02.03.1943
Efri deild: 67. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

80. mál, brúargerð

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er út af þessari brtt. á þskj. 477, að ég kvaddi mér hljóðs. Ég skildi það þannig hér, að samgmn. hefði í starfi sínu haft mjög góða samvinnu við vegamálastjóra og leitað hans ráða og hefði bætt við á brúarl. nýjum brúm einum eða fleiri í öllum kjördæmum landsins. Og mér hefur skilizt þannig, að n. ætlaði að miðla þannig á milli kjördæmanna eftir því sem föng væru á, en svo væri meiningin, að ekki yrðu samþ. frekari breyt. á brúarl. Þetta hefur orðið til þess, að ég hef ekki komið með brtt. við frv. Því að í mínu kjördæmi eru 2–3 brýr, sem ég hefði gjarnan viljað koma inn á frv., en ég hef af greindum ástæðum ekki séð mér fært að koma fram með brtt. um það. En ég vildi beina því til hv. samgmn., hvort það sé meiningin, að hér yrði komið að yfirleitt brtt. við frv. hennar eða hún ætlar að gera sitt til þess að halda því sem mest lokuðu, þannig að það gæti farið án breyt. út úr hv. d. Ef samþ. væru hér enn brtt. við frv., vildi ég koma með brtt. við það. Og e.t.v. yrði það þannig, ef frv. yrði hér opnað, þá yrði því breytt í hv. Nd. og gætum við þá komið með brtt. hér við það, þegar það kæmi aftur hingað, en nú við þessa umr. er of seint að koma með brtt. nema skrifl. Og ég vildi vita, hvað hv. samgmn. ætlaðist fyrir um þetta áður en ég kem með brtt.