27.11.1942
Neðri deild: 6. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

8. mál, vegalög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Síðast, þegar vegalög voru lögð fyrir Alþingi, sem mig minnir að vera 1940, var mjög mikið um það talað í Ed., að nauðsynlegt væri að finna ákveðnar reglur fyrir því, hvaða vegir skyldu komast í þjóðvegatölu og vera kostaðir af ríkinu. Ég leit þá svo á — og lít enn —, að þjóðvegir eigi að vera eingöngu þeir vegir, sem tengja saman héruðin og fjölmennustu eða helztu staði í sýslunum við aðalvegina, og þessir vegir eiga að öllu leyti að kostast af ríkinu. Ég leit svo á — og lít svo á enn —, að í 2. flokki séu vegir, sem að nokkru leyti eru notaðir af byggðalögunum, og þessa vegi eigi ríkið að sjá um að nokkru, en ekki öllu leyti, og í 3. flokki vegir, sem alveg eru notaðir af einstökum byggðalögum og ríkið ætti ekki að taka nema lítinn þátt í að byggja og viðhalda. Nú komast í þjóðvegatölu vegir, sem hafa sáralitla þýðingu fyrir heildina, meðan ekki eru komnir inn alfarav. og ekki búið að tengja þorp og kaupst. við þjóðv. Það er eingöngu tilviljunin, sem ræður því, hvað eru þjóðvegir og hvað ekki, og það er alveg gjörsamlega kerfislaust. Ég vil því mjög undirstrika það, sem hv. þm. S- M. sagði og vil ég biðja hv. samgmn. að athuga, hvort ekki eigi að taka upp þessa flokkun á þjóðvegum eins og rætt var um 1940. Ég vil benda á það, að vegalögin eru í 4 pörtum. Aðallögin eru frá 1933 og viðbót frá 1936 og 2 brtt. frá 1940, og ég held, að það væri miklu heppilegra að færa þetta saman og gera úr þessu eitt heilsteypt kerfi, sem sé miðað við það, að allir aðalvegir verði að öllu leyti kostaðir af ríkinu og þeir, sem koma næst, verði að mestu leyti kostaðir af ríkinu, en hinir ekki nema að nokkru, sem aðeins hafa þýðingu fyrir þau byggðalög, sem þeir liggja um.