01.04.1943
Efri deild: 86. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (2748)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Bjarni Benediktsson:

Það voru ummæli hv. flm. frv., sem ég vildi gera aths. við, frsm. 1. minni hl. menntmn., sem kom mér nú til að standa upp. Hann lýsti hér yfir því hvað eftir annað, að l. þau, sem hann nú flytur frv. um, að felld verði úr gildi, væru brot á stjskr. Ef svo er nú, að þau séu brot á stjskr., þá er í raun og veru óþarft fyrir Alþ. að taka afstöðu til þessa máls, vegna þess að um þetta hlýtur að verða dæmt í því máli, sem nú mun vera fyrir hæstarétti, og er þá réttast að fá úr því skorið þar, vegna þess að undir öllum kringumstæðum mun þetta verða dómsmál. Það verður ekki hægt að fallast á, að hér sé um stjórnarskrárbrot að ræða, fyrr en hæstiréttur dæmir, að svo sé. En ef hv. 7. landsk. þm. er svo sannfærður um gildi þessarar skoðunar sinnar sem hann lætur, ætti hann að vera öruggur með það og rólegur að bíða eftir þeim dómi. Hitt er svo annað mál, að fullyrðingar hans í þá átt sýnast á engan hátt geta staðizt. Fyrst og fremst er það, að ef rétt er, að hér sé um stjórnarskrárbrot að ræða, þá hefði þ. sjálfu og forustumönnum þess borið skylda til að vísa frv. til þessarar lagasetningar frá. En það var ekki gert, og mun ekki hafa komið fram nein krafa um það á Alþ. Engum manni mun hafa komið slík firra í hug. Undirdómur er fallinn í málinu, sem ég minntist á, og sakadómari, sem er mætur og glöggur lögfræðingur — einn með þeim beztu —, hann hefur kveðið upp dóm, þar sem hann telur, að lögin samrýmist stjskr. Og að þessum staðreyndum fengnum og án þess að hafa nokkuð sínu máli til stuðnings get ég ekki séð annað en hv. 7. landsk. þm. hafi gerzt nokkuð djarfur í fullyrðingum sínum um þetta atriði. Mér er að vísu kunnugt um það, að ýmsir mjög góðir lögfræðingar hafa hreyft því, að þessi l. brytu í bág við ákvæði stjskr. En ég hef frekar talið það gamansemi heldur en alvöru bjá mönnum. En sérstaklega hlýtur manni að koma það kynlega fyrir eyru, að hv. þm., með þá grundvallarskoðun, sem hann hefur annars vegar á eignarrétti manna og hins vegar á gildi listaverka og umráðarétti listamanna yfir þeim, sem glögglega lýsti sér í umr. um annað mál fyrir skömmu, að hann skuli nú gerast málsvari fyrir að halda því fram, að þessi l. brjóti stjskr. Þau ákvæði, sem hann á við með því að halda þessu fram, munu vera þau, sem nú eru í 67. gr. stjskr.:

„Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar á prenti; þó verður hann að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða.“

Aðalatriði þessarar greinar eru, að hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar á prenti, en hin ákvæði þessarar gr. eru eins konar verndarveggur kringum þennan meginkjarna greinarinnar. En ég vil spyrja þennan hv. þm.: Hvað er hægt að leiða af því, að hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar á prenti? Liggur í þessu ákvæði það, að það sé verið af stjskr. að löghelga, að maður megi taka hugsanir annarra manna, afbaka þær, misþyrma þeim og gefa þær samt út sem hugsanir þeirra sömu manna, en ekki sem hugsanir annarra en þeirra manna, sem verið er að afbaka hugsanirnar hjá? Ég verð að segja, að ef talið væri, að þetta mætti leiða af þessu ákvæði stjskr. í 67. gr., þá er það hlutur, sem hlyti að leiða til þess, að stjskr. yrði að breyta. En ef ekki er hægt að skýra ákvæði stjskr. á fleiri en einn veg, þá er ekki hægt að skýra þetta nema á einn veg, og þá þannig, að hv. 7. landsk. þm. hafi rangt fyrir sér. En það er a.m.k. sjálfsögð regla, ef hægt er að skýra slíkt ákvæði sem þetta á fleiri en einn veg, þá er tekin sú skynsamlegasta, en ekki sú allra óskynsamlegasta leið til að útskýra slíkt ákvæði. En hið síðar nefnda yrði gert, ef ákvæði stjskr. væru skýrð þannig, að leyfilegt væri álitið, að maður mætti taka verk annarra manna, afbaka þau og kalla þau eftir sem áður verk þeirra sömu manna, sem upphaflega sömdu þau.

