14.01.1943
Neðri deild: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

4. mál, áfengislög

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Aðeins út af síðustu setningum í ræðu hv. síðasta ræðumanns (SigfS) vildi ég bæta örlitlu við það, sem ég sagði áðan.

Enda þótt Spánn tæki ekki við þeim sendimanni, sem íslenzka ríkisstj. ákvað að senda suður þangað, þá getur það ekki á nokkurn hátt skoðazt sem rifting á stjórnmálalegu sambandi við Ísland og ekki á nokkurn hátt orðiðskoðað sem nein sönnun eða líkur fyrir því, að þeim samningum, sem voru í gildi, og að okkar dómi eru í gildi, hafi verið riftað með þessu. Það, sem gerðist, var, að íslenzka ríkisstjórnin fór fram á það við spönsku stjórnina, að hún tæki við ákveðnum manni sem diplomatiskum sendifulltrúa, en svar við þessari beiðni kom ekki. Þetta kemur stundum fyrir milli ríkja, og geta verið fyrir því fleiri en ein ástæða. Ég ætla ekki að fara út í þær ástæður, sem hér muni hafa verið um að ræða. En þetta hefur aldrei verið skoðað í viðskiptum milli ríkja sem ástæða til þess að slá því föstu, að stjórnmálasamband ríkjanna sé farizt út um þúfur, og því síður sem gild ástæða til að slá því föstu, að samningar, sem ekki hefur verið sagt upp, séu úr gildi fallnir.

Af þessu vil ég endurtaka það, að ríkisstjórnin lítur þannig á, að Spánarsamningurinn sé í fullu gildi og við höfum rétt til þess að fá flutt inn til Spánar nú eins og áður íslenzkan saltfisk með beztu kjörum, og við viljum ekki falla frá þeim rétti Íslendinga.

Um málið að öðru leyti hef ég ekki ástæðu til að taka neitt frekar fram.