18.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

Rannsókn kjörbréfa

Jónas Jónsson:

Hæstv. forsrh. flutti hér allýtarlega ræðu í gær, sem ég mun gera við nokkrar aths., og eins við það, sem síðasti ræðumaður sagði. Bæði hann og hv. 3. landsk. létu í ljós undrun yfir því, að málið kemur til umræðu, þó að ekki sé kært samkv. kosningal. Er undarlegt, að þessi hv. þm. Alþfl., sem hefur verið forseti Sþ., virðist ekki þekkja þingsköp. Í 5. gr. er einmitt gert ráð fyrir því, og vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa hana upp:

„Þingið getur við rannsókn úrskurðað kosningu ógilda, þótt ekki hafi kærð verið, og einnig frestað að taka kosningu gilda, til þess að fá skýrslu.“

Það er eins og þessi hv. þm. hafi ekki vitað þetta, því að annars hefði honum ekki dottið í hug að gera aths. við það. að farin væri sú leið, sem þingsköp mæla fyrir. Það er engum vafa undirorpið, að það er ekki hægt að fara öðruvísi að. Það er kjósandi úr kjördæminu, sem sendir Alþingi þessa skýrslu sína. Og það var játað af þessum sama fulltrúa Alþfl. (HG), að þær sakir, sem bornar væru fram út af kosningunni, væru alvarlegar.

Ég kem þá að því, sem hæstv. ráðh. og sá, sem talaði síðast, gerðu mikið að, en það var að tortryggja þennan mann úr Snæfellsnessýslu. Ég held maður verði að biðja þessa góðu menn að athuga sinn gang. Þessi maður er fyrst og fremst kjósandi á Snæfellsnesi. Hann er enn fremur formaður í verkalýðsfélagi á Ólafsvík, þar sem eru 150 menn. Enn fremur er hann nú sem stendur fulltrúi fyrir þetta kjördæmi á stóru verkalýðsþingi, sem kemur saman hér í bænum. Það er þannig auðséð, að hann hefur traust hjá stærsta félaginu í Ólafsvík. Ekki nóg með það, heldur er auðséð, að þessi maður var ákaflega hátt á strái í Sjálfstfl. Ég hygg, að síðasti ræðumaður muni minnast þess, að fyrir kosningarnar í vor stóð hann upp í Ólafsvík og hélt ræðu með Gunnari Thoroddsen og málstað hans. Og í þessu bréfi, sem hefur ekki verið mótmælt af neinum kunnugleika, þá segir beinlínis, að á fulltrúafundinum, sem haldinn var í Ólafsvík, hafi hann verið viðstaddur. Það er auðséð, að viku fyrir kosningar er þessi maður staddur í innsta hring Sjálfstfl. í Ólafsvík. Og hann nefnir eina 6–7 þekkta menn flokksins í Ólafsvík — sumir eru mér kunnir og eru helztu menn flokksins í Ólafsvík. Það er þess vegna langt frá, að þær röksemdir, sem hæstv. forsrh. kom með og einnig hv. síðasti ræðumaður, séu gildar frá þessu sjónarmiði. (GTh.: Má ég skjóta fram í? Þar sem þetta var gert 11. okt. og