05.02.1943
Efri deild: 48. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (2625)

73. mál, jarðræktarlög

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Það stendur hvergi í rökst. dagskránni, að eigi að fara að herða á ákvæðum 17. gr.

Það er eitt af undirstöðuatriðum landbúnaðarins hér sem annars staðar, að verðlag haldist sem mest óbreytt. Það var það, sem hélt íslenzkum landbúnaði uppi um aldir. Hið mismunandi verðlag, sem verið hefur síðan styrjöldin hófst, er það, sem skaðað hefur landbúnaðinn mest. Ef þeir flm. þessa frv. ætta að kippa þessu í lag með þessu móti, held ég, að ætti — að takmarka þær aðgerðir við það, að ábúendur fái jarðirnar keyptar samkv. fasteignamati. Ef á að skylda þá bændur til að selja jarðir sínar eftir 10 ár, hvers vegna þá ekki að skylda hina til þess líka?

Jafnframt ætti að taka það til athugunar, hvort þeir eigi að selja þær fyrir fasteignamatsverð. Ef ríkið er skyldað til að selja jarðir samkv. því mati, þá hafa ábúendur ríkisjarða við betri kjör að búa en aðrir. Ef jörð er seld samkv. fasteignamati á 10 ára fresti, mætti meta umbætur þær, sem gerðar hafa verið á þeim tíma. Þegar 17. gr. var til umræðu fyrir nokkrum árum, komu fram raddir úr Dalasýslu í þá átt, að jarðir skyldu seldar samkv. fasteignamati. Í Landsveit hefur verði jarða verið haldið niðri með því, að þær hafa verið seldar eftir því mati. Bændur þar voru þeir einu á öllu landinu, sem vildu ekki taka við styrk úr kreppulánasjóði. Ef til vill væri þetta leið til úrlausnar. Eftir fyrri styrjöldina var engin leið fyrir þá bændur að halda áfram búskap, sem keypt höfðu jarðir sínar of dýru verði, nema þeir töpuðu aleigu sinni. Þetta endurtekur sig nú. Ég vil spyrja hv. þm. Dal., hvort hann vilji hafa það svo að skylda bændur til að selja jarðir sínar aðeins á fasteignamatsverði, en um það hafa heyrzt raddir hér.

Bóndi einn í Mosfellshreppi sagði við mig: „Ég hef oft verið að hugsa um að selja ríkinu jörðina. Ég væri betur settur þá fjárhagslega.“ Þetta er rétt, því að þeir, sem búa á ríkisjörðum, eiga að ýmsu leyti við betri kjör að búa en þeir bændur, sem eiga jarðirnar sjálfir.