19.12.1942
Neðri deild: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Sigurður Kristjánsson:

Það hefur orðið orðakast hér út af þessari brtt. minni, og verð ég þess vegna að segja nokkur orð til skýringar, þó að þess ætti ekki að þurfa, því að það er ekki svo miklum vandkvæðum bundið að finna út, hvað fyrir mér vakir með till. en það er einmitt það sem hv. 2. þm. N.-M. sagði. Það er það að færa verðlagsákvörðunarvaldið til verðlagsn., og það er ekkert á móti því að segja alveg eins og ég meina um það, að ég álít þessum málum miklu betur borgið hjá dómn. en hjá verðlagsn. landbúnaðarafurða. Ég skal koma að því síðar, á hverju ég byggi þetta. En ég vildi fyrst koma inn á það, að mér er ekki skiljanlegt, hvers vegna menn vilja ekki festa verðlag á landbúnaðarvörum í þessum l., ef verðið á að standa í stað á þessum tíma. Það er rétt, sem hv. 2. þm. Eyf. tók fram, að l. fá allt annan svip við það, að þetta er ekki sett inn í þau, að þar er einungis talað um aðflutta vöru, en ekki einnig innlendu vöruna, sem ræður miklu meira um verðlagsvísitöluna. Mér heyrðist á l. þm. Árn., að frá hans sjónarmiði væri um að ræða allt að því ódæðisverk í minni till. Hann hafði ákaflega sterk orð um það, að hún ætti að komast undir nafnakall, hún verðskuldaði það. Ég get sagt þessum hv. dm. það, að ég óska, að till. komi undir nafnakall, og get líka sagt honum það, að ég álít, að þeir, sem greiða atkvæði á móti henni, séu ráðnir í að stuðla að því, að loforðin um, að verðlag skuli verða óbreytt, verði svikin. Ég mun leggja þann skilning í það. Mér er það með öllu óskiljanlegt, að menn vilji fella þessa till., ef þeir vilja ekki hafa útgöngudyr.

Það er talað mikið um fórnir, og skal ég taka undir það, að miklu er fórnandi til þess að geta stöðvað verðbólguna og dýrtíðina, en mér finnst, að þetta skraf um fórnir fari illa í munni þeirra manna, sem aldrei hafa viljað neinu fórna. Það er svo sem ekkert undarlegt, þó að þeir, sem geta grætt á dýrtíðinni, hafi tilhneigingu til að nota sér það, en þegar verið er að tala um fórnir, er viðkunnanlegra, að það tal komi fram í verkinu. Hvenær hafa talsmenn þeirra manna, sem selja landbúnaðarafurðir, viljað fórna nokkru? Ég hef aldrei orðið var við það. Ég hef mikinn kunnugleika á því að kaupa þessar vörur. Ég borga kr. 5400.00 á ári fyrir mjólk, en ég fæ ekki eina kýrnyt fyrir þetta verð. Það getur vel verið, að þessum mönnum finnist miklu fórnað til mín með þessu, en ég kannast ekki við það. Ágætur vinur minn selur mér þessa mjólk, og hún er ómenguð og skapar engin veikindi í mér eða fólki mínu. Vinur minn einn, sem selur egg, var heima. hjá mér um daginn. Sú vara hefur verið illfáanleg, en hann lofaði að setja mig ekki hjá. Ég sagði þessum vini mínum, að annar maður, sem ég þekki, segðist hafa um kr. 100 upp úr hverri hænu, og sagði, að mér þætti það ólíklegt, en hann sagðist hafa meira. Hann sagðist fá 180 egg frá hverri hænu, og hann selur kílóið á kr. 18.00, svo það lætur nærri, að hann hafi kr. 244.00 upp úr hænunni. Ég spurði hann, hvað fóðrið mundi kosta fyrir hænuna, og hann sagðist ekki geta reiknað það minna en kr. 25.00. Þetta er ein af þeim fórnum, sem færðar eru. Mér finnst eðlilegt, að menn selji fyrir það, sem þeir geta, en ég kann ekki við þessa skynhelgi fyrir framan mig, sem kaupi vöruna fyrir okurverð. Till. mín er ekki borin fram af illkvittni, Hún er borin fram af því, að ég álít, að við getum sett hér löggjöf, sem byggist á samkomulagi. Þess vegna álít ég, að fyrst eigi að tryggja, að verðlag á landbúnaðarafurðum sé fast, en eins og menn vita, er ég á móti því að lögbjóða verðlag á kaupi. Till. mín er alveg í samræmi við þessa skoðun mína.