ég nefndur sem vitni, vil ég upplýsa, að þann dag var ég staddur í Stykkishólmi. Þetta sýnir eitt með öðru, hvílík endemi eru á ferðinni). Þetta á framígrípandi að skýra, þegar rannsóknin fer fram, og gat hann beðið með það þangað til. Því hefur ekki verið mótmælt af frambjóðanda Sjálfstfl., að þessi maður hafi verið í innsta hring flokksins, enda er það vitað. Hann var trúnaðarmaður, meðmælandi við framboð Gunnars 5. júlí og í innsta hring fram undir síðustu kosningar. Enn fremur er hann formaður stærsta félagsins í Ólafsvík og fulltrúi þess á landsþingi hér í bænum. Þetta er allt og sumt, sem mér er kunnugt, — og bréfið, sem ég hef handa á milli. Það er því alveg tilgangslaust að reyna með almennum rökum að hnekkja þessum manni. Ef hann er svo svívirðilegur, hvers vegna hafa þeir til skamms tíma haft hann í þessum mannvirðingum? Það er einmitt sú aðstaða, að hann nýtur trausts í Ólafsvík, og í öðru lagi, að hann er hátt settur í flokknum, sem gerir hann trúlegt vitni. Hér liggja því þær ástæður til, að það var ekki hægt annað fyrir hvern þm., sem virti þingið nokkurs og víssi um þær misfellur, sem þessi kunni maður úr Sjálfstfl. bar fram, — ekki hægt annað en styðja að því, að þetta mál kæmi fram til umr. á þingi og verði rannsakað síðar. Og hv. fulltrúa Alþfl. vil ég segja, að það er beinlinis skylda alþingis að láta rannsaka hverja þá kosningu og fresta að taka hana gilda, þar sem lítur út fyrir með sterkum rökum, að fjármagni hafi verið beitt til að hafa áhrif á margvíslegan hátt. Og við báða verkamannaflokkana vil ég segja það, að þeir eru á hæpinni leið, ef þeir sinna engu þeirri einu vörn, sem fátæklingarnir í landinu hafa gagnvart misfellum í kosningum, sem kunna að stafa frá þeim, sem auðinn hafa. Það er háskalegur leikur, ef þeir slá úr hendi það eina vopn, sem fátækir kjósendur hafa, og láta þær kosningar, sem bersýnilega eru framkvæmdar undir áhrifum fjármagns, óátaldar. Það er náttúrlega ekki alltaf hægt að sanna fyrir dómstólum þau áhrif, sem fjármagnið hefur. En það, sem skiptir máli með þessa kosningu, er þetta: Vilja þm., eða vilja þeir ekki, fresta kosningu, sem liggur ákaflega sterkur grunur á, að unnin hafi verið með fjármagni á margan hátt? Ef ekki, þá eru þeir að ýta undir þá menn, sem til eru í öllum þjóðfélögum, sem vilja beinlinis kaupa kjördæmin. Og þingið hefur engin önnur ráð en að ónýta kosninguna, ef sannað þykir, að fjármagni hafi verið svívirðilega beitt. Þjóðfélagið hefur þingið eins og kviðdóm, sem kveður á um sýknun og sekt.

