24.03.1943
Efri deild: 80. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

136. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Eiríkur Einarsson):

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um frv. þetta eða afstöðu landbn. til þess. En ég vil þó aðeins láta þess getið, sem er aðaltilgangur og markmið þess, en það er að koma samræmi og skipulagi á hagnýtingu skurðgrafna og annarra ræktunarvéla, sem ríkisstofnanir hafa umsjón með í þágu almennings og jarðyrkju í landinu. Eins og kunnugt er, eru skurðgröfurnar helztar þessara tækja, og notkun þeirra og ráðstöfun hefur ekki reynzt á fullnægjandi hátt. Bæði hafa þessi tæki verið ónóg til að fullnægja eftirspurn og ýmsir vankantar á að geta nýtt þessi verkfæri til hlítar. Sú breyt. er gerð á með frv., að vélasjóður ríkisins verður eigandi að skurðgröfunum og öðru slíku, og yfirumsjón hans hefur Búnaðarfélag Íslands og n., sem þar stendur, að á að hafa reikningshald yfir þessi tæki og ráðstöfunarrétt á þeim. Með þeirri örvun um kaup og útvegun á þessum tækjum og þeirri vökumannsaðstöðu, sem vélasjóði er ætluð til þess að sjá fyrir nauðsynjum búnaðarsambandanna um vélakost, stefnir frv. þetta með öllum ákvæðum sínum mjög ótvírætt í rétta átt. Einnig eru í því fjárframlög fyrirhuguð, ef á brestur nauðsynleg tæki, fyrir tilstilli vélasjóðs, og reglur eru settar um, hvernig ríkið á, eftir því sem unnt er, að hlaupa undir bagga samkv. settum reglum. Landbn. er einróma á það sátt að mæla með frv. óbreyttu, eins og það liggur fyrir, og vænti ég, að d. geti fallizt á það einnig.