31.03.1943
Neðri deild: 87. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Hv. frsm. meiri hl. blandaði inn í umr. atriði, sem ég hafði ekki gefið tilefni til, að talað væri um. Ég veik alls ekki að kjördæmamálinu, og tal frsm. var ekki annað en hugarórar.

Hann taldi, að Rvík hefði ekki nóg ræktunarlönd. Hún á þó mikið land, sem er ekki enn ræktað, og samt stendur bænum til boða mikið af því, sem hann óskar eftir.

Hv. frsm. minntist á, að áður hefðu verið gerðar breyt. í stækkunarátt á lögsagnarumdæmi Rvíkur, og það í tíð Framsóknarstj. Það er rétt. Framsfl. taldi, að það væri sanngirnismál fyrir Rvík að fá þá breyt. fram, og þess vegna var hann henni fylgjandi. Ég álít líka, að þetta mál eigi að afgreiða á sanngjarnan hátt, en ekki með hirðuleysi um annarra hag. Það er góður vitnisburður um Framsfl., að hann vill láta sanngjörn mál ná fram að ganga, hver sem í hlut á, og þannig á að málum að vinna.

Frsm. minntist á starf Framsfl. í þágu sveitanna og sagði, að þrátt fyrir það fjölgaði fólkinu hér. Mér skilst, að þm. annarra flokka hafi líka viljað vinna að hag sveitanna, svo að þessi ummæli frsm. snerta þá líka, þó að um þetta mál, sem nú liggur fyrir, yrði tæplega sagt, að það verði til að gera fólkinu auðveldara að vera í sveitunum.

Loks skal ég víkja að því atriði, sem óskað er úrskurðar um. Kjalarneshreppi hefur verið boðinn forkaupsréttur að öllum þessum eignum. Ein jörðin er í Kjósarhreppi, og er sagt, að þeim hreppi hafi líka verið boðinn forkaupsréttur að öllum jörðunum. Hins vegar hefur hreppsnefnd Mosfellshrepps ætlað að nota sér forkaupsrétt á nokkrum jörðum og taldi sig hafa til þess fullan rétt. En þm. Reykv. vilja nú með lögum upphefja þann rétt, og er ekkert vafamál, að stefnt er að því að hafa með nýrri löggjöf af þeim réttindi, sem þeir eiga nú l. samkv., en það mun einsdæmi í þingsögunni og bendir til, að þm. Reykv. hafi ekki meira en svo sterka trú á málstað sínum. Þetta er eitt atriði í þessu máli, sem er ekki sem viðfeldnast.

Ég gef ekki um að fjölyrða frekar um þetta. Ég skal ekki fullyrða, að hér sé um stjórnarskrárbrot að ræða, en það er áreiðanlegt, að nærri er höggvið stjskr.