Ég ætla þá að víkja fáum orðum að því, sem hér hefur verið sagt um bréf Kristjáns Jenssonar. Það er sérstaklega eftirtektarvert, að frambjóðandi Sjálfstfl. hefur reynt að afla sér vottorðs frá þessari konu, sem átti að hafa þegið peninga. Ég vil segja, að það er út af fyrir sig engin tæmandi sönnun, að konan gefi vottorð um það. Það, sem skiptir máli, er, hvort konan hefur sagt honum, að hún hafi tekið við 30 kr. af umboðsmanni Sjálfstfl., því að ef það er ekki sannanlegt, að menn þiggi mútur, þá eru þeir til með að bera það til baka. En ef þetta verður rannsakað, þá verður þessi kona krossyfirheyrð, og þá gæti komið í ljós, að hún yrði tvísaga við það vottorð, sem hún hefur gefið í dag. Þess vegna hefur það ekkert að segja, þó að hún hafi gefið það vottorð í dag, að hún hafi ekki þegið peninga. Spurningin er aðeins sú, hvað rétt er í málinu.

Ég kem þá að öðrum lið, manninum í Ólafsvík, sem er að vísu nokkuð vínhneigður, sem á að hafa látið þau orð falla, að hann kysi ekki, nema hann fengi vín. Þá kemur kosningasmalinn og hefur undir eins til vín, og það er enginn vafi, að vín hafa þeir haft ríkulega, hver sem hefur lagt það til. Hann virðist fá vínið, en er svo hreinskilinn að segja, að hann ætli ekki að kjósa frambjóðanda Sjálfstfl. Þá gæti sumum fundizt það vera sakleysismerki hjá kosningasmalanum, að hann telur ekki vínið eftir, en í mínum augum er það sönnun þess, að hann getur ekki gert annað. Hann er auðsjáanlega búinn að biðja manninn að kjósa eftir sínum vilja. Þá er ekki um annað að gera en að taka lipurlega á því og segja, að það komi sér betur, að hann kjósi svona. Þetta sýnir vinnubrögð þeirra smala, sem vinna með áfengi, þó að það virðist ekki hafa haft áhrif á þennan mann.

Þá kemur þessi yfirlýsing, sem Kristján Jensson segir frá af fulltrúafundinum. Það er enginn vafi, að Elíníus Jónsson er einhver duglegasti kosningasmali Sjálfstfl. í Ólafsvík og hefur lengi verið það. Hann segir einmitt þessi gullvægu orð: „Ef einhver minna flokksmanna veit af einhverju fólki, sem hann vill gleðja fyrir kosningarnar, þá má hann vitja peninganna til mín. Þetta er ekki hægt að sanna til fulls, nema óhlutdrægur dómari rannsaki það, því að einföld neitun frá Elíníusi segir ekkert. Þá fyrst, er athugað er allt framferði barns, kemur í ljós, hvort hann hefur sagt þetta eða ekki, en það sjá allir, að hér er um að ræða stórfelldar mútugjafir.

Nokkru síðar segir sami maður, og því munu þeir kannske trúa, sem þekkja hans mikla dugnað, að hann hótar að vinna að því, að maður, sem hefur verið verkstjóri þar vestra fram undir 20 ár, verði sviptur starfi. Hann segist ætla að fara með það í stj. sína og fá hana til að reka manninn úr þessu starfi. Þetta sýnir enn eina hlið á þessum óleyfilega og andstyggilega kosningaundirbúningi, sem þjóðin veit, að er undirstaðan að því kjörbréfi, sem Gunnar Thoroddsen þykist ætla að fá hér. Það er þessi dúnsæng, sem Gunnar þykist ætla að sitja hér á í fjögur ár, — makleg og gleðileg byrjun á veru hans hér.

Það skýrir sig sjálft, þegar maður gengur fram hjá, og þá er sagt, að það sé vani að stinga að honum 50 kr., og sé bezt að gera það enn. Þetta bregður líka birtu yfir ekki aðeins það, sem gerzt hefur nú, heldur að það hafi verið vani að múta honum með 50 krónum.

Síðasta atriðið er engan veginn ómerkilegt, þar sem maðurinn með þessa góðlátlegu bendingu um, að vani hafi verið að gefa þessum manni 50 kr., fær rétt fyrir kosningarnar kassa úr Rvík með áfengi, „og voru engir verðmiðar á“. Það er smyglað, stolið vín, sem líka á að nota í þessum sama tilgangi, að hafa áhrif á skoðun kjósenda á kjördegi.

