12.03.1943
Neðri deild: 74. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (2571)

108. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Frsm. minni hl. (Emil Jónsson):

Það er alveg rétt hjá hv. frsm. meiri hl., að ekki þýðir að hafa hér langt mál, þar sem svo fáir hv. þdm. eru í dag. Ég hef samt hugsað mér að fara nokkrum orðum um þetta mál frá upptökum og til þessa dags, en ég skal reyna að gera það í eins fáum orðum og frekast er unnt.

Öllum er kunnugt, að milli Ölfusár og Selvogs er stórt svæði, sem er alveg blásið land og ógróið. Mun fyrst hafa komið til mála að taka það til ræktunar á ný og r eyna að hefta þar sandfok árið 1937, er þáv. sýslumaður Árnesinga, Magnús Torfason, skrifaði sandgræðslustjóra um málið og lýsti því frá sínu sjónarmiði. Ég held, að þetta bréf hafi ekki komið fram áður við meðferð þessa máls, og tel ég því rétt að lesa kafla úr því, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir svo:

„Flestum mun nú vera kunnugt, að meiri hluti byggðar í Selvogi er uppblásin sandauðn. Sótti sandhafið að vestan frá Víðisandi yfir Vogsós og alla leið frá Ölfusá vestur með byggð í Selvogi.

Árið 1928 var hið. uppblásna Strandarland girt og grætt, en sjóvarnargarður hlaðinn á kampi. Hefur landfriðun þessi gefizt svo vel, að nú eru í girðingunni slegnir á annað hundrað hestar, og landið grær óðfluga ár frá ári, og má búast við, að það verði fullgrætt um miðja öld, enda vottar þar eigi lengur fyrir sandfoki.

Hins vegar heldur sandhafið að austan áfram að skemma byggðina. Er allt flatlendið með sjónum austan frá Ölfusá og út að Nestúnum eitt sandhaf. Að vísu er talsverður sandgróður með sjónum, en ofan til eru viðir sandgárar, er sækja upp Selvogsheiði. Brýtur þar heiðina ár frá ári, en sandhafið sækir upp á við og kæfir alla grasrót og er nú komið langleiðina upp að Kvennagönguhólum, en þar hallar norður af heiðinni. Er sýnilegt, að nái sandhafið að komast upp hallann, mun það á fáum árum eyða öllu graslendi, eigi aðeins þar norður af upp að Heiðinni há, heldur til beggja hliða, og þar með leggja land Vogsósa, Hlíðar og Stakkavíkur austan Hlíðarvatns í auðn, en hins vegar mundi bílvegur austur í Ölfus takast af með öllu. En kæmi til þess, yrði lítt byggilegt í Selvogi í stað þess, að nú eru þar öll efni til hagsællar byggðar, bæði til lands og sjávar.

Fyrir þessar sakir leyfi ég mér að fara þess á leit, að aðalblásturssvæðið og Selvogsheiði verði nú þegar girt og friðað samkv. 3. gr. l. um sandgræðslu, nr. 45 1923.“

Bréfið er lengra, en ég hirði eigi um að lesa meira, því að þetta skýrir, hvernig ástatt var, þegar hafizt var handa í upphafi.. Sandurinn sótti að Selvogsbyggð úr tveimur áttum, að vestan og austan. Því var hafizt handa að hefta sandfokið að vestan, og var girt í kringum Strandarkirkju með ágætum árangri, svo að landið grær þar. Að austan var að ýmsu leyti erfiðara. Þar var um stærra land að ræða, og fleiri áttu hlut að máli. Samt fer sýslumaður fram á það við sandgræðslustjóra árið 1933, að hafizt sé handa um að friða landið. Svo ber nokkuð á milli, hvað hafi gerzt í málinu. Halda sumir fram, og hefur það m.a. birzt í blaði hér í bænum, að fundur hafi verið haldinn í Hveragerði árið 1934 um, hvernig á þessum málum skyldi tekið, en um þetta eru menn ekki sammála. Ég hef fengið þá skýringu hjá sandgræðslustjóra, að þá hafi hann ekki verið búinn að fara á staðinn, og þess vegna geti ekki komið til mála, að hann hafi að órannsökuðu máli gengið frá girðingar stæðinu. Árið 1935 er svo í fjárl. hér á Alþ. ákveðið, að af sandgræðslufé skuli varið 10 þús. kr. til að girða sandsvæðið, og frá öðrum stöðum var tryggt framlag á móti bæði frá búendum sjálfum, frá sýslusjóði Árnessýslu, frá hreppnum og fleirum, sem lögðu fram fé í þessu skyni. 1935 er því allt undir það búið, að þetta verk geti hafizt og orðið framkvæmt á því ári.

Upphaflega mun hafa verið um það talað milli ráðh. og sandgræðslustjóra, að sandgirðingin að vestanverðu skyldi vera í svo kallaða Bjarnarvík, en eftir að sandgræðslustjóri hafði skoðað landið, taldi hann, að þetta girðingarstæði gæti ekki komið til mála; það væri óhentugt að því leyti til, að girðingin lægi langt frá byggð og því erfitt með vörzlu og eftirlit, og fleira var fundið því til foráttu að leggja girðinguna á þessum stað. Hann vildi fyrir sitt leyti leggja girðinguna heim undir Nestún, því að bróður þar fyrir austan væri meira og minna undirorpinn ágangi sands, og væri því ekki fyrir þessu máli séð, nema girt væri þangað heim undir. Samkomulag mun hafa orðið milli ráðh. og bænda um, að girt væri eins og nú hefur verið girt, í Nesvita, og þannig farið mitt á milli tillagna sandgræðslustjóra og þess, sem bændur vildu, og var eigi annað séð en að sæmilega væri við unað af báðum, enda má segja, að síðan gerist ekkert í málinu, nema að landið greri og heldur áfram að gróa enn þá.

