08.01.1943
Efri deild: 27. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (2733)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Flm. (Kristinn Andrésson):

Herra forseti — Þau lög, sem lagt er til með þessu frv., að verði afnumin, voru sett fyrir rúmu ári síðan. Samkv. þeim skyldi ríkið eitt hafa rétt til að gefa út rit, sem samin eru fyrir 1400, og getur dómsog kennslumálaráðuneytið veitt leyfi til þess að gefa út þessi rit, en það leyfi skal bundið því skilyrði, að þau séu gefin út með samræmdri stafsetningu fornri. Hv. d. er kunnugt um, hvernig lögin voru sett og með hvílíkum hraða þau voru rekin gegnum þ. Auglýst hafði verið í dagblöðunum, að von væri á Laxdælu með nútíma stafsetningu, og sú auglýsing var ekki fyrr komin út en mikið veður var gert í blöðunum út af því, að nú ætti að fara að eyðileggja fornbókmenntirnar og breyta öllu og bylta. Á svipstundu var rokið til og flutt frv., sem átti að stöðva útgáfuna, áður en bókin kæmi út og nokkur hafði gert sér grein fyrir útgáfunni. Þessu frv. var hraðað sem mest. Bókin kom út áður en frv. var komið í gegnum þ., en þá var kominn svo mikill hiti í málið, að ýmsir þm. vildu ekki kynna sér hana. Margir voru þó á móti frv. og töldu fjarstæðu að samþykkja það. 1. þm. Reykv. sýndi fram á það með snjallri ræðu, að ekki næði nokkurr í átt að setja slík lög hér, kynnti sér útgáfuna og lét í ljós hrifningu sína yfir að lesa bókina í nútímaútgáfu, sem menn gætu notið betur heldur en þar sem stafsetningin hefur truflandi áhrif á lesturinn. Annar þm. skrifaði á móti útgáfunni í Vísi, en breytti svo um skoðun, er hann hafði lesið bókina, og kannaðist drengilega við að hafa hlaupið á sig. Samt fór frv. í gegn, og það fór ekki leynt, að það var ekki af áhuga fyrir fornbókmenntunum, heldur af persónulegri óvlld gegn útgefandanum. (BBen: Hver var útgefandinn). Halldór Kiljan Laxness. Frv. fór í gegn með þeim hraða, að ekki fékkst leitað álits sérfróðra mann,a eins og prófessora háskólans. Þannig marðist frv. í gegn fyrir menn, sem ýmist voru með því af persónulegri óvild eða fyrir vanþekkingu, er þeir héldu, að verið vær í að óvirða Íslendingasögurnar. Þetta var mesti misskilningur, það var verið að færa þær nær okkur með því að fjarlægja þann múr af óvenjulegri stafsetningu, sem annars er milli lesandans og efnisins. Það var verið að gera þær auðveldari til lestrar. Ýmsir góðir Íslendingar hafa viðurkennt, að þetta þyrfti að gera, og vil ég aðeins nefna einn, dr. Björn frá Viðfirði. Í grein, er hann skrifaði í Skírni 1907, gerir hann að tillögu sinni að snúa fornum rithætti sem mest til nútímamáls á alþýðuútgáfu fornbókmenntanna, og segir m.a. „Brýna nauðsyn ber til að ryðja braut milli fornra og nýrra bókmennta, og þau hamratröllin, er fyrst ber að leggja að velli á þeim vegi, eru þessar gömlu sérvizkukreddur, er dylja fornöldina augum almennings í fornu stafsetningarmoldviðri“.

Útgefandinn að Laxdælu, Halldór Kiljan Laxness, segir sjálfur um útgáfuna: „Með því að gefa út Laxdælu samkvæmt íslenzkri stafsetningu, hef ég viljað færa sönnur á, að mál bókar þessarar sé íslenzka, jafnauðlesin hverjum Íslendingi, ungum og gömlum, eins og bókin væri skrifuð í dag, sígilt mál íslenzkt og ekkert annað en íslenzkt, en hvorki „oldnordisk“ né „gammelnorsk“.