Ég vil í framhaldi af þessu, af því að mér finnst, að þessi frambjóðandi tali með nokkuð mikilli drýldni um frammistöðu sína, minna hann á eitt, sem er engum vafa undirorpið. Þar þarf ekki að deila um, hvað Kristján Jensson hefur heyrt eða Kristín Olíversdóttir sagt, því að þetta er á allra vitorði. Það er samkoma, sem var haldin í Ólafsvík, þar sem þessi frambjóðandi var á ferð og með honum einn flokksbróðir hans, núverandi hæstv. atvmrh. Öllu fólki í Ólafsvík voru send boðskort, líka framsóknarmönnum. Þar var mikið um vín og margir drukknir, en það vín var ekki komið frá Bjarna Bjarnasyni eða framsóknarmönnum. Ég vil taka fram, að Bjarni Bjarnason er eini maðurinn hér í landi, sem hefur tekizt að standa fyrir stóru gistihúsi, 100–150 manna gistihúsi, án þess að þar hafi sézt nokkur maður með áfengi. Hann er sá skólastjóri, sem lengst hefur komizt í því að venja lærisveina sína af að nota áfengi. Þetta bregður enn skarpari birtu yfir kosningarnar, að sá maður, skólastjóri, alþm., húsbóndi á stóru heimili, sem hefur kannske betur en nokkur annar maður hér á landi barizt gegn andstyggilegri nautn áfengis, skuli falla þarna, þó að hann virðist hafa yfirgnæfandi fylgi allra þeirra manna, sem vert er að kjósi. — Sjálfstfl. hélt þessa samkomu, bauð á hana, og menn urðu ölvaðir strax. Á þessa samkomu var komið með loddara úr Stykkishólmi, sem söng svívirðilegar vísur í áheyrn Gunnars Thoroddsen um Bjarna Bjarnason til að lítillækka hann og sveitafólkið á Snæfellsnesi. Þegar framsóknarmenn, sem á fundinum voru og höfðu verið ginntir þangað með vinarboðum, heyrðu þetta, fóru þeir út, og þó sérstaklega, þegar hæstv. atvmrh. hélt ræðu um Bjarna Bjarnason fjarstaddan, sem líktist því, þegar hann sagði í útvarpið, að við framsóknarmetin værum nöðrur í Rvík. Það er Snæfellingum til sóma, að þeir uppleystu þessa samkomu. Svívirðing þessarar samkomu, níðingsskapurinn, siðleysið, að draga þarna inn óþverrastrák til að syngja svívirðilegar vísur um fjarstaddan andstæðing, ausa yfir hann óhróðri og fylgismenn hans, keyrði svo úr hófi, að fólkið þoldi ekki, en leysti samkomuna upp, en hún varð til minnkunar og er enn til minnkunar fyrir Gunnar Thoroddsen og verður lengi haldið á lofti. Þarna eru nógu mörg vitni, og frá þessu mun Gunnar Thoroddsen aldrei sleppa, þó að hann sleppi kannske frá kunningsskap sínum við Kristínu Olíversdóttur. (Hlátur.) Ég hef tekið þetta dæmi, af því að það sýnir vel, hvaða blær það er, sem þessir menn setja á samkomuna. Og þegar ég lít yfir 25 ára kynningu mína af núverandi hæstv. atvmrh., sem er á svo margan hátt í fremstu manna röð sakir menntunar, gáfna og margra annarra kosta, þá undrast ég, að hann skuli, af því að hann komst inn í þennan hring, sem var utan um Gunnar Thoroddsen, hafa brotið þær reglur, sem venja er að fylgja, þó að hann fylgdi þeim ekki í útvarpinu.

