05.02.1943
Efri deild: 48. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (2628)

73. mál, jarðræktarlög

Frsm. meiri hl. (Páll Hermannsson):

Mér er nú ekki alveg ljóst, hvað veldur þeirri breyt., sem mér virðist vera hér orðin á hv. þm. Dal (ÞÞ). Hv. þm. Dal. er gætinn maður, orðvar og venjulega orðfár. Nú er hann orðinn svo mælskur, að það er eins og þegar bezt lætur hjá ræðuskörungum hér í hv. d. Ég segi honum það ekki til lasts, að hann er venjulega orðfár. En hvað veldur nú þessari hraðmælsku hjá honum? Ég held, að þessi breyt. sé af því, að hann er farinn að tala um 17. gr. jarðræktarl. og það á nákvæmlega sama hátt og venjulega hefur verið talað um hana oft síðan hún varð fyrst til. Hann gengur nú svo langt, — ég vil segja í rökvillum —, að hann telur sjálfsagt, að það opinbera borgi opinber gjöld af þeim hluta jarða, sem nemur fylgifénu. Borga ábúendur ekki opinber gjöld af þeim jörðum, sem þeir eru á yfirleitt? Ég er búinn að búa á jörð ríkisins, og ég hef borgað af henni opinber gjöld fyrir utan landskuldargreiðslur. Ef hv. þm. Dal. vill koma því í kring, þegar fram í sækir, að létta þeim gjöldum af mönnum, lasta ég það ekkert. Þetta sýnir, hve menn fara oft út í öfgar í umr. um þetta mál.

Hv. þm. Dal. taldi það rangt í nál., að þar væri talað um, að 17. gr. jarðræktarl. væri skyld ákvæðum annarra laga. Það er í nál. ekkert sagt annað um þessi ákvæði en það, að þetta er í 7. skiptið, sem fram kemur á Alþ. till. um þá breyt. á jarðræktarl. að fella niður 17. gr. En ég veit ekki til, að fram hafi nokkurn tíma komið till. um niðurfellingu á hinum ákvæðunum. En ágreiningur hefur verið um 17. gr. jarðræktarl. síðan l. voru sett, af því að átök voru strax í upphafi um það, hvort þau ákvæði ættu að vera í jarðræktarl. Og siðan hefur verið haldið uppi ágreiningi um 17. gr., af því að menn álitu það heppilegt deilumál. En ég held, að það hafi varla verið tekið alvarlega, þó að talað hafi verið í þessum tón um 17. gr. Ég veit ekki, hvort fleiri eru með henni heldur en móti. Ég held þó, að þeir séu engu fleiri, sem halda, að ákvæði þessarar gr. og skyldra ákvæða séu gagnslaus.

Þá sló hv. þm. Dal því fram, að þetta, að halda fast við 17. gr., væri ekki til annars fallið en að hjálpa sósíalistum í landinu til þess, þegar fylling tímans kæmi, að sölsa undir ríkið allar jarðir í landinu og lendur. Þetta er það, sem alltaf hefur verið sagt. En þetta veit þessi hv. þm. og allir aðrir, sem það hafa sagt, að er ekki nema bull, slagorð, sem líklega á að græða eitthvað á.

Hv. þm. Dal. heldur því fram, að l., sem halda niðri verði á jörðum, séu til tjóns fyrir bændur. Er það ekki rétt? (ÞÞ: Ég hef aldrei haldið því fram.) Ég hef nú skilið hv. þm. Dal. svo. Hver haldið þið, að tapi á því? Að minni hyggju eru það þeir, sem selja jarðirnar. Venjulega er það, þegar einn tapar í viðskiptum, þá hagnast einhver annar. Hverjir hagnast þá á þessum ákvæðum? Er það ríkissjóður, sem hjálpað er með þessu, eins og sumir halda fram, að sé stefnt að, að sölsa undir sig þessar jarðir? Tekur hann leigu eftir þessar lendur? Ekki svo ég þekki til. Ég get ekki séð, að aðrir hagnist á þessu en þeir, sem búa á jörðunum. Ef á að gera upp á milli þeirra, sem selja jarðir, og hinna, sem búa á jörðunum, þá er ég ekki í vafa um það, að hlynna beri að þeim, sem búa á þeim og reka atvinnu fyrir þjóðfélagið, heldur en þeim, sem kunna að selja jarðirnar og verja fénu fyrir þær alla vega, eins og gerist.

Hv. þm. Dal. var að tala um misrétti, sem væri milli venjulegra bújarða og býla í kaupstöðum, smærri eða stærri. Ef þar er um misrétti að ræða, þá væri gott tækifæri til að leiðrétta það í sambandi við endurskoðun og breyt., sem á þessu ákvæði kynnu að verða gerðar framvegis. Og mér finnst hálfvegis sitja illa á þessum hv. þm., sem sjálfur er búnaðarþingsmaður, að amast svo mjög við því, að búnaðarþing leggi ráð á um þetta.

Þá sagði þessi sami hv. þm., að það væri ákaflega hentugt að rífa niður áður en byggt væri upp. Ég held nú, að það sé ekki ákaflega hentugt að rífa niður bæinn sinn áður (ÞÞ: Ef byggt er á rústunum). Ég held, að það sé ekki ákaflega hentugt að rífa niður bæinn, áður en maður byrjar að byggja annan nýjan, eða þá hygg ég a.m.k., að gott vær i, að maður væri búinn að ákveða, hvernig nýi bærinn eða húsið á að vera, áður en rifið er. Og ég hygg, að þessi hv. þm. vildi líka hafa ákveðið það, ef hann þyrfti að byggja yfir sig.

Ég held, að langar umr. um þetta hafi ekki mikið að þýða, þær breyta ekki skoðunum manna eða afstöðu til málsins.

Það komst svo langt, að hv. þm. Dal. sagði, að þeir, sem héldu fram, að tilgangur inn með 17. gr. og öðrum slíkum ákvæðum væri gagnlegur, beittu sauðþráa. (ÞÞ: Ég sagði það ekki beint). Ég held, að það sé ekki síður sauðþrái að stagast á firrum og fjarstæðum í þessu sambandi. Þeir, sem það gera, vita vel, að það, sem efnislega vakir fyrir fylgjendum 17. gr., er að gera það sem kostnaðarminnst að búa á jörðum. Það getur verið, að vel sé hægt að búa, þegar lambið er komið í 100 til 120 kr. Þegar lambið er — eins og var fyrir stríð — á 10 kr., getur verið, að hvert þúsundið í kaupverði jarða hafi einhver ja þýðingu.

Ég er ekki í minnsta vafa um það fyrir mig, að ef dagskrártill. verður ekki samþ., þá greiði ég atkv. á móti þessu frv. En ég hélt, að hv. þm. Dal. gæti verið sammála um, að heppilegt væri að gera athugun og endurbættir í þessu efni. Það er alveg misskilningur hjá hv. þm. Dal., að dagskrártill. beri með sér, að herða eigi meira að bændum. Hún ber með sér, að það á að létta, eftir því sem hægt er, meira undir með bændum til þess að búa á jörðum.