Með þessum l., sem hér er verið að deila um, er ekki gert annað en það, að sú vernd, sem riti er veitt í sambandi við höfund sinn, er um sumt látin haldast lengur en í 50 ár. Ef á annað borð væri hins vegar gengið inn á skoðun hv. 7. landsk. þm., þá mætti alveg eins telja, að sú vernd, sem rithöfundum er veitt með höfundal., sé ekki réttmæt, l., sem þessi hv. þm. á dögunum vildi ekki afnema, heldur gera strangari og gera miklu erfiðara fyrir með henni fyrir alla aðra en höfundana að njóta verka þeirra, hvað þá heldur að afbaka þau, sú vernd á eftir till. þessa hv. þm. þar um að standa lengur en 50 ár. Og þetta 50 ára tímatakmark er miðað við dánardagur höfunda, og er þá eðlilegt, að í staðinn fyrir, að áður er miðað við höfundana og þeirra nánustu ættmenn, þá sé um fornritin miðað við það að fela ríkinu að halda uppi þessari vernd til þess að sjá um, að þær afbakanir, sem óheimilar eru á ritum nútímamanna, verði einnig bannaðar á tilteknum öðrum ritum og einmitt þeim ritum, sem með sönnustu má segja og oft hefur verið sagt um, að séu sameign allrar íslenzku þjóðarinnar. Og þess vegna getur engum öðrum en íslenzka ríkinu staðið það nær að gæta þess, að rétt sé með þær farið. Og að ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til þess að hæstv. Alþ., geti ekki staðizt 67. gr. stjskr., það get ég ekki séð, að sé annað en hrein fjarstæða. Og með sama rétti má alveg eins og miklu frekar segja, að höfundal. og þær takmarkanir, sem þar eru lagðar á ritfrelsið — ef svo má segja —, á það að taka hugsanir annarra manna og afbaka þær, það sé óheimilt samkv. 67. gr. stjskr. En slíkt getur engum dottið í hug um þessi rit heldur en önnur. Allra sízt finnst mér skiljanlegt, að þm. með sömu grundvallarskoðun eins og hv. flm. þessa frv., sem að sumu leyti réttilega telur, að engin verðmæti geti haft gildi nema því aðeins, að þau hafi þýðingu fyrir þjóðfélagsheildina, hann skuli hér vilja láta verðmæti þjóðarheildarinnar, sem eru fornritin, njóta minni verndar en verðmæti einstakra manna nú á dögum. Þetta væri skiljanlegt, ef hann mæti þjóðarheildina minna en einstaklinginn. En þar sem hann annars virðist meta þjóðarheildina meir, eða hann vill svo vera láta, þá er mér alveg óskiljanleg afstaða hans og sjónarmið í þessu máli.

Það er nú sannast bezt um þetta mál að segja, að það eru hlaupnar í það nokkrar öfgar og pólitísk togstreita, sem er nú ekki til þess að skýra fyrir mönnum meginatriði þess eða hjálpa mönnum til þess að komast að niðurstöðu í málinu. Út af fyrir sig véfengi ég ekki, að það vaki annað en gott fyrir hv. flm. og öðrum þeim, sem vilja með þessum hætti gefa fornritin út á annan veg en áður. Ég er ekki eins sannfærður um það og hv. þm. S.-Þ., að þetta sé allt í illu skyni gert og af glæpatilhneigingu þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli. (JJ: Það var einn möguleikinn). Það getur verið, að hv. þm. S.-Þ. þekki þetta betur en ég, þeir menn, sem hann setur þetta fram um, hafa verið hans andlegu fóstur og afkvæmi, og hann veit, hvað í hans skugga hefur þróazt. En ég vil ekki afgerandi telja, að það sé þetta, sein fyrir þessum mönnum vakir. Ég get hugsað mér, að þeir hafi ætlað sér að gera fornritin aðgengilegri til lestrar heldur en áður. Ef menn eru komnir á hættulegar villigötur, þótt í góðri meiningu sé, má ekki þola þeim að halda þar áfram til óbætanlegs tjóns, og það þótt slíkt hafi hent beztu menn með góðar og hreinar hugsanir.

Fyrir utan þá skemmd á fornritunum, sem ýmsir telja, að hér sé verið að vinna, og mér virðist jafngilda því, ef út yrðu gefnar eftirmyndir af listaverkum, lagaðar af viðvaningum og settar í „betri búning“, — ef t.d. væru lagfærðar þannig myndir Kjarvals, Jóns Þorleifssonar, Gunnlaugs Schevings og fleiri þeirra, sem hv. 7. landsk. ber mest fyrir brjósti, — þá er verið að rýra samhengi tungu okkar, og bókmennta á hættulegan hátt. Íslendingar hafa löngum talið sér það helzt til ágætis, að þeir hafi varðveitt þetta samhengi órofið, tungan er nokkurn veginn óbreytt, þannig að okkur finnst sjálfsagt, að við getum lesið viðstöðulaust fornrit okkar eins og rit frá því fyrir 20 árum eða rit gefin út í dag, málið veldur litlum sem engum hindrunum. En hér er verið að greiða fyrir breytingum, sem yrðu örlagaríkar og geta orðið upphaf að algerum klofningi málsins í fornt mál, sem fæstir skildu, og nýtt mál. Það viljum við ekki, og þessi starfsemi fer einmitt af stað, þegar við þurfum að gera allt, sem unnt er, til þess að þjóðerni okkar glatist ekki í yfirstandandi hættu. Ég veit, að hv. flm. gengur ekki illt til í því efni. Hann er maður bókfróður og lætur sér í rauninni annt um íslenzkar bókmenntir. En hann og þeir, sem hann hefur gerzt málsvari fyrir, hafa komizt út á þá hálu braut, sem stöðva verður þá á, ef ekki á stórtjón af að hljótast.