Ég skal þá stuttlega víkja að hæstv. forsrh. Þó að Lloyd George sé merkur maður, þá er varla hægt að taka fyndni hans fyrir 60 árum og sjóða hana upp hér. Hún er sjálfsagt góð, en hefur engin áhrif hér. Jafnvel 60 ára gömul fyndni frá kosningunum í Englandi er gagnslaus hér í jafnalvarlegu máli. Hæstv. ráðh. lét orð falla um, að honum fyndist framkoma mín minna nokkuð á eldri víðskipti okkar. Það er rétt, að við höfum átt margs konar víðskipti og deilt um margt. Ég ætla að minnast á tvenn viðskipti okkar, sem líkjast mest þessum, þar sem mér finnst, án þess ég ætlist til nokkurs fylgis af honum, að eftir þeim viðskiptum, sem þar urðu, ætti hann að treysta minni dómgreind betur en sinni viðvíkjandi þessu stigi réttlætismála, úr því að hæstv. ráðh. fór að minnast á gamlar deilur okkar á milli, sem eru ríkulega bóklestar í þingtíðindunum. Annað þeirra er Hnífsdalsmálið, sem var stórkostlegt kosningasvikamál. Hitt er mál, sem stóð lengi milli okkar og margra annarra út af því, að veiðiskip hér við land fengju fyrirmæli úr landi um, hvernig þau ættu að haga landhelgisveiðum sínum og fregnir um verustaði varðskipanna. Í báðum þessum málum var rannsókn látin fram fara. Hæstv. ráðh. barðist á móti rannsókn í bæði skiptin og hefur vafalaust trúað, að hann hefði á réttu að standa, en reynslan varð sú, að hann hafði á röngu að standa, en ég á réttu að standa. Nú vil ég taka fram, að mér dettur ekki í hug um Hnífsdalsvíkin, sem áttu að verða frambjóðanda Sjálfstfl. í vil, að fylgismenn þess flokks í Norður-Ísaf jarðarsýslu hafi yfirleitt verið inni í svikunum; það voru aðeins fáir menn, en þeir ætluðu með svikum að hafa áhrif á kosninguna til framdráttar þeim flokki, sem Gunnar Thoroddsen fyllir nú. Hnífsdalsmálið var þannig, að sterkur grunur var á, að kosningin væri ólögleg. Þá hafði ég þá aðstöðu, bæði í stj. og eins sem þm., að það valt ekki lítið á mínum aðgerðum, hvort málið var rannsakað. Endirinn var sá, að málið var rannsakað og rekið með miklum dugnaði. Þetta var talsvert erfitt mál, því að eins og hæstv. ráðh. veit, þá átti flokkur hans hlut að máli. En svikin komust upp. Það hafði verið framinn glæpur til framdráttar frambjóðanda þessa flokks, sem þá hét Íhaldsflokkur. Ég bið því hæstv. ráðh. að telja mér til tekna siðferðilega, að mér tókst að láta þessa rannsókn fara fram og átti þátt í því, að atvikin voru uppgötvuð. Þessi rannsókn varð til þess, að síðan hefur aldrei bólað á svona svikum. Það er því enginn vafi, að þessi barátta hefur haft stórkostlega siðbætandi áhrif á okkar pólitíska líf. En ef það hefði verið sofandi dómsmrh. eða hlutdrægur og vesæll dómari, sem rannsakaði málið, þá hefði fólkið vitað um glæpinn, en sagt: „Það er ekki hægt að kæra, þjóðfélagið sefur, þeir, sem eiga að gæta réttlætisins, vilja ekki gera það.“ Ég vil á engan hátt líkja hæstv. forsrh. við það dýr, sem hann vildi draga inn í umr., en ég hef tekið þetta dæmi til þess að benda honum á, að þetta hefur komið fyrir, fyrst hann fór að gera lítið úr hæfileikum mínum, að hans dómgreind reyndist lakari en mín í Hnífsdalsmálinu.

Svo kemur annað mál, sem var miklu þrálátara. Ég vissi það, sem allir landkrabbar vissu, að sum veiðiskipin höfðu menn í landi til að segja þeim, hvar varðskipin væru. Ég reyndi í mörg ár að fá l. gegn þessu, en alltaf, þegar ég var rétt kominn að því að sigra, þá kom alltaf eitthvað fyrir, svo að málið komst ekki fram. Svo sterk voru þau öfl, sem þarna unnu á móti. Svo fór ég úr stj., en málið hafði verið vakið, og það vildi svo til, ég held, að það hafi verið í sambandi við strandað útlent veiðiskip, að upplýsingar komust í hendur réttvísinnar, sem sýndu, að þetta skip hafði hjálparmenn í landi, sem gerðu það, sem við höfðum búizt við og átti að fyrirbyggja. Svo kom rannsóknin, sem sannaði, — mig minnir, að ekkert sannaðist á íslenzka togara, — en það sannaðist, að nokkrir Íslendingar höfðu staðið að þessu, og ég hafði haft á svo réttu að standa, að í raun og veru varð að breyta skipulagi varðskipanna, breyta um tegund varðskipa, vegna þess að svipuð svik voru svo stórfelld, að ekki var hægt að hafa stóru skipin, heldur varð að fá mótorbáta, og eftir að þeir komu, var miklu óhægara en áður að koma við þessum svikum. Ég vona, fyrst hæstv. ráðh. hóf máls á þessu með nokkrum lítilsvirðingarorðum í minn garð og minna aðgerða, að þessi dæmi minni hann á, að í þeim mörgu glímum, sem við höfum átt, og ég segi ekki, að ég hafi alltaf sigrað, þá hef ég þó í þessum tveimur viðureignum hafi réttara fyrir mér en hann. Nú er þetta að vísu ekki fullkomin sönnun fyrir þessu máli, en það er þó það, sem það nær frá almennu sjónarmiði, svo að það er ekki til neins fyrir hann að lítilsvirða skoðun mína á réttlætismálum, því að það gengur of mikið á móti honum, ef litið er sögulegri á það.