En nú kemur annað til, svo að landið má ekki gróa lengur. Nú er talin meiri nauðsyn, eftir að landið hefur verið friðað í 5 ár, að taka það út úr girðingunni og nota það á þann hátt, sem búandanum finnst heppilegast, en að láta það vera friðað í nokkur ár enn, en friðun er sannanlega það bezta, sem þekkist, til að fá blásið land til að gróa á ný.

Hvað veldur þá því, að svo fast er sótt á, að bæði 1941 og eins á þessu þingi er flutt frv. um að fá landið úr friðun? Ég skal ekki segja um það, en víst er, að á það er lögð allmikil áherzla, að því er virðist. Ýmsir aðrir bændur eiga einnig land innan þessarar girðingar. A.m.k. tveir bændur í Ölfusi, á Hlíðarenda og Hjalla, létu af hendi nokkuð af sínu beitilandi inn í þessa girðingu án þess að taka nokkur laun fyrir nema þau, sem þeir ættu að telja þau beztu, að sjá landið gróa. Fyrir þetta land voru engir peningar teknir eins og þann hluta Ness, sem undir girðinguna féll. Það er vitað mál, að ef einn færi að taka land sitt út úr girðingunni, mundu fleiri koma á eftir með eins miklum rétti og vilja einnig fá sitt land. Þess vegna er hér aðeins um byrjunarskref að ræða til að minnka sandgræðslugirðinguna og þá um leið þær líkur, sem eru fyrir því, að landið grói. Eftir því, sem mér er tjáð, eru mjög miklar líkur til, að haldið verði áfram á þessari braut, ef svo tekst til, að frv. verður samþ.

Ég skal að öðru leyti ekki fara um þetta mörgum orðum. Mönnum virðist, að það sé vænlegra fyrir framtíð þessa býlis og aðkomu þessa bónda, sem mér er sagt, að gjarnan vilji vera þarna áfram, að landið fái enn að gróa en að taka það eftir aðeins 5 ára friðun til beitar á ný.

Öll landbn. þessarar d. var sammála um, að heppilegasta lausn þessa máls væri sú, ef hægt væri að fá þennan landeiganda til að taka móti fjárbótum úr ríkissjóði fyrir það óhagræði, sem hann telur sig verða fyrir, eftir því sem um semdist. N. bauð að beita sér fyrir því, að slíkar bætur yrðu greiddar, og í því liggur viðurkenning meiri hl. fyrir því, að æskilegt sé, að landið sé ekki tekið. Tveimur nm. meiri hl. var falið að tala við landeigandann og reyna að fá hann til að sætta sig við þessa lausn, en eftir því sem mér hefur skilizt og minni hl., mun þetta ekki hafa gengið, heldur mun landeigandinn hafa haldið sig fast við þá leið, sem í frv. felst, og vill engum sættum taka eða fjárbótum, sem mætti gera hann skaðlausan, fyrir það tjón, sem hann telur sig bíða. Það virðist því, að þetta sé sótt af meira kappi en rétt er, að því er mér virðist a.m.k., því að það á að vera fyrsta ástæðan til þess, að hann þurfi á landinu að halda, að fjárhagsleg afkoma hans sé ekki nægilega vel tryggð með því landi, sem hann hefur nú, og átti að mæta þeirri kröfu hans með þessari till. landbn.

Að öðru leyti vil ég leyfa mér að vísa til þess, að sandgræðslustjóri hefur eindregið mælt á móti því að taka landið úr girðingunni, og ég veit að skógræktarstjóri er sömu skoðunar. Hefur það komið fram í blaðagrein, sem hann hefur ritað um málið. Búnaðarsamband Suðurlands hefur gert ályktun í svipaða átt og nýafstaðið búnaðarþing hefur einnig gert sams konar ályktun. Allir þessir aðilar, sandgræsðlustjóri, skógræktarstjóri, Búnaðarsamband Suðurlands og búnaðarþing eru hér á sama máli, og þegar hv. frsm. meiri hl., þm. A.-Húnv., sem síðast talaði hér. segir, að hættulaust sé að samþykkja frv., því að það eigi fyrst að skoðast af dómkvöddum mönnum, sem eigi að gefa álit sitt, og stj. geti stuðzt við það, þá er því til að svar a, að þeir, sem hæfastir eru til að dæma um þetta mál, hafa þegar látið skoðun sína í ljós um þetta, svo að ég tel, að ekki geti framar komið fram álit frá neinum, sem betur hafa vit á þessu máli.

Enn mætti spyrja, hvort þessum atvinnuvegi, sauðfjárræktinni á Íslandi, sé nú þannig farið, að nauðsyn beri til að taka svæði, sem er að gróa, úr sandgirðingu, til þess að geta haft nokkrum kindum fleira í þessu landi en annars mundi hægt. Ég held, að þeirri spurningu þurfi ekki að svara, því að þeir erfiðleikar, sem verið hafa á að selja þann hluta sauðfjárafurða, sem ekki hefur verið markaður fyrir innan lands, hafa verið svo miklir, að ekki er þörf á að auka framleiðsluna á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, að verði.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Við hv. þm. Mýr. leggjum sem sagt til, að frv. verði fellt. Við höfum áður í n. tjáð okkur fúsa til. að tekið verði til athugunar á ný, hvort bóndanum hefur verið bætt nægilega það tjón, sem hann telur sig hafa orðið fyrir af þessum sökum, og það erum við fúsir til að taka upp hvenær sem er. En þessa leið, sem um ræðir í frv., teljum við svo varhugaverða, að við teljum ekki rétt að samþ. frv. og leggjum því til, að það verði fellt.