07.01.1943
Efri deild: 26. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (2620)

73. mál, jarðræktarlög

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Hv. þm. Str. beindi til mín atriði, sem ég vil koma nokkuð að, þar sem ég er eini búnaðarþingsfulltrúinn, sem sæti á í d. Mér er kunnugt um það, hvernig gekk áður á búnaðarþingum; þegar málið var í milliþinganefnd þar. Þá var það yfirleitt hugur manna, að mér virtist, að koma þessu ákvæði frá, sumir vildu gera það með breyt. og fá annað í staðinn, en aðrir vildu, að 17. gr., sem hér um ræðir, hyrfi án þess, að nokkuð væri eftir.

Í rauninni var mþn. búin að koma sér saman um þetta mál, en þegar á þing kom, skildust leiðir, því að það virtist hafa komið breyting á hugarfar manna í þessum efnum, og fram komu þá kröfur um fleiri kvaðir á jörðum en áður. En nú hefur það sýnt sig, að þetta ákvæði (17. gr.) hefur ekkert að segja um jarðarverð, því að það hefur aldrei verið hærra en nú.

Ég hef talið það rétt, ef ómögulegt yrði að fá þessu ákvæði breytt, sem hér er farið fram á, að fara fram á það, að bændur, sem hafa meiri fjárráð, megi endurborga styrkinn og kaupa sig þannig lausa frá þessari kvöð, ef þeim sý nist. Ég vil benda á það, að ekki er á rökum reist sú aðdróttun í garð bænda, sem fram kom hjá hv. 3. landsk. um það, að bændur vildu ná í styrkinn til þess að geta selt jarðirnar aftur með ágóða, heldur er það aðeins fullyrðing, sem á sér enga stoð í veruleikanum.

Ýmsir bændur hafa neitað að taka á móti jarðræktarstyrknum vegna kvaða þeirra, er honum fylgja. Á landsmálafundi í Búðardal lýsti hv. þm. Str. því yfir, að 17. gr. jarðræktarlaganna yrði afnumin, og frambjóðandi Framsóknarflokksins í Dalasýslu lýsti því þar yfir á fundum, að hann hefði gert málefnasamning við þann flokk um afnám hennar.

Ég vil nú ekki vera að karpa mikið um þetta mál, ég vil, að það sé athugað í n., eins og hv. þm. Str. lagði til. Treysti að nokkru loforðum hans vestra í vor og „Nú skal reynt, hvort kristinn kann kalíf orð að halda.“