Hæstv. ráðh. sagði eina svolítið spaugilega setningu, og ég hef ekki á móti, að hún sé rædd nánar. Ég held, að hann hafi fundið til þess, að ekki var vel viðeigandi að bera það á Framsfl., að hann hafi unnið hverjar einustu kosningar með mútum og segir nú, að við höfum notað ríkisfé til að kaupa okkur fylgi. Ég vona, að hann skýri nánar, hvort hér er um að ræða einhverjar duldar greiðslur, sem ég eða einhver annar þm. eða trúnaðarmaður úr Framsfl. hafi stolið úr ríkissjóði og leynt, t.d. borgað einhverjum einstaklingum peninga, eða hvort það er, sem mér þykir sennilegra að hann meini, sem mér finnst rétt að rökræða nú, að við höfum varið almannafé þannig, að það hafi orðið okkur til aukins fylgis. Ég vil þar minnast á, að þegar Knud Zimsen var hér borgarstjóri, var höfnin byggð, og Bjarni Benediktsson, núverandi borgarstjóri, sendir út togara til að veiða í soðið handa bæjarbúum. Það má segja, að báðir þessir borgarstjórar hafi verið að kaupa sér fylgi bæjarbúa með því að láta bæinn leggja fé í þessi fyrirtæki. en ég álít, að bæði Knud og Bjarni séu réttlætanlegir fyrir þetta. Þarfar og skynsamlegar framkvæmdir hljóta alltaf að verða þeim til aukins álits, sem fyrir þeim standa, þó að þær séu kostaðar af almannafé. En mér finnst, að hæstv. ráðh. eigi að koma með dæmi um, hvar við framsóknarmenn höfum misbeitt áhrifum okkar í pólitík til þess að kaupa okkur atkv. Morgunbl. fær að standa fyrir sínum dómi, og það er rétt, að hann fái að standa fyrir sínum. Ég álít, að ekki sé nein meining í því fyrir hann að tala eins og Morgunblaðið gerir, því að ég veit, hvernig dómurinn fer um Morgunblaðið. Öll þessi orð þess verða dæmd dauð og ómerk, því að það getur ekki komið með neinar slíkar sögur. Ef ég segi, til þess að vera nú dálítið varasamari en Morgunblaðið, að Sjálfstfl. hafi unnið margar kosningar með mútum, þá gæti ég ómögulega staðið við það. Ég vil ekki segja, að hann hafi unnið einar einustu kosningar með mútum. Það er fjarstæða gagnvart hvaða fl. sem er að bera hann allan slíkum brigzlum. Segjum, að í Hnífsdalsmálinu hafi 5 menn af 700 kjósendum þar framið vítavert athæfi. Það er einn hreppstjóri, sem fremur það. Þessi svik gátu riðið baggamuninn. En það væri hrapallegt ranglæti að ætla að dómfella alla Norður-Ísfirðinga fyrir afbrot þessa eina manns. Eins er með Snæfellinga. Það er langt frá, að þessar kosningar séu frá okkar sjónarmiði Snæfellingum til minnkunar, heldur til hins mesta hróss. Þær hafa verið og eru mest umtalaðar af öllum kosningaþáttum þessa árs, vegna þess að í fyrri kosningunum sigrar maður á málstað og mannkostum og engu öðru móti venjulegum sterkum flokksmálstað og sæmilega hæfum, þó ekki allt of hæfum, frambjóðanda. Við síðari kosningarnar tekst þessum manni, sem Gunnar Thoroddsen vill láta líta svo út að hafi brotið af sér við fólkið í sumar, að hækka enn kjósendatölu sina, og þó hafði hann enga peninga, ekkert brennivín, engar hjálparsveitir, engan Elíníus, engan Steinsen, enga Kristínu, ekkert síldarmjöl, ekkert nema sína persónu og sinn sterka málstað. En það, sem Snæfellingum þykir skömm að, eru þær sögur, sem sagðar eru af Snæfellsnesinu, það er brennivínið, peningagjafirnar, andstyggðin í Ólafsvík, síldarmjölsgjafirnar, sem alltaf verða tortryggilegar, þangað til þeir hafa gert hreint fyrir sínum dyrum, það er karlinn í Stykkishólmi, sem farið var með grátandi á kjörstað., það er þessi frekja, það eru þessir 20 menn úr Rvík, sem voru sendir vestur á Snæfellsnes, lágu þær við vikum saman og báru út um Bjarna Bjarnason álíka óhróður og grínsögur og grínsöngvarinn söng í níðvísum sínum í Ólafsvík.

