09.12.1942
Efri deild: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (2214)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Eins og fram er tekið í grg. fyrir þessu frv., er ástæðan fyrir því, að það er flutt hér í hv. d., sú, að ágreiningur hefur risið milli bæjarstjórnar Rvíkur annars vegar og hreppsnefndar Mosfellshrepps hins vegar um kaup á nokkrum jörðum í Mosfellssveit. Mér er kunnugt um, að hreppsnefnd Mosfellshrepps er töluvert kapp í, að þetta mál nái ekki fram að ganga, a.m.k. eins og frv. er borið fram hér í hv. d., og að hreppsnefndin vill leysa þetta mál nokkuð á annan hátt heldur en farið er fram á í frv. Ég vildi því gjarnan mega spyrjast fyrir um frv., og þá alveg sérstaklega spyrja hv. 1. flm., hversu viðtækar og ýtarlegar tilraunir hafi verið gerðar, áður en frv. var borið fram í þinginu, til þess að leysa þetta mál með frjálsu samkomulagi aðila. Og ég hef sérstaka ástæðu til að bera þessa fyrirspurn fram hér. Á landsmálafundi að Brúarlandi í sumar var þetta mál rætt nokkuð. Kom þar greinilega fram, hversu mikla áherzlu Mosfellssveitarmenn leggja á sinn málstað í þessu máli. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir í umr. þar, að hann væri reiðubúinn til þess að taka forgöngu í því að leita sætta í þessu máli. Og hann lagði nokkra áherzlu á það á fundinum, að hann teldi líkur til þess, að hann gæti komið á sáttum í þessu máli, þannig að ekki þyrfti að hljótast af því frekari þráttanir. Vil ég beina því sérstaklega til hv. 1. flm. frv., hvor t hæstv. forsrh. hafi gert tilraun til þess að koma þessu samkomulagi á, eins og hann bauð fram á fundinum, og með hverjum hætti sú sáttatilraun hafi þá farið fram og hvers vegna hún hefur farið út um þúfur. Ég legg áherzlu á að fá þetta upplýst. Og ef svo skyldi vera, að þessi sáttatilraun hefði ekki verið gerð, vildi ég mælast til þess, að tíminn þangað til frv. kemur úr n., verði notaður til þess að hæstv. ráðh. geri þessa sáttatilraun, sem hann bauð fram þarna á fundinum í sumar.

Sé ég ekki ástæðu til að ræða frv. frekar að sinni. Ég mun fylgja því til 2. umr. og vera með því að vísa því til n., en áskil mér rétt til þess að taka aðra afstöðu til málsins að fengnum frekari upplýsingum.