12.02.1943
Efri deild: 56. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

4. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. — Allshn. hefur haft þetta frv. til meðferðar og hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. leggur til, að það verði samþ. óbreytt, en minni hl. vill fella það. Það er naumast ástæða fyrir mig að ræða málið ýtarlega. Frv. er orðið húsgangur í þ., en hefur aldrei fengið afgreiðslu. Einstökum þm. er líka kunnugt málið, því að það hefur mikið verið rætt í blöðum, og þó sérstaklega manna á milli. Það er ekki farið fram á annað í frv. en þeir útsölustaðir áfengis, sem voru settir á stofn, þegar Spánarundanþágan var veitt í upphafi, skuli fá að starfa áfram, ef meiri hl. kosningabærra manna á staðnum óskar þess. Það var fyrir nokkrum árum gerð sú breyt. á áfengisl., að nýir útsölustaðir áfengis skyldu því aðeins settir á stofn, að vilji til þess væri fyrir hendi hjá verulegum hluta atkvæðisbærra manna á hverjum stað, en það var ekki farið svo langt að taka upp ákvæði um, að það sama gilti um þá útsölustaði, sem þegar voru settir á stofn. Meiri hl. allshn. lítur svo á, að ekki sé um að ræða nema sjálfsagða réttlætiskröfu, og leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt og þessum byggðalögum fenginn sami réttur og þeim, sem ekki fengu áfengisútsölur í upphafi.