Það, sem er sá varanlegi ávinningur, er, að Snæfellingar hafa vaknað til baráttu, ekki eingöngu pólitískt, heldur til viðreisnar héraðsins.

Hæstv. forsrh. sagði hér nokkrar gamansögur um misfellur, sem hefðu átt sér stað í kosningum. Það hefði verið sagt um mig, að ég hefði setlað að kaupa kommúnistann í Þingeyjarsýslu til þess að hætta við framboð. Ég hygg, að Kristinn Andrésson hefði ekki þegið af mér peninga, enda datt mér ekkert slíkt í hug og þurfti ekki á neinu slíku að halda. Kristinn Andrésson hefur ekkert fylgi í Þingeyjarsýslu, og ég hef enga freistingu til að afla mér meira fylgis en ég hef. Það var meiri munur á mér og næsta frambjóðanda en í nokkru öðru kjördæmi á landinu. Ég skora á ráðh., þegar hann fer að flytja skáldskap inn í þingið til stuðnings máli sínu, hafi hann á því svolítið meiri veruleikablæ. Og ég skora á hann að draga enga fjöður yfir það, ef hann kemst að því, að framsóknarmenn séu að freista kjósenda með síldarmjöli eða víni. Ég vil ekki taka á móti neinum atkv. fyrir minn flokk með þeim hætti.

Það er mikil fjarstæða, sem borin hefur verið fram, að Jón Hallvarðsson hafi verið fulltrúi Framsfl. vestra. Miðstjórnin hefur aldrei beðið hann neins, og hann er henni alveg óviðkomandi.

Um það brigzl, að Bjarni Bjarnason hafi ætlað að múta með saumavélum, skora ég á frambjóðanda Sjálfstfl. á Snæfellsnesi að skrifa um opinberlega eða kæra til þingsins. Ef hann gerir hvorugt, lýsi ég hann opinberan ósannindamann að þeim dylgjum. Þá vil ég ekki láta þingmannsefnið sleppa alveg óskaddað frá þeim dylgjum, að Bjarni Bjarnason hafi lagt Snæfellinga í einelti. Það er þá fyrst frá því að segja, að þegar Hannes Jónsson fór að bjóða sig þar fram 1927, var sýslan undir verndarvæng Halldórs Steinssonar, föður Vilhelms þess, sem vínið gaf. Sýslan var eitt af mest vanræktu kjördæmum landsins. Einhver atvinnubótavinna var í þessari undarlegu hafnargerð, og á 13 árum var gerður 13 km langur vegur inn í sýsluna. Eftir að Hannes Jónsson fór að skipta sér af málum þar, gerðist það, að það var lagður og ruddur vegur frá Haffjarðará til Ólafsvíkur og Stykkishólms, byrjað var á vegum víða annars staðar og byrjað að berjast fyrir vegi frá Sandi til Breiðuvíkur. Þetta verk stöðvuðu sjálfstæðismenn.