„Leyfist mér enn fremur að taka það fram í sambandi við þessa útgáfu, að ég álít það íslenzkt landvarnarmál, að sá sannleikur sé innrættur þjóðinni, að mál fornrita vorra sé í meginatriðum það, sem vér enn notum. Ef sú skoðun er viðurkennd, að þrettándualdarritin séu í meginatriðum á því máli, sem vér notum nútímamenn, hlýtur bein afleiðing hennar að vera sú, að rit þessi eigi að gefa út með nútímastafsetningu handa oss“.

En sem sagt, málinu var flaustrað af, áður en þm. yfirleitt höfðu gert sér grein fyrir, hvað þeir voru að samþykkja, enda var samþykkt málsins vanhugsuð, og liggja til þess margar orsakir.

1. Það var vafamál, hvort það er samræmanlegt ákvæðum stjskr. um prentfrelsi að taka einstök rit út úr og gera dóms- og kennslumálaráðuneytið að ritskoðun.

2. Það er fjarstæða, að íslenzka ríkið geti tekið einkarétt á útgáfu fornritanna nema að semja um það við önnur ríki, og eru þessi lög því bókstaflega pappírsgagn, þar sem hægt er að gefa fornritin út erlendis. Ef lögin ættu að ná tilgangi sínum, þyrfti að banna innflutning á bókum, sem eru prentaðar erlendis, svo að fornritin gætu ekki borizt hingað (BBen: Má ég gera fyrirspurn: Meinar ræðumaður, að rit, sem prentuð væru á Íslandi, flyttust ekki til Íslands?. Nei, að bannað yrði, að rit, sem prentuð væru erlendis, flyttust til Íslands, því að það væri ekkert auðveldara fyrir Íslendinga en að fara kringum l. með aðstoð útlendinga, sem l. ná ekki til.

3. Það er ekki til samræmd stafsetning forn, heldur aðeins tilraun síðari tíma manna til þess að hafa forna stafsetningu á fornritunum. Það er engin samræmd stafsetning á fornritunum, því að stafsetningin á þeim er, eins og kunnugt er, mjög á reiki, þar sem þau eru afrituð á ýmsum tímum og hvert tímabil hefur lagt til sína stafsetningu. Eins vita menn það, að þegar „citerað“ er í fornritin eða eitthvað lesið úr þeim í heyranda hljóði, er lesið upp með nútímaframburði. Það er því fjarstæða að lögbjóða forna stafsetningu og engu meiri ástæða til þess en að lögfesta fornan framburð. Það mætti benda á fleira í þessu máli.

En það er ekki réttvísin, sem er áhrifamesti dómstóllinn um útgáfumál, heldur dómstóll almenningsálitsins. Það er sá dómstóll, sem dæmir mest um gengi bókar. Hann segir til um, hvort útgáfan er vel eða illa af hendi leyst. Dómur almenningsálitsins og vísindastofnananna er áhrifameiri en ríkisvaldið. Hitt er annað mál, ef menn vildu leggja alla bókaútgáfu undir ríkið. Þá kemur til greina annað sjónarmið, en meðan það er ekki gert, er það ekkert nema fjarstæða að taka einstök rit út úr.

Síðan þessi lög voru sett, hefur verið gefin út ný útgáfa af Hrafnkels sögu Freysgoða, og hefur undirréttur Rvíkur dæmt útgefendurna í sekt. Ég geri ráð fyrir, að þessi dómur sé einsdæmi mikið og okkur væri lítill sómi að því, ef slíkt lærist til annara landa. (Dómsmrh.: Var þetta ekki líka fyrir brot á einkaréttinum?) Jú, auðvitað. Ég veit ekki, hver dómur hæstaréttar verður, en það væri mesti sómi þ. að afnema þessi lög og bíða ekki eftir dómi hæstaréttar.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi áttað sig á málinu síðan. Frv. var afgreitt í fljótfærni, og afstaða þeirra margra var byggð á misskilningi. Ég get ímyndað mér, að þeir hugsi yfirleitt öðruvísi um þetta nú orðið.

Ég vil svo að lokum leggja til, að málinu verði vísað til hv. menntmn.