05.04.1943
Efri deild: 88. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (2761)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. – Það hafa farið fram langar umr. um þetta mál, og þingið hefur eytt fleiri dögum í það. Ég hef setið hér þolinmóður og hlustað, en ummæli fyrrv., hv. 1. þm. Reykv. gáfu mér tilefni til þess að segja nokkur orð. Hann sagði, að þetta þing, þetta hálfdeyjandi þ., sem ekki gæti komið sér saman um stóru málin, væri að eyða tíma í þetta litla mál.

Mér finnst það ekki sitja á þessum hv. þm., sem setið hefur á Alþ. í mörg ár og átt sæti í stjórn landsins, að gerast fylgjandi þeirra, sem kasta hnútum að þ. á þessum tíma. Og því má ekki vera ósvarað. Hann veit, að það er m.a. af því að ekki er hægt að segja allan sannleikann, að þ. verður nú að þola, að því sé álasað. Hann veit, að þegar allur sannleikurinn verður sagður, þá skilur þjóðin, við hve mikla erfiðleika þ. hefur átt að etja.

Annars vil ég snúa mér að meðferð þessa máls. Ég vil benda á, hvernig það er undirbúið, svo að við, sem ekki viljum ræða það, getum betur gert okkur grein fyrir því, hvernig við viljum greiða atkv. Ég hef komizt að þeirri niðurstöðu, að málið muni hafa verið sent til menntmn. 11. jan. Síðasti fundur í n. var haldinn 5. febr. Svo skeður það merkilega í málinu, að 2 nm., form. og frsm., gefa út sameiginlegt nál. 5. marz, eða mánuði eftir að síðasti fundur er haldinn í n., og án þess að halda fund sjálfir.

Á þskj. 575 kemur líka fram, að fundur hefur ekki verið haldinn í menntmn. síðan 5. febr. Svo er ekkert gert, þar til frsm. leggur fram sérstakt nál. og gleymir þá sameiginlega nál. frá 5. marz. Þetta síðara nál. er á þskj. 575 og dags. 19. marz. Þá kemur form. n. fram með annað nál., dags. 22. marz, og loks kemur 3. nál., dags. 24. marz, frá 3. nm. Þessi nál. semja þeir hver um sig án þess að tala saman. Ef þessir hv. nm. ætlast til þess, að þessi hv. d. geti skapað sér skoðun á málinu, án þess að það sé betur undirbúið, þá finnst mér það benda til þess eins, að það þurfi að skipta um menn í n. og láta málið fara til baka í n.

Sjálfur frsm. hefur farið í gegnum sjálfan sig í nál. og líka í ræðum sínum. Sannleikurinn er sá, að frv. byggist upphaflega á flokkshatri. Og svo er öll meðferð málsins í n. eftir því, eins og von er, því að a.m.k. tveir nm. geta ekki fengið sig til að sitja við sama borðið og ræða málið og leggja til hliðar persónulegar óvildir á meðan. Hér í þessari hv. d. hefur flm. kastað fram alls konar staðhæfingum og óvirðulegum orðum að öllum, sem hér hafa setið. Það er raunverulega það eina, sem maður getur séð, að þetta frv. eigi að þýða, — að nota það til að óvirða pólitíska andstæðinga, persónulega andstæðinga og hv. d. Hv. 1. þm. Reykv. fannst sjálfsagt, að menn fylgdu hv. flm. að málum, af því að hann hefði svo mikið vit á bókmenntum, en mér finnst, að það ætti að vísa málinu til baka til nefndar.