11.01.1943
Neðri deild: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (2455)

40. mál, útsvar

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. — Ég get vel skilið, að hv. þm. Siglf. vilji fá möguleika til að leggja útsvör og önnur opinber gjöld á starfrækslu þá, sem þar fer fram að sumrinu, og er það í samræmi við núgildandi útsvarsl. En hann heldur því fram, að til þess að þetta geti orðið, sé þörf þeirrar breytingar, sem hér er farið fram á. En ég get ekki séð, að breyting á þessu sé nauðsynleg.

Í 9. gr. útsvarsl. er tekið fram eftirfarandi, sem ég vil í sambandi við málið lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef skip leggur upp afla sinn utan heimilissveitar útgerðarmanns eða eiganda að minnsta kosti samtals 4 vikur af útsvarsárinu“, — þ.e.a.s., meðal annars í þessu tilfelli má skipta útsvari.

Nú skal ég lýsa því ofurlítið, hvernig útsvarsskipting eins og þessi hefur verið framkvæmd milli Rvíkur og Mosfellssveitar. Borgarstjóri sendi fyrst skrá yfir þá íbúa Mosfellshrepps, sem hafa a,tvinnu að einhverju eða öllu leyti í Rvík. Eftir þessu var svo hægt að leggja á hvern mann hlutfallslega eftir atvinnu hans á hverjum stað. Mosfellshreppur gat haldið eftir 1/3 af útsvari, þó að viðkomandi maður stundaði eingöngu atvinnu í Rvík. Þegar skipting hafði farið fram, var það athugað á ný, hvað gjaldanda hefði borið að greiða í útsvar í Rvík eftir þeim útsvarsstiga, sem þar gildir, ef stiginn er hærri þar en í Mosfellshreppi. Útsvarshluti hans til Rvíkur hækkar svo það mikið hlutfallslega sem hann hefði orðið að greiða, ef hann hefði átt heima í Rvík.

Ég sé ekki betur en Siglufjörður hefði getað haft fram sams konar kröfur gagnvart hliðstæðum mönnum, sem reka atvinnu á Siglufirði, með því að nota ákvæði núgildandi útsvarsl. út í æsar, - ekki síður en eftir þessu frv. En eins og farið er fram á í frv., þá gerbreyta þau ákvæði grundvelli núgildandi útsvarsl.