16.02.1943
Neðri deild: 59. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. — Meiri hl. allshn. leggur til í nál. á þskj. 405, að frv. verði samþ., og standa að því 4 nm. af 5, en einn, hv. 1. þm. Árn., skilar sérstöku nál. og er frv. andvígur. Ég mun ekki fara langt út í málið að sinni, því að það er öllum þdm. kunnugt. Í Ed. gáfu báðir hlutar allshn. út rækileg nál., svo að afstaða þeirra varð fullvel skýr, og létu prenta ýmis fylgiskjöl, m.a. álitsgerðir hlutaðeigandi hrepps- og sýslunefnda. Hafa þm. átt kost á að kynna sér það allt. Aðalefni frv. er það í 1. gr., að nokkrar jarðir skuli lagðar undir lögsagnarumdæmi Rvíkur, og í 2. gr., að Reykjavíkurbæ skuli heimilað að taka jörðina Grafarholt eignarnámi. Hvort tveggja réttlætist af brýnni þörf bæjarins. Fyrir nokkru hefur hann fest kaup á Korpúlfsstöðum og jörðum, sem undir þá lágu, en eftir að kaupin voru fullgerð, kom hreppur inn og vildi neyta forkaupsréttar á nokkrum hluta eignanna. Samningar voru reyndir, er strönduðu algerlega. Eitt það sker, sem á stóð, var kaupverð Grafarholts, sem þótti of hátt. Hv. þm. G.-K. bar fram þá Ósk við allshn., að hún reyndi sættir milli aðila. N. getur að vísu ekki gerzt þar sáttasemjari, en meiri hl. yrði mjög ánægður, ef takast mætti, t.d. fyrir frumkvæði þeirra, sem fyrir sáttatilraunum hafa staðið; að koma einhverjum sættum á, og er n. fús að taka allar sáttatillögur til athugunar fyrir 3. umr.

Minni hl. hefur breytt nokkrum ónotum að meiri hl. í nál. sínu fyrir of skjóta afgreiðslu þessa þrádeilda máls, þar sem afstaða einstakra þm. var fyrirfram mótuð og vitað, að innan n. voru 4 með, en 1 móti. Virtist þá ekki ástæða til að eyða í málið mörgum fundum.