15.01.1943
Neðri deild: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Sigurður Bjarnason:

Fyrir skömmu var til umr. hér í þessari hv. d. till. til þál. um mþn. í sjávarútvegsmálum, sem hv. 2. þm. S.-M. og nokkrir flokksbræður hans fluttu. Þegar þessi þáltill. kom fram, fannst mér ekki ástæða til annars en að fagna því, að slík till. kom fram, og ekki sízt, að hún kom úr þeirri átt, sem raun var á. Í þessari þáltill. er tekið fram, að það sé þörf á að rannsaka ýmis mál sjávarútvegsins, og aðalatriði till. virðist vera mótað í 1. gr. þáltill., þar sem talað er um, að rannsaka þurfi, á hvern hátt stuðningi ríkisins við sjávarútveginn verði heppilegast fyrir komið. Samkv. orðanna hljóðan í þáltill. og því, sem hv. flm. hélt fram hér, er hann lýsti till., fannst mér ástæða til að fagna því, að þessi þáltill. kom fram. Það er líka nauðsynlegt, að mörgum málum, sem sjávarútveginn varða, sé aukinn gaumur gefinn. En þegar nál. er út komið um það frv., sem hér liggur fyrir, um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð Íslands, og fram hefur komið rökst. dagskrá frá hv. þm. N.-Þ., þá fer ég að efast um, að það sé eins mikið fagnaðarefni fyrir okkur, sem viljum efla sjávarútveginn, að sú þáltill. er fram komin, sem ég gat um. Sá geigur, sem hv. 7. þm. Reykv. lét í ljós um það, að sú till. ætti að vera nokkurs konar skálkaskjól til þess að standa í vegi umbótamála sjávarútvegsins, hefur reynzt óþyrmilega mikið að sönnu. Nú, þegar samkomulag hefur náðst í sjútvn. um þetta mál, sem hér liggur fyrir, sem fer fram á tiltölulega lítilfjörlega réttarbót fyrir annan aðalatvinnuveg landsmanna, sjávarútveginn, þá er þessi þáltill., sem ég gat um, strax notuð sein tylliástæða til að leggja til, að þessu máli, sem fyrir liggur, verði í raun réttri vísað frá. Ég harma það, að ég get ekki haft þá sömu trú á hinum góða vilja, sem ég hélt, að lægi bak við þessa þáltill. hjá hv. 2. þm. S.-M., sem mælti mörg hagleg orð um þá till. hér í hv. þd.

En aðalatriði málsins er ekki þetta. Hv. 7. þm. Reykv. hefur gert svo glögga grein bæði fyrir þessu frv. við 1. umr. og einnig fyrir brtt. þeim, sem sjútvn. gerir við frv., að ég þarf ekki miklu við það að bæta. Vil ég þó aðeins benda á eitt atriði, varðandi það nýmæli, sem lagt er til, að tekið verði upp samkv. 6. gr. þessa frv., þ.e.a.s., að við fiskveiðasjóð verði stofnuð sérstök deild, sem annist það hlutverk að veita styrki til byggingar fiskibáta innan 150 smál. Hv. 6. landsk. þm. taldi, að með þessari styrkveitingaraðferð væri farið nokkuð í öfuga átt og að þessar styrkveitingar gætu verið varhugaverðar. Ég er að víssu leyti sammála hv. 6. landsk. þm. í þessu efni. Styrkjapólitík hefur á undanförnum árum gengið alllangt hjá okkur Íslendingum. En þó má fullyrða, að hagsmunir sjávarútvegsins, þess atvinnuvegar landsmanna, sem mesta möguleika skapar til þess, að hægt sé að veita styrki til ýmissa gagnlegra fyrirtækja og ýmissa hluta í þessu landi, hafa sízt setið í fyrirrúmi, þegar um það hefur verið að ræða að veita styrki til gagnlegra hluta. Að vísu hafa verið veittir styrkir til bátabygginga, sem talsvert hefur létt undir með mörgum smáútvegsmönnum um að eignast sín eigin skip. Og till. þær, sem settar eru fram í þessu frv., miða að nokkru leyti í sömu átt. Og ég hygg, að hv. 6. landsk. þm. og ég getum verið sammála um það, að enda þótt inn á þessa braut sé farið nú, þegar alveg sérstaklega stendur á, þá sé það ekki upp á framtíðina alveg bindandi, þannig að Alþingi hafi skapað það fordæmi með því upp á framtíðina, að frá því verði ekki hægt að víkja, þegar um hægist fyrir þessum atvinnuvegi. Ég hygg, að einmitt þetta atriði frv. eigi að ganga fram. Margir smáútvegsmenn eiga í vandræðum með að komast frá þeim skipabyggingum, sem þeir hafa ráðizt í við erfiðar aðstæður. Og enda þótt á síðustu árum hafi komið nokkuð mikill gróði í hlut sjávarútvegsins, stríðsgróðinn, þá hefur í hlut smáútgerðarinnar komið sáralítið af þessum gróða. Sjómenn hafa að vísu fengið nokkru hærri hlut. En smáútvegsmönnum hefur ekki tekizt að safna verulegum gróða, hvað þá stríðsgróða, sem svo er nefndur.

Annað atriði þessa frv. er lækkun vaxtanna. Samkv. þessu frv. er lagt til, og sjútvn. hefur ekki gert neinar brtt. við það, að vextir verði lækkaðir úr 41/2% niður í 3%. Þetta er að vísu veruleg lækkun. En þegar um er að ræða að lækka vexti af lánum til fyrirtækja í sambandi við útveginu, verður líka að lita á það, að lánstíminn er svo stuttur, að það er sérstaklega rík nauðsyn á því, að vextirnir séu lægri hjá þessum atvinnurekstri en hjá nokkrum öðrum. Enn fremur eru þær eignir, sem út á er lánað, skipin, þannig, að einnig af þeim ástæðum er rétt, að vextirnir séu hafðir lágir.

Ég ætla ekki, að ég þurfi að fjölyrða frekar um þetta. Hv. þm. N.-Þ. hefur borið fram rökst. dagskrá. En þó vil ég vona, að trúa megi á þau haglega sögðu orð, sem hv. 2. þm. S.-M. lét sér um munn fara um skilning á þörfum sjávarútvegsins, þegar bann talaði um till. til þál. um mþn. í sjávarútvegsmálum.