11.12.1942
Neðri deild: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (2445)

40. mál, útsvar

Flm. (Áki Jakobsson):

Ég vil aðeins út af ágreiningnum um gildi skattaframtalanna sem heimild um tekjur manna og eignir benda á, að þegar frv. til útsvarsl. var hér til meðferðar á þingi 1926, þá voru það talin aðalrökin í grg. fyrir a-lið 8. gr., að niðurjöfnunarnefnd, þar sem atvinnustofnun starfaði, en ekki í heimilissveit eigenda, mundi kunnugast um tekjur atvinnurekenda. Ég vil þessu til sönnunar og með leyfi forseta lesa 8. gr. laganna og grg.

A-liður 8. gr. frv. frá 1926 segir, að leggja skuli á mann utan heimilissveitar: „Ef hann hefur heimilisfasta atvinnustofnun, svo sem útibú, víðar en í einni sveit, enda má þá ekki leggja á hann að því leyti í heimilissveit hans“.

Um 8. gr. segir grg. þessa sama frv. á þinginu 1926: „Auk þess, sem tekið er fram um þennan kafla, má geta þess, að undantekningin í a-lið er af hallkvæmisástæðum gerð. Kunnugleiki niðurjöfnunarnefndar á heimilisfastri atvinnustofnun þar á staðnum mun venjulega vera meiri en nefndarinnar í heimilissveit aðilans.“

Þetta voru þá talin rök fyrir því að leggja útsvar á heimilisfastan atvinnurekstur. Ef við tökum t.d. síldarsaltendur, þá hefur niðurjöfnunarn. á Siglufirði miklu betri aðstöðu til að vera kunnug tekjum þeirra og ástæðum en niðurjöfnunarn. í heimilissveit atvinnurekanda. —. Ég get ekki viðurkennt gildi þeirra mótmæla, sem hv. þm. Borgf. kom með. Að mínu áliti er ekki hægt að segja, að frv. raski þeim grundvelli útsvarsl., að menn skuli ekki vera útsvarsskyldir nema í heimilissveit sinni.