Þá sagði sami ræðumaður, að við hefðum fellt till. um fjárveitingar fyrir sýsluna. Ég man eftir einu tilfelli, 1934. Þá bar þm. kjördæmisins fram kröfu um 200 þús. kr. framlag handa Stykkishólmi. Við vitum allir, hvernig fjárhagsástæðurnar voru þá. Það varð að skammta öllum. Bjarni Bjarnason, sem um 8 ára skeið var aðaláhrifamaður fjvn. með Pétri Ottesen, hefur átt meiri þátt í því en nokkur þm. annar að hafa jöfnuð á fjárframlögum í kjördæmum. Ég skal taka eitt dæmi. Meðan Hermann Jónasson var vegamálaráðh., var svo mikill jöfnuður á þessu, að hann, sem var í vegalitlu kjördæmi og samgöngulitlu, fékk sömu upphæð og þm. Dal. og Snæf. Það er viðurhlutamikið af hv. ræðumanni að brigzla Bjarna Bjarnasyni þarna, því að einmitt fyrir hans atbeina hefur að undanförnu ríkt meira réttlæti í þessum málum en áður hefur þekkzt.

Ég vil að lokum endurtaka það, að ég álít, að það eigi að fara eins að nú og í Hnífsdalsmálinu, setja sérstaka rannsókn í málið og láta svo Alþ. taka ákvörðun. Snæfellingar virðast ekki hafa tapað neinu á því, þó að fulltrúi þeirra væri um skeið í öðru landi. Þingið leit á hagsmuni þeirra fyrir því. Eins mundi fara nú, þó að frestað væri að taka gilda kosningu.

Hvernig hugsa verkamannaflokkarnir sér að temja auðvaldið á Íslandi, ef ekki með þessu? — Það ríkir megn óánægja í landinu yfir skiptingu síldarmjölsins. Ég held, að frumástæðan til þess, að enn vantar mikið af því, sé, að ráðherrarnir eru of ókunnugir lífi fólksins í sveitunum. Heil héruð höfðu ekkert síldarmjöl fengið í fyrra. En það, sem liggur fyrir og ekki hefur verið á móti mælt, er bein vitneskja frá kunnugum manni og merkum bónda í Hnappadalssýslu. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skömmu fyrir haustkosningarnar tóku bifreiðar úr Rvík að flytja síldarmjöl í stríðum straumum nærri á flest heimili í Hnappadalssýslu. Fylgdi með vínsamleg kveðja frá gefendum, 5em eru meðal helztu máttarstoða sjálfstæðismanna í Rvík. Einn bóndi varð þó algerlega útundan. Hann var nýfluttur í héraðið og á kjörskrá á Akranesi. Mjög eindregnir framsóknarmenn fengu ekkert af þessu gjafamjöli.“

Aðalforstjóri Kveldúlfs hefur sent síldarmjöl á alla bæi í öðrum hreppi. Hæstv. ráðh. segir, að þetta firma hafi oft áður látið í té síldarmjöl. En umsögn hans er ekki í samræmi við umsögn kunnugra manna þar vestra. Hvaða nauður rekur þetta firma, sem oft — og stundum kannske ranglega — er blandað inn í pólitík, til að senda bændum síldarmjöl óbeðið? Ekkert annað firma hefur gert neitt slíkt. Og svo fær kaupfélagsstjórinn í Stykkishólmi ekkert síldarmjöl.

Verkamannaflokkafulltrúarnir eru kosnir af fátækum mönnum og frá flokksbróður þeirra kom fram eina verulega krítíkin á síldarmjölsgjafirnar. Ef þeir við þessa atkvgr. segja: Við viljum ekki fresta afhendingu kjörbréfsins, þá geta þeir ekki orðið hissa, þó að þeir reki sig á það næsta ár, að aðrir noti sömu aðferðir.