24.03.1943
Neðri deild: 82. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (2434)

155. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Herra forseti. —. Frv. það, sem upphaflega lá hér fyrir á þskj.: 515, er um það að veita frú Ágústu Pétursdóttur, til heimilis í Rvík, fæddri í Rvík 9. febr. 1915, ríkisborgararétt. Þessu frv. fylgdi bréf frá dómsmálaráðuneytinu, sem ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp, vegna þess að það snertir önnur mál og aðrar umsóknir, og er þess vegna rétt að lofa d. að heyra það:

„Hér með sendir ráðuneytið hinni heiðruðu allshn. frv. til laga um veiting ríkisborgararéttar, ásamt fylgiskjölum. Óskar ráðuneytið, að frumvarpið verði lagt fyrir yfir standandi Alþ. og mælir með, að það verði samþ.

Þess skal getið, að auk þessarar umsóknar hafa ráðuneytinu borizt 7 aðrar umsóknir um íslenzkan ríkisborgararétt frá dönskum og norskum ríkisborgurum, en ráðuneytið sér sér ekki fært að leggja umsóknir þessar fyrir Alþ. að svo stöddu, með því að umsækjendur geta ekki fengið sig leysta frá því að vera ríkisborgarar í föðurlandi sínu, og ráðuneytinu hafa borizt kvartanir frá fulltrúum erlendra ríkja hér yfir því, að erlendum ríkisborgurum hafa verið veittur hér ríkisborgararéttur án samþykkis stjórnarvalda heimalandsins.

Þessi umsækjandi, sem hér á hlut að máli, frú Ágústa Pétursdóttir, er fædd hér og er dóttir Péturs heitins Halldórssonar borgarstjóra og konu hans. Hún hefur alið allan sinn aldur hér í Rvík, en giftist dönskum manni og fluttist til Kaupmannahafnar og dvaldi þar um tveggja ára bil. Síðan mun hún hafa skilið við mann sinn og flutt hingað til Íslands og mun hafa dvalið hér síðan. Ráðuneytið hefur mælt með því, að henni verði veittur ríkisborgararéttur, og hefur allshn. fallizt á það, en n. hafa síðan borizt umsóknir, sem ekki eru frá dómsmálaráðun., um ríkisborgararétt tveggja manna, þeirra Jóns Meyvants Sætran, sem nú er í Kaupmannahöfn, og Þorsteins Berstrand Sætran, til heimilis í Rvík.

Nú hefur það verið venja — og er atriði, sem er fullkomið athugunarmál, hvort Alþingi vill breyta frá þeirri stefnu, sem áður hefur verið tekin, — að veita ríkisborgararétt án þess að fá leyfi viðkomandi ríkisstj., þar sem viðkomendur annars eiga ríkisborgararétt. Þingið hefur haft þá venju að veita ríkisborgararéttinn án þess að spyrja stj. þess ríkis, þar sem maðurinn var áður ríkisborgari, um það. Hins vegar kemur fram í bréfi dómsmrn., að það þurfi fyrst að fá leyfi heimalandsins til þess að veita ríkisborgararétt, en Alþ. hefur ekki haft þá reglu fyrr. Ég vil benda á, að í l. um ríkisborgararétt, frá 1935 segir: „Enginn maður, sem með lögum hefur verið veittur ríkisborgararéttur, öðlazt hann, fyrr en hann hefur sannað það fyrir ríkisstj., að hann sé að fullu leystur af hinu fyrra ríkisfangi sínu og öllum skyldum, sem af því leiðir. Sé þessi sönnun ekki fram komin innan 12 mánaða frá birtingu veitingarl. í A-deild Stjórnartíðindanna, eru þau, að því er þann mann snertir, fallin úr gildi sjálfkrafa.“

Þessari reglu hefur Alþ. alltaf fylgt, þannig að það hefur samþ. l. um veitingu ríkisborgararéttar, en ráðuneytið hefur gengið eftir, að þeir væru leystir frá skyldum í heimalandi sínu. Annars fellur niður ríkisborgararéttur þeirra hér.

Það virðist koma sú skoðun fram í bréfi dómsmrn., að ekki sé rétt að mæla með, að Alþ. veiti ríkisborgararétt, ef umsækjendur eru ekki fyrir fram búnir að fá þetta leyfi. Þetta er alveg ný skoðun. Ef viðkomandi umsækjendur uppfylla skilyrði 4. gr. um 10 ára búsetu, hefur ekki verið hegnt og standa ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk, hefur Alþ. alltaf veitt þeim þennan rétt. Alþm. þurfa því að gera upp við sig, hvort þeir vilja fara eftir þeim venjum, sem Alþ. hefur haft og ég vil mæla með, eða eftir bréfi dómsmrn. Ég hygg, að ekkert ríki muni leysa mann frá ríkisborgararétti, fyrr en hann sannar, að hann geti öðlazt ríkisborgararétt annars staðar.

Ég skal geta þess í sambandi við þessa tvo menn, að þeir uppfylla öll skilyrði l. Þeir hafa verið búsettir hér alla tíð, hafa stundað hér iðn og leggja fram góð meðmæli. Það er aðeins eitt, sem vantar: Þeir hafa ekki getað lagt fram hegningarvottorð frá Noregi. N. mælir samt með máli þeirra, af því að það er vitanlegt, að það er enginn möguleiki til að útvega það nú, en hinsvegar er mjög ólíklegt, að mennirnir hafi gert fyrir sér þar.

Þá liggur fyrir umsókn frá dönskum manni, Börge Axel Jónsson matsveini. Hann er fæddur 1911 í Khöfn, en fluttist hingað 1931 og hefur siglt á íslenzkum skipum. Hann hefur góð meðmæli og kvæntist ísl. konu 1936. Þau eiga eitt barn, tveggja ára. Hann skuldar ekki sveitarstyrk og hefur ekki sætt refsingu. Allshn. mælir með honum og ber fram skriflega brtt. um hann.

Það er leitt, að utanríkisráðherra skuli ekki vera viðstaddur, því að málið hefur verið tekið tvisvar af dagskrá vegna tilmæla hans. Ég veit ekki, hvort ætti að láta atkvgr. fara fram, fyrr en hann er búinn að lýsa sinni skoðun.