyðisfirði, Akureyri, Siglufirði og Ísafirði. Ríkisstj. hélt því fram, að þetta væri nauðsynlegt til þess að fullnægja anda Spánarsamningsins. Oft hefur verið rætt um að loka einni eða fleirum af þessum útsölum, en ætíð hefur fengizt sama svarið, að það væri brot á Spánarsamningnum og því ekki framkvæmanlegt. Árið 1935 voru bannlögin endanlega afnumin, en ríkisstj. jafnframt veitt heimild til þess að setja á stofn nýja útsölustaði áfengis, þó ekki nema með samþykkt atkvæðisbærra manna í viðkomandi sýslu- eða bæjarfélagi.

Í áfengisl. nr. 33 9. jan. 1935 9 gr. segir svo með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. er heimilt að setja á stofn nýja útsölustaði áfengis, en þó aðeins í kaupstöðum og kauptúnum. Áður en útsala er sett á stofn, skal fara fram atkvæðagreiðsla kosningabærra manna í því sýslu- eða bæjarfélagi, sem í hlut á, og þarf 3/5 hluta greiddra atkv. til þess að útsala sé leyfð. Nú hefur verið fellt með atkvgr. að stofna útsölu samkv. framansögðu, og getur atkvgr. þá ekki farið fram á ný fyrr en að tveimur árum liðnum.“ Með þessu ákvæði sköpuðust tvenns konar réttindi fyrir íbúana. Íbúar Norðfjarðar t.d. fengu rétt til þess að ákveða sjálfir, hvort þar skuli vera útsala eður eigi, en íbúar Seyðisfjarðar verða að sitja með sina útsölu, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Það liggur ljóst fyrir, að þarna var misræmi á ferðinni, sem sé, að íbúar sjö kaupstaða fá engu ráðið sjálfir, en í öllum öðrum kaupstöðum og kauptúnum landsins er það á valdi íbúanna, hvort þar skuli vera útsala eður eigi. Þessi tvískinnungur í lögunum frá 1935 stafar af því, að löggjöfunum fannst ekki hægt að stofna til atkvgr. í þessum sjö kaupstöðum, af því að það bryti í bág við anda Spánarsamninganna, en þeim mun einnig ekki hafa verið fyllilega ljóst hvílík misgjörð hér var á ferðinni.

Nú álít ég, að ekki verði lengur um það deilt, að Spánarsamningurinn sé farinn veg allrar veraldar, og við þurfum því ekki að taka neitt tillit til hans framar. Ég skal því sleppa því, hvort ákvæðið frá 1935 hafi á sínum tíma verið réttmætt eður eigi, en nú er aðstaðan breytt. Í frv. því, sem nú um ræðir, er gert ráð fyrir því, að sami réttur gildi fyrir íbúana í öllum kaupstöðum og kauptúnum landsins. Þar er gert ráð fyrir því, að þessir sjö kaupstaðir, sem um hefur verið rætt, skuli fá rétt til þess að ákveða með atkvgr., hvort útsala skuli starfa þar áfram eður eigi., en eins og nú standa sakir verður ekki um það deilt, að nú gilda tvenn lög í landinu.

Að svo mæltu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn. að lokinni 1. umr.