19.03.1943
Neðri deild: 79. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

154. mál, Kennaraskóli Íslands

Gísli Guðmundsson:

Ég stend hér að brtt. á þskj. 563 ásamt hv. 6. landsk., en skal ekki gera hana að umræðuefni, enda er fram komin brtt. frá hv. menntmn., svipuð að efni. En ég hef einnig borið fram brtt. á þskj. 559 þess efnis, að við frv. verði bætt ákvæði til bráðabirgða, sem felur í sér, að fræðslumálastj. sé falið að gera ráðstafanir til að tryggja kennaraskólanum hentugt land við jarðhita í sveit með það fyrir augum, að þar verði reist hús handa skólanum, þegar þörf gerist. Ætlazt er til, að þar yrði jafnframt heimavistarskóli fyrir börn, þannig að þetta gæti orðið æfingaskóli kennaraefna. Ég tel, að margt mæli með því, að kennaraskólanum sé reist nýtt hús og honum þá jafnframt ákveðinn staður við slík skilyrði sem þau, er talin eru í brtt. minni.

Ég hef átt tal við hv. menntmn. um þessa till., og síðan hef ég rætt hana sérstaklega við hv. frsm. n. Hv. frsm. óskaði þess, að ég tæki hana aftur sem brtt. við frv., og taldi, að eins mætti bera hana fram sem sérstakt mál í þáltill.- formi. Til samkomulags mun ég því fallast á að taka till. aftur að þessu sinni, en hún mun þá lögð fram síðar á þessu þingi sem þáltill.