15.03.1943
Efri deild: 73. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

126. mál, verzlun með kartöflur o.fl.

Eiríkur Einarsson:

Ég lét þess getið við 2. umr. þessa frv. hér, að ég mundi gera brtt. fyrir 3. umr. eða vera með brtt., ef hún kynni að koma fram. Nú hef ég ekki orðið var við, að neinn flytti hér brtt., og hef ég því, í samræmi við það, sem ég sagði, flutt brtt. En vegna naums tíma verð ég að bera hana fram skriflega, og með leyfi hæstv. forseta vildi ég leyfa mér að lesa hana upp. Hún hljóðar svo:

„Við 5. gr. Niðurlag 1. málsgr. („Verskráning garðávaxta“ o.s.frv.) orðist svo: Verðskráning garðávaxtanna skal aðallega miða við það, að framleiðendunum sé tryggt hæfilegt framleiðsluverð, en þó með nokkurri hliðsjón til markaðsverðs garðávaxta í nálægum löndum, að viðbættum flutningskostnaði.“

Ég vil þá leyfa mér að leggja þessa brtt. fyrir hæstv. forseta í þeirri von, að stjórn og hv. þdm. veiti afbrigði, svo að hún megi koma fyrir.

Ég þarf ekki að endurtaka það, að þau ákvæði í frv., er þessi brtt. á að leiðrétta, ná ekki nokkurri átt. Það þarf sem sé engra skýringa við, að reynslan hefur sýnt, að ákvæðin, eins og þau standa í frv., í lok 1. málsgr. 5. gr., brjóta í bága hvort við annað. Við 2. umr. voru færð þau rök fyrir þessu, að þannig hefði þetta staðið í eldri l. En mér þykir óþarft af hv. d. að lögfesta ákvæði, sem séð er, að ekki muni standa og ekki er farið eftir.

Það eru allir á einu máli um það, að vanda beri framleiðslu garðávaxta og örva hana, en það er í samræmi við tilgang þessa frv. að nokkru leyti. En það sér hver maður, að það verður svo bezt gert, að framleiðslukostnaðurinn fáist borinn upp. Því verður aðalmarkmiðið að vera hagræði og örvun í framleiðslunni, þó að ekki sé um neinn gróðaatvinnuveg að ræða. Hitt er svo ekki úr vegi, að hafa hliðsjón af erlendum markaði um verð, það er mýkra orðalag og ekki óeðlilegt. En í frv., eins og það er, er haft hausavíxl á aðaltilgangi og aukatilgangi.

Ég þykist svo ekki þurfa að hafa fleiri orð um þetta. Þó skal ég láta þess getið að öðru leyti um frv., að það er viðleitni til aukinnar vöruvöndunar, sbr. flokkun og vöndun útsæðis. En þrátt fyrir þessa viðleitni, sem veldur því, að ég fylgi frv., þá dyljast mér ekki ýmsir gallar á því. Hin gagngera flokkun er t.d. æskileg eftir orðanna hljóðan, en ég er hræddur um, að erfitt verði að fylgja henni fullkomlega eftir á frumbýlingsárum garðræktarinnar. Það vita t.d. allir, að á haustin flytjast kartöfluraar einkum hingað. Ef ætti að fela síðan einum manni aðalstarfið við matið, þá mundi það reynast æðimikið og dýrt starf, ef tryggt ætti að vera. Það þyrfti síðan að leggja á vöruna, svo að hún yrði við það dýrari. En þó tel ég viðleitnina á bak við þessa lagasetningu svo mikils virði, að ég tel ábyrgðarhluta að vera á móti henni, enda þótt þar sé ýmislegt vafasamt um flokkun og fleira. En um leið vil ég láta .þess getið, að þessu atriði verður óhjákvæmilega að breyta, er ég legg hér til, svo að ekki verði úr hrein vitleysa og mótsagnir.